Færslur marsmánaðar 2005

Blessuð börnin….

Laugardagur, 19. mars 2005

Hvað er þetta með börn. Um daginn var ég rosalega dugleg að þrífa baðherbergið, dundaði mér heillengi við að þrífa hátt og lágt. Daman og vinkona hennar þurftu af og til að koma og dansa fyrir mig og trufla mig eins og hægt var. Þegar ég var loksins búin, allt orðið hrikalega hreint og flott Þá hlupu þær inn á bað og hófu að sulla!! Ekki nóg með það þær þurftu líka að hlaupa í sturtubotninum, var greinilega of hreinn fyrir þeirra smekk.
Jæja, ekki er öll saga sögð sko!

Daginn eftir var ég rosa rosa dugleg, tók til og þreif allt vel og vandlega fyrir utan baðherbergi og svefnherbergi. Frændi okkar dömunnar var í heimsókn hjá henni. Á meðan ég var að þrífa voru þau hlaupandi fram og til baka, í eltingarleik, feluleik, sísvöng og allt sem þeim datt í hug til að trufla mig. Þegar ég var búin voru þau bara inni í herbergi að spjalla saman, engin læti, engin hlaup, ekkert svöng… stilltari en veðrið hér á landi. En samt varð frændi minn að fá sér vatn rétt áður en hann fór heim, vaskurinn var of tómur greinilega. Held að þau hafi ofurheyrn eða einhverskonar skynjun, búiðaðvaskauppogþurrkaafborðumverðaðfáméraðborðasvomammahafieitthvaðaðgera.
En samt má mamma ekki gera neitt. Börn geta leikið sér voða still ef mamma situr bara og gerir ekki neitt. Svo um leið og mamma fer að gera eitthvað annað þá vantar barninu athygli. Þ.e.a.s. gera eitthvað skemmtilegra en að taka til, þrífa og elda og þannig sem hentar börnunum vel.

Það er eitthvað með börn, ef það er ekkert á gólfinu þá verður eitthvað að detta á gólfið, úlpan ef ekkert annað er til staðar.. jafnvel þau sjálf, henda sér í gólfið öskrandi og organdi berjandi hausnum í gólfið.