Færslur aprílmánaðar 2006

Úllala, þetta er sniðugt.

Sunnudagur, 30. apríl 2006

Algjört möst fyrir þá sem skoða blogg mikið. Auðvitað þarftu að hafa Firefox, elskuna mína, fyrir þessa aðgerð. Þetta er skobarsta appelsínugulur og flottur takki og þegar þú klikkar á hann þá koma síðustu færslunar í ljós. Þetta er líka hægt á öðrum bloggsíðum. Glæsileg viðbót í ‘make it simple’ flóruna hjá Firefox. Hann er stilltur inn á að fara í toolbar folder en það er að sjálfsögðu hægt að henda honum í aðra möppu.

Jæja, ég prófaði í gær að maka á mig brúnkukremi. Að sjálfsögðu mistókst það. Fætur og hendur líta út eins og ég hafi verið að drullumalla og gleymt að þvo mér, og auðvitað er ég gul í framan. Gul og skítug. Ég notaði samt hanska. Jæja, þetta lærist örugglega með tímanum, þó að gulan hverfi kannski aldrei. Sjá til hvort ég lagist ef ég skrepp í ljós. Ótrúlegt hvað allar aðferðir til að sæta mig mistakast. Viss um að brjóstin sem ég ætla að kaupa á mig verði eitthvað skringileg. Jæja, ef svo verður þá get ég bara notað þau sem vopn, lem mann og annan frá þegar mig vantar að komast fram fyrir biðröð. Verð kölluð brjóstakonan ógurlega og Batmanwannabe reynir að handsama mig. En það eru ca 3 ár í að það gerist.

Biribimm biribamm.

Nýtt nýtt…

Laugardagur, 29. apríl 2006

Nýr flokkur, Tölvuráð. Nokkur forrit þarna sem vert er að kíkja á.

Hvað er fleira nýtt? Sumarið er að hefja göngu sína hér á landi. Hvað úr hverju mun sólin breiða úr geislum sínum og ylja okkur frónarbúum. En eins og vanalega er sólin ætíð handan við hornið, alltaf á leiðinni en virðist ansi oft sofna yfir Afríku. Syfjuð teygir hún svo úr sér, kíkir á klukkuna og orgar “shitt, enn og aftur gleymdi ég Íslandi!!!”

Eitthvað fleira nýtt? Ég ætla að hætta að reykja, en það er kannski ekkert nýtt. Gömul og margtuggin lumma, sem ég er búin að tuða í 10 ár eða svo.

Það er heldur ekkert ný á nálinni ritstíflan sem er að hrjá mig, þetta er eins og eilífðar hægðartregða. Hleyp á klóið og held að ég nái að drulla allsvaklega en það kemur varla sparð. Ekki það að ég þjáist af hægðartregðu, bara ritstíflu.

Ójá, eitt enn nýtt. Ætla að maka brúnkukremi á mig og verða svaka skvísa. Vona að það endi ekki eins og stórslysið síðast, þegar ég varð bara gul í stað þess að verða að skvísu.

Biribimm biribamm.

Breytingar

Miðvikudagur, 19. apríl 2006

Nokkrar breytingar á blogginu. Er að fækka flokkum og flyt sumt efni á aðra flokka. Hugmyndir vel þegnar af flokkum, spælingum eða öðru.

Frestun

Miðvikudagur, 19. apríl 2006

Kannastu við *ég geri þetta á eftir, morgun, seinna*???
Í gær, nánar tiltekið fimmtudaginn 5 feb (trassa oft að setja inn færslu) keypti ég mér bók sem mig eiginlega langaði ekkert til að kaupa. Ég starði á hana í svolítinn tíma og spáði soldið.. bað um að fá að skoða hana. Blaðaði í gegnum hana en fannst hún ekkert spennandi fyrir utan það að þessi litla bókartutla var dýr. Jæja.. en einhverra hluta vegna keypti ég þessa rándýru óspennandi bók. Bókin heitir “á morgun segir sá lati” og er leið til að sigrast á frestunaráráttu.

EF það er eitthvað sem ég þarf þá er það það. ÚFF.. ég fresta ótrúlegustu hlutum.. jafnvel einföldum hlutum sem ég þykist ekki hafa tíma í sem taka mig eina mínútu að gera þegar ég hef mig í það. Ég hafði svo sem ekkert að gera í gærkvöldi þar sem ég gat ekki sofnað þannig að ég byrjaði að lesa bókin.. ekki fresta því líka. Bókin hafði rödd.. hvetjandi rödd sem sagði mér að drífa mig í að framkvæma það sem ég ætlað að gera. Í dag skrifaði ég tossalista. Hann stækkaði og stækkaði eftir því sem leið á daginn. Af þeim 39 atriðum sem ég skrifaði á listann er ég búin með 18 atriði, 5 atriði gæti ég klárað í dag og restin má bíða þangað til á morgun og mánudags og 2 atriði mega bíða til lengri tíma. Þetta kalla ég árangur! Þetta eru ekki stórir hlutir sem ég setti niður.. litlir hlutir eins og að ganga frá þvottinum eða hringja símtal. Ég hringdi í vinkonu mína í dag sem ég hef ekki talað við í 2 ár!! Oft hugsað um að hringja í hana.. en.. frestað því.

Margar konur sem ég þekki kvarta gjarnan undan því að húsbóndinn á heimilinu sé ansi gjarn á að fresta hlutunum. Ruslaskápurinn heima hjá pabba lafði á hjörunum. Frúin hans tuðaði og tuðaði í honum að laga þetta. Hann sagði alltaf “já, ég geri þetta seinna”. 2 árum seinna var skápurinn ennþá svona. Ég spurði hana hvers vegna í ósköpunum hún gerði þetta ekki bara sjálf. “Vegna þess að hann pabbi þinn má gera eitthvað á þessu heimili!!” Jæja, þetta endaði á því að hún sparkaði í skápinn og gargaði á kallinn að laga þetta. Hann skrúfaði eina skrúfu!! Verkið tók hann kannski 10 mínútur (ef það var svo lengi) með því að finna verkfærið en það tók hann 2 ár að framkvæma það.
Ég hef einnig heyrt “Nei, ÉG skal gera þetta.. geri þetta á eftir……..” *Nöldur nöldur og meira nöldur* því verkið er ekki hafið viku seinna.
Það eru 2 hliðar á þessu.. hætta að nöldra.. eða framkvæma strax! Hvort er einfaldara? (Á bæði við um karlmenn og konur, jú karlmenn nöldra)
Dæmi, sprungin pera.
“Ég skal gera þetta, bara fyrst að pissa”
Viku seinna (ansi lengi að spræna greinilega)
“Æ ég skal bara skipta um peru”
“NEI ÉG SAGÐIST ÆTLA GERA ÞETTA, URRR!!”
önnur vika líður…….

Þarna er verið að skapa vandamál, tuð, leiðindi, rifrildi og neikvæðni bara með því að fresta einum litlum hlut! Hvursu kjánalegt er það?
Ég er algjör trassi.. trassa ansi margt og mikið… það bitnar ekki bara á mér. Ef ég trassa að fara fram úr snemma þá verður daman sein í skólann, bara fyrir 10 mínútur þá getur ýmislegt komið upp á. Jæja, hvaða skaða gerir það svo sem að daman verði sein svona eins og einu sinni, hmmm?
Möguleiki.. að koma síðust inn í skólastofuna getur verið niðurlægjandi fyrir barnið, sum börn vita ekkert verra. Þar er ég mögulega að skapa erfiðar aðstæður fyrir barnið.. bara því mig langaði að lúra í 10 mínútur.. kaupa mér smá frest.
Er það þess virði að fresta?

kaka er lífið.

Þriðjudagur, 18. apríl 2006

Ef lífið væri kaka þá væru sumir alltaf svangir. Það er fólkið sem gefur öllum öðrum en 1.pers. kökusneið fyrst. 1.pers. fær þá vanalega eina skitna kökusneið, ef þá svo mikið. Jafnvel bara mynslurnar. Ef það eru bara þið fyrst persónur á svæðinu þá verða allir svangir. Enginn fær neitt því þau vilja alltaf öðrum allt svo vel. Þið fyrst persónur standa sveittar við bakstur daginn út og daginn inn því ég fyrst persónur eru fljótar að grípa kökusneið áður en hinir tæta hana í sig.

Ég fyrst persónur baka líka, en fá sér eina sneið áður en hinir fá sér. Ég fyrst og svo ég persóna bakar líka. Gríðarstóra hnallþóru handa sér bara sér.
Hvernig er best að vera? Þið fyrst, ég fyrst eða ég fyrst og svo ég?
Þið fyrst gleymist fljótt, ég fyrst líður smátt og smátt úr minni en ég fyrst og svo ég gleymist aldrei.

Blessuð kakan er þó of oft okkur ofarlega í huga. Við getum ekki hætt að hugsa um að kakan verði að vera til, ef ske kynni að einhverjum langaði í köku. Ef kakan er til en enginn að fá sér þá sitjum við og bíðum eftir að kakan verði búin. En það er víst svo, að enginn hrekkur upp af við að éta mynslur af og til.