Færslur nóvembermánaðar 2004

Ha? graður, hvað er það?

Laugardagur, 6. nóvember 2004

3 fuglinn kominn í hús. Áttum einn fugl og langaði í einn til viðbótar. Hjónin sem systir mín á eru rosalega iðin við kolann. Jæja, fékk mér einn fugl hjá henni fyrir nokkru síðan en hann dó eftir 2 daga hjá okkur *snökt*, var vannærður áður en hann kom litla skinnið. Kellan er svo iðin við að verpa að hún hefur ekki tíma til að koma ungnunum upp, drífa þá út svo hún geti haldið áfram. Þá tók ég annan. Heppilega var ég búin að lesa mér aðeins til um gára. Vanalega eru augun á gárum svört, en þegar þeir verða kynþroska og langar að fá sér á broddinn þá minnkar svertan og hvítur hringur sést. Jæja, minn maður sá þessa flottu skvísu sem var komin í hús og langað í smá fjör, dóttir mín varð hrædd þegar augun á fuglinum urðu svona skrýtin, skildi ekkert í þessu. Án þess að hugsa sagði ég “jájá, hann er bara graður”.

Bað.

Þriðjudagur, 2. nóvember 2004

Á sunnudaginn var vinafólk mitt með afmælisveislu fyrir eins árs gamalt barn sitt. Nú, vinkona mín varð afskaplega þreytt eftir amstur dagsins og ákvað því að fara í bað, sleppti þar ofan í rauðri kúlu sem átti að vera slakandi jurtir í. Tók hún með sér góða bók og leyfði þreytunni að líða úr kroppnum.. mmmm… lííííííííííða úúúúúúúúúr. Maðurinn hennar var að dunda sér frammi, örugglega glaðhlakkalegur á svip eins og honum einum er lagið, að fá kerluna vel afslappaða og ilmandi í bælið. Dammdarammdídamm… tíminn leið en aldrei kom kella. Fór hann að undrast um hvað hún væri að gera í baðinu, rúmlega klukkutími síðan hún stökk oní. Karlgarmurinn lagði eyrað að hurðinni hugsi á svip, opnaði hurðina og laumaðist til að kíkja. Brá honum heldur betur í brún þegar hann sá að það bærðist ekkert á kerlu og baðvatnið var BLÓÐRAUTT!. Já, hann var hvorki hugsi né glaðhlakkalegur lengur, hann ýtti við kerlunni en fékk ekkert svar.. dauðskelkaður hrissti hann hana til og orgaði á hana að vakna, déskotinn hafi það. Já, segir hún og opnar augun ljómandi af ást yfir þessari truflun, HA.. sofnaði ég? *blink*

snillingur;)

Mánudagur, 1. nóvember 2004

Ég er snillingur, það er sko ekki orðum aukið. Ég var að fara að hátta, reigði kassann og glotti stórum af stolti yfir afreki helgarinnar. Þá datt yfir mig svakalegur dugnaður alveg upp úr þurru, ég tók til krakkadraslið sem er svo miður gott að stíga á, henti öllu út og bónaði gólfið þangað til ég gat speglað mig í því. Já, og veggirnir urðu ekki útundan, ég bónaði þá samt ekki. Jæja, ég var að monta mig við sjálfa mig hvað ég væri dugleg, ýmindaði mér að ég væri að bóna frammi og gera allt fínt þar, gestir og gangadi hrósuðu mér í hástert um hvað það væri nú gasalega svaka fínt hjá mér - já það er satt að það gerist ekki á hverjum degi - hvað þá einu sinni á ári!! Jæja já, svo ætla ég að renna niður buxunum léttilega þegar rennilásinn er pikkfastur. Ég bisaði við að losa en lítið gekk, í öllu mínu monti var ég föst í buxunum. Ég teygði á þessu drasli og tókst að lokum að losa, hjúkket. Ég henti mér í bælið en gat engann veginn sofnað. Dröslaði mér framúr og ætlaði sko ekki að festast í buxunum aftur. Ég teygði á buxunum til að losa almennilega um rennilásinn en tosaði aðeins .. bara ogguponsu of fast og reif klofið af buxunum. Ég sit nú samt hérna… með allt galopið.