Færslur septembermánaðar 2004

Að baka………

Miðvikudagur, 29. september 2004

Ég ákvað að baka áðan og það klúðraðist allt sem gat klúðrast. En úr því komu ágætis lummur, ætla að gefa ykkur uppskriftina af lummum á þennan hátt.

Byrjið á því að ákveða að baka brauð. Hlakkið mikið til að borða brauðið, ilmurinn, bragðið.. ummm…
7dl hveiti
2 tsk sykur
1 tsk salt
ooó… vantar ger.
Hringja í vin, athuga hvort hann eigi ger.
Nibbs… ekki frekar en þú.
Þá eru góð ráð dýr.
AHA! það er hægt að baka lummur úr þessu.
Bæta við rúmlega tsk af lyftidufti, stækka uppskrift aðeins þar sem það eru bara 5 dl af hveiti, og rúmlega dl af sykri. Bræða smjörlíki, 4 mtsk af því. 1 egg og mjólkurslurkur. Kæla smjörlíkið með smá mjólk svo eggin steikist ekki (betra að blanda öllu blauta gúmmelaðinu saman). Nema það er bara til botnfylli af mjólk. Jæja, það hlýtur að reddast. Brjóta eggið, láta dripla úr egginu í smjörlíkið og mjólkina og komast svo að því að þetta er fúlegg. Hella þessu svo í ruslapoka, kúgast mikið. Út í tunnu með þetta, kúgast mikið.
Hugsa….
hugsa…
Taka frá c.a. helming af hveitiblöndunni, bræða slatta af smjöri (ekki smjörlíki), 2 dl vatn, 2 egg. Hafa þetta seigfljótandi. Berjast við að koma deiginu á pönnu, rembast við að það límist ekki saman á pönnunni… prófa að setja eina stóra klessu, erfiða við að reyna að snúa henni við án þess að hún límist saman… halda sig svo bara við þær litlu.
Berist svo á borð, etið með smjör og ost með bestu lyst:)

andvaka…

Þriðjudagur, 28. september 2004

Andvaka eins og alltaf..
kannski ekkert skrýtið þar sem ég sef vanalega frameftir..
kannski ekkert skrýtið þar sem ég er vanalega andvaka.
Já… þessi eilífa hringrás, baráttan milli svefns og vöku. Hjá mér eru þetta sjálfstæðar verur, svefn og vaka. Fætur mínir ráða nóttunni, illa pirraðir stúfar að gera mig gargandi vitlausa. Mig langar oft að garga “Á fætur lappadruslur, og það ÁN MÍN!! urrrrrrrrrrr……… voff voff… mjá…hvæs…rooooooooaaaaarrr.”
Þegar það nálgast morgunn þá hætti ég að urra og næ að festa svefn. Mig dreymdi í morgun að ég væri að snæða kotasælu, hún var komin á tíma greyið en ég át hana samt með bestu lyst. Morguninn áður dreymdi mig að ég væri að hjóla í drullupollum, var með drulludoppur eftir öllu bakinu og niðurgang á buxnarassinum. Í dag þreifaði ég svo af og til á rassinum, bara að tékka.

Mótmæli!

Miðvikudagur, 22. september 2004

Hnuss… ég er sein að fatta og nú loks þegar fattarinn fór í gang þá ætla ég að mótmæla. Margir, margir fantisera um svokallað ‘búningafólk’. Hjúkkur, löggur, lækna, málara já og jafnvel ruslakalla. EN hingað til hef ég ekki heyrt neinn fantisera ræstingarkonur!! Hvers vegna ekki? Minn búningur er afskaplega flottur, blár víður sloppur og rauðir gúmí hanskar. Er þetta ekki nógu sexý??? Mér er spurn. Þarf ég að mótmæla þessum búningum svo ég geti glöð skúrað vitandi það að það sé einhver þarna úti sem dreymir að ég sprangli um nakin í þessum fallega búning með hanskana á lofti??
Hvað er ósexý við ljótbláann lit, víðann slopp með hneppum *úllalla* nokkrir djúpir vasar á stangli og eldrauðir gúmmihanskar, góðir jafnvel til flengingar.. svipan óþörf þar HAH!!?????????

Auli.. hahh

Miðvikudagur, 1. september 2004

Ég var að hjóla heim úr vinnu. Orðin soldið þreytt í fótunum og fann smá sviða í lærunum. Datt það snjallræði í hug að bruna heim eins hratt og ég gæti svo ég fengi meiri sviða í lærin, meiri sviði meiri árangur. Ég hjólaði og hjólaði af öllu afli en ég fann hreinlega ekki fyrir neinu. Svo sem ekkert undarlegt þar sem ég var að hjóla á jafnsléttu í fyrsta gír. Á mánudaginn var sem betur fer leiðindaveður. Litlan mín í pössun hjá stóru sys, hjólið mitt þar og ég þurfti að koma okkur báðum heim. Ekki labbar hún, ónei, svipuð óhljóð í henni labbandi og svíni að hrína. Ég tók á það ráð að skella hennar hjálm á mig og hjóla á hennar hjóli. Ég var eins og ofvaxin 5 ára krakki brunandi þarna. Enginn á ferli mér til mikillar lukku. Svona er að hugsa út dæmið á nó tæm.
Enda sagði dóttir mín daginn eftir að hún ætlaði að sýna mér meiri þolinmæði, já ég þarf að fullorðnast.