Færslur ágústmánaðar 2005

Bílhroki?

Laugardagur, 13. ágúst 2005

Eftirfarandi innihaldsríku samræður hafa átt sér stað á milli mín og systur minnar oftar en einu sinni.

Ég: Jæja, ætla að tölta heim.
Systir: Ég er að fara út, get gefið þér far.
Ég: nei takk, ég geng þetta bara.
Systir: Ertu alveg viss? Ég get alveg skutlað þér.
Ég: Nei nei, ég labba bara. Það er gott veður.
…..
Systir: Alveg viss um að þú viljir ekki far?
Ég: Já.
Systir: Ég get alveg keyrt þig sko.
Ég: Nei, ég labba bara.
…..
…..
Systir: Ertu alveg viss um að þú viljir ekki far? Ég er á leiðinni út.
Ég: Já.
Nú förum við út.
Ég: Jæja, bless og takk fyrir kaffið.
Systir: Ertu alveg viss um að þú viljir ekki far?

Þessi svakalega ganga sem systir mín virðist eiga erfitt með að leyfa mér að tölta er alveg heill kílómeter.

Ættarmót

Föstudagur, 12. ágúst 2005

Fór á ættarmót um daginn. Það var bara alveg hrikalega ágætt.
Svo sem lítið frá því að segja, bara þetta venjulega. Fjallganga, bjórdrykkja, grill, tjöld, söngur, sund, spjall, kinnakossar, faðmlög, bless. Nema eitt var frekar óvenjulegt og gerist örugglega ekki á hverju ættarmóti. Ég vaknaði sveitt og suddaleg á laugardeginum, í fínu stuttbuxunum mínum og hlýrabol. Teygði úr mér fram og til baka og í allar áttir. Rölti svo til hinna og bauð góðann daginn og allt þetta venjulega. Rölti fram og til baka um svæðið, bursta tennur, fá mér að drekka, fara að pissa og bara allt þetta venjulega. Þegar kólnaði örlítið í veðri ákvað ég að klæða mig í súttið. Nema hvað, ég fann það þegar ég klæddi mig úr flottu stuttbuxunum að rassinn lafði út, svo sýndist mér á öllu að aumingja buxurnar hefðu fengið blóðnasir.
Svona er þetta alltaf þegar ég held að ég sé ofur skvísa.

Talandi um það. Held oft að ég sé ofurpæja þegar ég er með slegið hár. Kemst svo alltaf að raun um að hárið er eins og á 14 ára gaurum. Allt einhvernveginn svona út í loftið og í bylgjum og þannig dæmi. Mjög sjálfstætt hár. Um daginn var ég að passa litla frænda. Litli kall vaknaði og hóf að grenja um leið og hann sá mig. Ég skildi hvorki upp né niður í þessu, hvað var að barninu! Ég reyndi að gefa honum að borða, en það gekk ekki upp. Hann bara grét. Þorði eiginlega ekki að horfa á mig. Ég tók hann upp og hélt á honum, hann lá bara upp við mig og þorði engann veginn að yrða á mig. Þá skyndilega, jafn snögglega og nælon að fuðra upp, datt mér í hug að hemja hárlubbann. Vafði teyju utan um makkann og VOILA! Krakkinn var ekki lengur hræddur.
Held að þetta hafi alveg gert útslagið, nú er ég hætt að reyna að vera skvísa með slegið hár.