Færslur desembermánaðar 2004

úppsa

Miðvikudagur, 29. desember 2004

Ég er ekki viss hvort ég ætti að gera játningu hérna. Þarf aðeins að hugsa, bíddu aðeins…..
OK OK.. ég skal þá játa, þvílíkur þrýstingur hérna. Lummuppskriftin sem er hérna neðar var tilkomin vegna þess að ég átti ekki ger. Jæja, ég átti það víst á þeim tíma. Ég var að taka til í gær, ekkert smá ofurdugleg. Mér varð á að kíkja ofan í nokkra dunka og hvað ætli ég hafi séð þar??!!?? Jú jú… gerið mitt góða. Í einhverju hreingerningarkasti hafði ég plantað gerinu í þennan fína dunk, ásamt kanil og matarsóda. Skildi ekkert í því hvers vegna gerið, matarsódinn og kanillinn hefðu allt í einu horfið. En fyrst ég er byrjuð að tala um fínu dunkana mína þá er sko rosalega spennandi saga á bakvið þá (góð tilraun til að leiða hugann frá heimsku minni HAHH!). Lengi horfði ég löngunaraugum á þessa fínu dunka, í þeim var, að ég hélt, te. Nema þeir kostuðu rúmlega 1000 kr með þessu tei, örugglega mjög gott og fínt te. Um ári seinna fóru fínu te dunkarnir á útsölu, vildi greinilega enginn kaupa þetta svona dýrt. Ég keypti þetta fína te á 100 kr minnir mig, hljóp með þá heim og var ekkert lítið spennt að smakka þetta ofurdýra og fína te á þessum gasalega fína prís. NEMA…. þetta var ekkert te!! Þetta voru ljótar, risastórar rúsínumuffins! Þar að auki voru þær búnar að húka í þessum dunkum í meira en ár… OJ!
Jæja, en núna mörgum árum seinna á ég þessa fínu dunka og hef ekki hugmynd um hvað ég á að gera við þá. Sé það núna að þetta er meira sorgleg saga *SNÖKT*. Hver ætli verði endalok dunkanna? Á ég eftir að finna þeim stað? Á ég eftir að finna þeim tilgang?
Framhald í næsta þætti……..