Færslur frá 11. júní 2006

Makakall.

Sunnudagur, 11. júní 2006

Einn snöggan þessa vikuna, er að drukkna í bók.

Á föstudaginn skrapp ég á pöbbinn og þjóraði brugg. Þandi raddböndin duglega því græjurnar á staðnum voru ekki í stuði til að hafa lágt heldur emjuðu þær þegar þjösnast var á lækka takkanum og hækkuðu sig bara sjálfar. Heilinn ákvað því að redda þessu bara sjálfur, þrátt fyrir hávaða og arg og garg fannst mér smám saman eins og allt væri ósköp eðlilegt. Einstaka HA????!!! skrapp jú út en kroppurinn sá við því og hallaði sér bara fram og ef ég hefði almennilegar túttur þá hefðu þær poppað út til að smakka á brugginu sem bjargaðist úr glösunum.
Nokkrir æddu út á gólf í einhverskonar dansi. Hvað er dansinn annað en makakall? Erum við þegar allt kemur til alls nokkuð öðruvísi en fuglar sem sveifla stélinu til að heilla hitt kynið? Hálft í hvoru sem skemmtun svo og kall á athygli frá hinu kyninu, bundnir sem óbundnir. Mjöðmum er sveiflað eggjandi og úggabúga úggíba ússí mú. Eitt veit ég að ég fer út á gólfið því mér finnst það svo assgoti gaman en líka til að fá athygli. Á rússandi ferð um allt gólfið, sveiflandi stórhættulegum skönkum. Minnir það að ég hafi ekki bara potað í augu og barið flöskum í munna, heldur einnig alveg óvart miss hnefann í pung. Ma og pa ættu bara að sjá makakallið mitt, þá hætta þau að undrast makaleysið.

Biribimm biribamm.