Færslur októbermánaðar 2005

Að skreppa í megrun.

Þriðjudagur, 25. október 2005

Þá er ég ekki að meina að skreppa saman, þó það sé oftast tilgangurinn. Ég meina þetta eins og þegar við skreppum út í búð. Margir ætla sér í brjálaða megrun en staldra stutt við, rétt skreppa í megrun. Skrúfa skyndilega fyrir alla gamla vana og springa svo vegna þess að það er svo assgoti erfitt að skrúfa fyrir á nóinu. Sjánlegi árangurinn er oft í augum þess sem er í megrun lítill eða enginn.

Eins og vinkona mín komst að orði eftir uppgjöf, “Það bara gerist ekki neitt, ég hamast og hamast og ég léttist bara ekkert! En mér leið samt rosalega vel”.
“HA!!,” segi ég hvumsa, “gerðist ekkert!! Leið þér ekki betur!!??”
Öööö jú en það var sko ekki það sem hún var að erfiða við að ná. Kílóin sátu sem fastast.
Markmiðið með megrun er oft það að léttast og þá er einblínt á það. Léttast, léttast og léttast meira. Horft er framhjá því sem skiptir máli, það er vellíðan.

Margir rembast eins og vatn að glæða eld við að ná sjáanlegum árangri, þ.e.a.s. það sem aðrir sjá, í stað þess að ná þeim árangri sem best er að ná. Að líða vel. Það er svo gott að líða vel. En því er oft hent í burtu. Verð að ná, verð að ná er kjörorð þeirra sem ætla sér að fleygja fitunni eins og götóttum sokkum.

Þegar staðan er svona er tími til kominn að ná í götóttu sokkana og stoppa í þá. Sauma fyrir eitt gat í einu. Fyrst er að breyta hugsuninni. Það er að láta sér líða vel og hugsa um heilsuna. Ekki fara í megrun, heldur hugsa um heilsuna. Ein vinkona mín náði miklum árangri þegar hún hætti í megrun og fór að hugsa um heilsuna í staðin. Einblína á það.

Annað er að búa til nýja ávana áður en látið er af þeim slæmu. Sagt er að það taki 21 dag að venjast nýjum ávana. Segjum að þú þurfir að stoppa í 5 göt. Eitt skref er 21 dagur og því tekur það þig 105 daga að sauma í öll götin. En það er ekki hægt að staldra þar við, þú þarft að þvo sokkinn, þurrka hann, strauja hann, brjóta hann saman og koma honum fyrir inni í skáp. Svo þarftu að nota hann aftur en þarft að passa það vel að það komi ekki ný göt.
Það að kaupa bara nýja sokka er að skreppa. Nýju sokkarnir verða nefnilega líka götóttir ef þú passar þá ekki.

Svo er það tíminn. 105 dagar….. VÁ! Það er alltof lengi að líða. Best að sleppa þessu bara og eyða þessum 105 dögum í að tuða yfir megrunarlausnum, engum árangri og kílóunum. Fara út í sjoppu og gleypa síðustu pulsuna með fyrirheit um betri mánudag, sem endar á því að þetta verður síðasta pulsa vikunnar. Það er svo einfalt að fresta hlutunum bara af því að það tekur svo langann tíma að skipuleggja, framkvæma og halda sér við efnið.

Samsamaðu þig því sem þú ert að gera. Ekki bara hætta að éta kex heldur hættu að langa í kex. Finndu eitthvað annað í staðin fyrir kex, sólblómafræ, hnetur, vatn, ávexti, grænmeti, klóra þér á hausnum, krota á blað eða hvað sem þér dettur í hug. 21 dagur og kexið hættir að mæna á þig löngunaraugum biðjandi þig um að éta sig.

Hugsaðu um tvískinnunginn. Hvað langar þig í sem þú hefur ekki efni á? Hvað eyðiru miklu í vondann mat, nammi, gos, tópak, kaffi, megrunarlausnir, heilsuræktarkort til skrauts?
Hefurðu efni á að kvarta?

Svo er það annað með tímann. Afsökunin að hafa ekki tíma til að ráðst í þetta stóra verkefni. Mjög góð og gild afsökun. Endileg haltu þá bara áfram að láta þér líða illa, kvarta yfir kílóum og hinum og þessum heilsubrestum. En spurning, hvað ætli það taki mikið af þínum tíma?