Veislur

Það skemmtilega við afmæli er það sem boðið er upp á sem nart. Stundum eru kökur, stundum ostar, stundum heitur matur, stundum snakk eða eitthvað annað sem afmælisbarninu dettur í hug.

Systir mín er vanalega með hlaðborð fyrir helmingi fleiri en mæta, létt boð hjá henni táknar 3 tegundir af ostaköku, einn réttur, nokkrir ostar, vínber, 1- 2 kökur, 2 tegundir af snakki og nammi í skál.

Ég er meira fyrir að hafa eitthvað sem þarf helst litla fyrirhöfn við. Stundum hef ég í mesta lagi 3 kökur og smá snakk og osta en sé til þess að kökurnar séu dísætar þannig að fólk geti í mesta lagi fengið sér eina sneið. Systa hefur oft bakað fyrir mig, finnst ekki alveg nógu gott þetta kæruleysi í mér að hafa ekki hrikalegt hlaðborð.

Litli bró hélt upp á 19 ára afmælið um daginn. Nýfluttur að heiman og ákvað að halda smá veislu fyrir fjölskylduna. Var eiginlega farið að hlakka til að sjá hvað væri á boðstólum hjá unga manninum, ákvað því að vera ekkert að troða í mig áður en ég færi til hans. Mamma og stjúpi tóku sömu slæmu ákvörðun og ég, slepptu því alveg að borða. Erum á leið í ammli, þurfum ekkert að borða!!

Jæja, við sátum og biðum eftir kræsingum. Jafnvel bara kaffi. Já eða bara glas af gosi, það hefði dugað. Það eina sem hann átti var kattarmatur, goslaust kók og hálfétin pizza. Dótlan og vinkona hennar kláruðu pizzuna og gosið og kattarmaturinn var ekki lystugur að sjá. Systa, sem betur fer, hringdi áður en hún lagði af stað og því gátum við sneyptu og snauðu grenjað í henni að koma með kaffi.

Þarna áttaði ég mig á mikilvægi kræsinga sem boðið er upp á í veislum. Kræsingarnar eru til að fylla upp í þagnir.

Biribimm biribamm.Lokað er fyrir ummæli.