Færslur maímánaðar 2006

Allt og ekkert

Sunnudagur, 28. maí 2006

Smá breyting verður á blogginu. Verður fastur liður eins og venjulega, sunnudagslumma. Skrifa þá bara einu sinni í viku í stað þess að svitna yfir að hafa ekkert að segja dagsdaglega, lófasvitinn veldur því að ég skrifa bara ekki neitt, hrasa til og frá á lyklaborðinu.
Hvort er flottara, Klisja sunnudagsbullari lumma með sírópi eða Klisja bullari sunnudagslumma með sírópi????

Jæja já og jamm og jæja.
Í gær átti víst að krota x við bókstaf og sá bókstafur sem fékk flest x ákvarðar daglegt líf okkar bæjarbúa. Ég ætlaði víst að vera gasalega dugleg við að rýna í kjörskrár og pistla en fékk eiginlega velgju yfir glimmerinu og fíflabuntunum sem einkenndi loforðin svo ekki sé minnst á “hinir eru asnar, kjósið mig!!” VG virðast vera duglegastir í því. En svona er þetta víst oft, þó er mitt mat að vönduð framsetning án hinireruasnar puttabendingar virki best.
Ég var ágætlega sátt eftir kosningar gærdagsins. D missti meirihlutann og er með 3 menn inni, S með 2 menn inni, VG með 1 mann og B 1 mann. Nóg af pólitík.

Ég er að lesa bókina “konur sem hugsa um of”. Ágæt lýsing á hvernig konur detta í það far að hugsa of mikið, velta hlutunum fyrir sér og mikla upp smámuni í heilu snjókarlana. Byrja með einn lítinn snjóbolta og enda á því að erfiða við að drösla saman risa snjókalli.

“Af hverju er Baddi boss svona pirrður? Er það útaf mér? Ætli ég hafi gert eitthvað vitlaust? Eitthvað sem ég sagði eða gerði? Ætli maðurinn minn verði ennþá í fúlu skapi þegar ég kem heim? Hann er svo oft fúll núverið, ætli hann sé kominn með leið á mér? Börnin eru líka óvenju óþekk, ætli ég sé að standa mig illa í uppeldinu? Mamma var vond við mig þegar ég var barn, af hverju var hún svona vond? Hvernig gat hún gert mér þetta!!”

Eitt leiðir af öðru og verður í lokin að allsherjar hugsanaflækju, svona er hægt að hugsa tímunum saman. Ég kannast vel við að lenda í svona, já að sjálfsögðu lendi ég í svona. Ég er kannski bara að skúra í mesta sakleysi og lendi skyndilega í hugsanahrinu, ekki mér að kenna! Hún hlýtur að hafa verið einhverstaðar á flækingi og lent svo á mér.
Lang einfaldasta lausnin á vandmálunum er eða kenna þeim um, þá er líka svo auðvelt að halda áfram að búa til snjókalla. Af hverju þurfti reikningurinn að koma núna, akkúrat þegar ég hef ekki efni á honum! Bansettur reikningurinn. Einfalt, fljótlegt og óþægilegt til lengdar. Svoleiðis á lífið að vera!!

Biribimm biribamm.

Kosningar í nánd.

Föstudagur, 12. maí 2006

Sætunin heldur áfram. Ég skrapp í ljós eftir seinni tilraun á brúnkukremsmakeríi. Seinni tilraunin misheppnaðist mjög vel held ég bara. Blettir hér og þar, gult smetti og með einstaklega fallega dökkgula brú yfir augabrúnum. Ég var svo að meikaða, allir störðu á mig með aðdáunarsvip örugglega að pæla í hvaða fegurðardís brummaði um á hjólinu. En jæja, þegar heim var komið áðan þá fór stóðið að hlæja, dótlan og vinkonur hennar. Ég var ekki skvísa, heldur frekna. Veit ekki á gott fyrir annað kvöld, en þá verð ég æðandi um á dansgólfinu sveiflandi öllum skönkum, kýlandi mann og annan og potandi í augu eins og vanalega þegar ég tek mínar fantaflottu danssveiflur. Kannski munu nokkrar freknur leggja á flótta þegar ég smúla smettið.

Kosningar í nánd, nánar tiltekið eftir 2 vikur. Mig sárverkjaði í veskið þegar ég renndi í gegnum stefnuskrár flokkana, að D flokk undanskildum, ekki komin stefnuskrá frá þeim - stefnuleysi kannski? D ætlar samt að hrissta úr buxnavösunum nokkra þúsara handa kjósendum, með því að endurgreiða leikskóla- og fasteignagjöld, svona rétt fyrir kosningar. Loforð á loforð ofan um miklar umbætur og lækkanir á gjöldum. Þeir ætla bæði að minnka tekjur bæjarsjóðs og auka útgjöld. Sniðugt ha. Ókeypis leikskóli, matur í mötuneyti skólanna frír eða ódýr, göngustígar og hjólreiðastígar og m.fl. ásamt því að lækka fasteignaskatt.
Allt í góðu að gera vel við bæjarbúa og sýna þá fram á hvernig þeir ætli að framkvæma þetta án þess að það komi illa við veskið. Kosningaloforð af þessu tagi eru fölsk og ætluð til að kasta ryki í kjósendur. Litlar líkur á að hægt sé að framkvæma peningaleg stórvirki þegar lítið af peningum eru til. Það þekki ég vel. Ef ég ætla mér að kaupa borð, þá minnka ég ekki við mig vinnu til að hafa efni á því. Gæti svo sem gert það, skroppið bara í bankann og slegið lán, sem ég þarf svo að sjálfsögðu að borga margfalt til baka.
Ætla að skoða þetta vel, svona eins og einu sinni. Liggja yfir þessu og kjósa af viti, ef það er hægt.

Biribimm biribamm.