Færslur júnímánaðar 2006

Veislur

Mánudagur, 26. júní 2006

Það skemmtilega við afmæli er það sem boðið er upp á sem nart. Stundum eru kökur, stundum ostar, stundum heitur matur, stundum snakk eða eitthvað annað sem afmælisbarninu dettur í hug.

Systir mín er vanalega með hlaðborð fyrir helmingi fleiri en mæta, létt boð hjá henni táknar 3 tegundir af ostaköku, einn réttur, nokkrir ostar, vínber, 1- 2 kökur, 2 tegundir af snakki og nammi í skál.

Ég er meira fyrir að hafa eitthvað sem þarf helst litla fyrirhöfn við. Stundum hef ég í mesta lagi 3 kökur og smá snakk og osta en sé til þess að kökurnar séu dísætar þannig að fólk geti í mesta lagi fengið sér eina sneið. Systa hefur oft bakað fyrir mig, finnst ekki alveg nógu gott þetta kæruleysi í mér að hafa ekki hrikalegt hlaðborð.

Litli bró hélt upp á 19 ára afmælið um daginn. Nýfluttur að heiman og ákvað að halda smá veislu fyrir fjölskylduna. Var eiginlega farið að hlakka til að sjá hvað væri á boðstólum hjá unga manninum, ákvað því að vera ekkert að troða í mig áður en ég færi til hans. Mamma og stjúpi tóku sömu slæmu ákvörðun og ég, slepptu því alveg að borða. Erum á leið í ammli, þurfum ekkert að borða!!

Jæja, við sátum og biðum eftir kræsingum. Jafnvel bara kaffi. Já eða bara glas af gosi, það hefði dugað. Það eina sem hann átti var kattarmatur, goslaust kók og hálfétin pizza. Dótlan og vinkona hennar kláruðu pizzuna og gosið og kattarmaturinn var ekki lystugur að sjá. Systa, sem betur fer, hringdi áður en hún lagði af stað og því gátum við sneyptu og snauðu grenjað í henni að koma með kaffi.

Þarna áttaði ég mig á mikilvægi kræsinga sem boðið er upp á í veislum. Kræsingarnar eru til að fylla upp í þagnir.

Biribimm biribamm.

Here she comes now say money money…

Sunnudagur, 18. júní 2006

Nú er söngstund!!

Eninga meninga…
Ég á enga peninga..
Með veskið fullt af seðlum…
En það eru bara kvittanir…

Eninga meninga…
Mig vantar svo peninga…
Með fulla vasa af klinki….
En það eru bara krónur…

Eninga menina..
Langar í meiri peninga..
Með fulla yfirvinnu…
En það er bara skattur….

Réttupp hönd, hver kannast ekki við svona hugrenningar?? Jæja, nú er hægt að skemmta sér yfir svona hugrenningum með þessum snilldarlega vel samda texta og með lagi að eigin vali. Hjá mér hljómar lagið úr ávaxtakörfunni, eninga meninga. Reyndi að láta Enter sandman hljóma með þessu en það hljómaði ekkert sérstaklega vel.
En þetta er þinn happadagur því ég kann lausnina á þessu vandamáli. Þ.e.a.s. fyrir þá sem halda að þeir eigi ekki peninga en gætu verið með fulla vasa af þúsurum í stað króna. Sumir búa einfaldlega svo bágt að geta ekki fyllt vasana, hverri einustu krónu er ráðstafað.

En það er líka lausnin. Að ráðstafa krónunum. “Hva, etta kostar bara fimmúskall!” hugsun er besta leiðin til að hreinlega týna peningum. Ef það væri hugsað “þetta kostar heilar fimm þúsund krónur” þá erum við líklegri til að hugsa um í hvað við erum að eyða.

Ansi margir eru með sniðug ráð í vasanum til að gefa frá sér en nota þau svo ekki sjálf. Við vitum svo mikið um hvernig á að gera hitt og þetta öðrum til handa. Ég er ein af þeim sem útdeili ráðum hægri vinstri en er fljót að gleyma öllu þessu sniðuga þegar ég þarf á að halda. Ég er líka ein af þeim sem “þarf sko ekki á ráðum annara að halda því ég veit þetta allt” líkt og þeir sem ég er að dæla góðum ráðum í.

Eftirfarandi samtal átti ég við vinkonu mína um daginn - að nenna ekki og geta ekki? Tætla það.
D: ég get ekki farið í göngutúr í svona veðri, á ekki nógu góða skó og verð bara blaut.
Ég: ekkert að því að verða smá blaut, getur farið heim að þurrka þér, svo er líka svo gott að koma vot heim og sötra heitt kakó.
D: en ég á engin regnföt.
Ég: sama með það, verður smá blaut og getur farið heim og skipt um föt.
D: æ mér finnst allt í lagi að fara út að ganga þegar það er snjór, á kuldagalla en samt enga góða skó.
Ég: þá ferðu bara í styttri göngutúr og svo heim að hlýja þér.

Í dag (föstudag) átt ég eftirfarandi samtal við mig.
Ég: æ mig langar út að labba.
Ég: æ ég nenni ekki, það er rok og rigning.

Biribimm biribamm.

Makakall.

Sunnudagur, 11. júní 2006

Einn snöggan þessa vikuna, er að drukkna í bók.

Á föstudaginn skrapp ég á pöbbinn og þjóraði brugg. Þandi raddböndin duglega því græjurnar á staðnum voru ekki í stuði til að hafa lágt heldur emjuðu þær þegar þjösnast var á lækka takkanum og hækkuðu sig bara sjálfar. Heilinn ákvað því að redda þessu bara sjálfur, þrátt fyrir hávaða og arg og garg fannst mér smám saman eins og allt væri ósköp eðlilegt. Einstaka HA????!!! skrapp jú út en kroppurinn sá við því og hallaði sér bara fram og ef ég hefði almennilegar túttur þá hefðu þær poppað út til að smakka á brugginu sem bjargaðist úr glösunum.
Nokkrir æddu út á gólf í einhverskonar dansi. Hvað er dansinn annað en makakall? Erum við þegar allt kemur til alls nokkuð öðruvísi en fuglar sem sveifla stélinu til að heilla hitt kynið? Hálft í hvoru sem skemmtun svo og kall á athygli frá hinu kyninu, bundnir sem óbundnir. Mjöðmum er sveiflað eggjandi og úggabúga úggíba ússí mú. Eitt veit ég að ég fer út á gólfið því mér finnst það svo assgoti gaman en líka til að fá athygli. Á rússandi ferð um allt gólfið, sveiflandi stórhættulegum skönkum. Minnir það að ég hafi ekki bara potað í augu og barið flöskum í munna, heldur einnig alveg óvart miss hnefann í pung. Ma og pa ættu bara að sjá makakallið mitt, þá hætta þau að undrast makaleysið.

Biribimm biribamm.

Svampur sveins.

Sunnudagur, 4. júní 2006

Jæja, þar kom að því, ég er skotin. Þó er ég ekki viss um að áhyggjufullir ættingjar hoppi hæð sína af gleði yfir þessu skoti (þau eru nebbla orðin frekar örvæntingafull á makaleysi mínu). Ég er skotin í svamp!! Hvítur svampur sem brummar upp um alla veggi með dyggri aðstoð frá mér og þrífur nærri allt sem hægt er að þrífa, nema málninguna. Engin efni þörf, bara vatn. Og það besta er að svampurinn eyðist upp eftir dágóða notkun og því engin þreyta í þessu sambandi, auðvelt að næla í nýjann og betri (þ.e.a.s þegar hann er orðinn lúinn er nýr svampur betri). Grasið er grænna hinumegin í þessu tilviki!!!

Sumarið er tíminn söng hann Bubbi. Nú er tími til að strengja heit og standa við þau. Auðveldara að standa við það sem maður setur sér þegar birtan er meiri. Út með áramótaheit, upp með sumarheit. Um áramót á maður að geta kveikt á kertum, litið til baka og hugsað “mikið afrekaði ég miklu á þessu ári. Ef þú veist ekki hverju þú hefur áorkað, spurðu þá einhvern þér nákominn. Ég var einu sinni að hamast við breytingar (man reyndar ekkert hvað ég var að rembast við) en sá engann árangur af minni vinnu. Tíminn leið og ég var við það að gefast upp þegar einhver mér nákominn (man heldur ekki hver það var) benti mér á þessa breytingu. Það var alveg vá skobarasta. Við markmiðasetningu er ágætt að nota SMART.

S = sértæk, ekki almenn heldur afmörkuð.
M = mælanleg, verður að vera hægt að mæla þau
A = aðgengileg, að leiðin sé skýr
R = raunhæf, ekki draumórar sem engin leið er að uppfylla
T = tímasett, gefa sér tíma til að ná þeim.

Já, við verðum að vera SMART á því í sumar og nota birtuna til athafna. Það tekur okkur um 21 dag að venjast breytingum, þá sérstaklega líkamlegum. Restin er huglæg barátta milli ætti ég eða ekki. Þegar við erum að breyta til erum við svo gjörn á að hengja okkur í að við séum að missa af einhverju eða missa eitthvað. Eins og ég og vinkona mín sígarettan. Nei ég meina óvinkona mín. Best er þó að byrja á að temja sér góðann ávana áður en við látum af þeim slæmu. Ég drap í tjörutyppinu og lagði það á hilluna og fötin hlupu í þvotti á nó tæm. Að sjálfsögðu vantaði mig eitthvað hugg og besta óvinkona mín kom að sjálfsögðu til mín með útbreiddan faðm og var tilbúin til að fyrirgefa mér þetta upphlaup. Ástar/haturs samband okkar heldur áfram þar til ég ákveð að vera SMART á því.

Biribimm biribamm.