Færslur júlímánaðar 2006

Furðuleg vika.

Sunnudagur, 30. júlí 2006

Á mánudaginn flaug elsku litli gárinn minn út. Systa var að koma í heimsókn og hann ákvað að taka á móti þeim, gallinn var sá að þau voru ennþá úti og hann fann að hann gat flogið og flogið endalaust. Ég rölti um hverfið og leitaði og leitaði, flautaði og kallaði en sá ekkert. Síminn hringdi ekki löngu eftir að fuglinn flaug í burtu og þá var mér tilkynnt að dótlan, sem var í sumarbúðum, hefði dottið og meitt sig. Mögulega þurfti ég að brumma uppeftir að sækja hana.

Mig langaði helst til að henda mér í götuna og grenja úr mér augun. Leitin að fuglinum hélt áfram. Ég fór út af og til og kallaði á gaukinn. Dótlan ákvað, þó með grátin í kverkunum, að vera í sumarbúðum þessa síðustu nótt. Ekkert alvarlegt sem kom fyrir hana, fékk högg á rifbeinin en var óbrotin. Seint um kvöldið tölti ég um hverfið og kallaði á gaukinn. Ég heyrði hann kalla á móti en kom ekki auga á hann. Þennan daginn varð ég að gefast upp.

Á þriðjudaginn hengdi ég upp auglýsingar út um allan bæ í von um að hann hefði farið inn til einhvers. Það rigndi ansi duglega og var ég orðin ansi vonlítil á að hann gæti lifað af útiveruna ef hann væri þá ennþá úti. Ég vonaði heitt og innilega að hann hefði asnast inn einhverstaðar.

Dótlan kom heim á þriðjudeginum og varð að sjáfsögðu alveg miður sín yfir þessum fréttum. Spurði hvort ég væri að djóka. Tja, svo nasty er ég ekki, þó ég geti stundum verið það. En hún var ekki svo lengi í sorg, spurði hvort við gætum ekki bara verslað nýjanm fugl.

Á miðvikudaginn sá ég að það var búið að taka flestar auglýsingarnar niður. Ég varð assgoti fokvond, hvað er fólk að skipta sér af því þegar auglýst er eftir gæludýrunum? Gildir einu þó það sé fuglskratti. Ég hengdi upp nýjar auglýsingar og ætlaði mér að snæða hvern þann sem rifi þær niður.

Anna og börnin voru í heimsókn hjá okkur og ákvaðu þau að hangsa frameftir með okkur, éta og spjalla. Eftir matinn þurfti ég auðvitað sígó og Anna sat úti með mér. Við heyrðum páfuglagarg úti og vorum alveg vissar um að þetta væri elsku litli kallinn minn. Við kíktum í kringum okkur og Anna kom auga á litla vesalinginn í runna.

Ég var svo spennt að ég hljóp til og ætlaði að grípa fugl andskotann. En að sjálfsögðu flaug hann í burtu, í þeirra eðli að rjúka af stað þegar eitthvað kemur ofan frá. Hann flaug sem betur fer ekki langt, upp í tré hjá næstu blokk. Anna hljóp heim og náði búrið og ég stóð fyrir neðan litla kall, flautaði og kallaði. Eftir nokkur köll ákvað kallinn að fljúga á kunnuglega öxl og síðan inn í kærkomið heimilið, búrið sitt.

Þetta litla dýr lifði af 2 sólarhringa úti við. Ég ætlaði ekki að trúa því að svona lítið og viðkvæmt dýr gæti sýnt af sér þetta mikla hörku. Hann uppskar kvef og hálsbólgu en er að öðru leyti hress. Hann er búinn að vera raddlaus síðustu daga, datt ekki í hug að ég ætti einn daginn eftir að vera glöð að heyra þetta garg (sem getur stundum verið þreytandi).

Furðuleg, en jafnframt góð vika.

Biribimm biribamm.

Á morgun segir sá lati.

Sunnudagur, 23. júlí 2006

Fyrir ekki svo löngu síðan (rúmu ári eða tveim, man ekki svo langt aftur) keypti ég mér þessa bók. Á sínum tíma skrifaði ég einnig um þá bók hér einhversstaðar. Síðan lánaði ég þessa elsku og sú sem fékk hana lánaða frestaði því alltaf þangað til á morgun að lesa hana. Einnig frestaði ég því alltaf til morguns að sækja hana. Loksins mundi ég eftir að ná í þessa elsku því ég sá fram á að á morgun hjá lánsþeganum yrði áfram á morgun. Notaði helgina í að lesa bókina og uppvaskið og allt tilheyrandi mátti bíða þangað til á morgun.

Eins og í fyrra skiptið sem ég las þessa bók krotaði ég saman eitt stykki lista af atriðum sem ég er búin að fresta og fresta og þarf eiginlega að klára. Hef ekki staðið undir sturtunni í mörg ár því ég ætla alltaf á morgun að kaupa festingu fyrir sturtuhausinn. Nema nú get ég sagt að í fyrradag hafi ég farið og keypt svona festingu, þannig að á morgun get ég staðið undir sturtunni í stað þess að halda á hausnum og smúlað.

Þó er ég núna einungis búin að strika yfir 2 atriði af 25 þrátt fyrir að vika sé liðin síðan ég krotaði listann. En þessi listi hættir ekki að trufla mig fyrr en ég er búin að strika yfir öll atriðin.
Svo er einnig gaman að eiga eina bók fyrir svona lagað, ókláruð verkefni páruð niður. Síðan er strikað yfir þau og seinna meir er hægt að kíkja yfir þetta til að sjá hverju hefur verið áorkað. Já eða bara að ég hafi á annað borð áorkað einhverju.

Ég sé það fyrst núna, eftir seinni lestur þessarar bókar, að það er hellingur úr þessari bók sem ég tileinkaði mér. Ég sem hélt að ég væri sami gamli trassinn.

Stundum ótrúlegir smámunir sem ég trassa sem til lengri tíma verður að stóru máli. Eins og að vaska upp. 10 hlutir í vaskinum, piff geri þetta seinna. Áður en ég veit af eru 10 hlutir í vaskinum og 20 við vaskinn með föstum skítaklessum í sem gerir þetta enn erfiðara.

Ég klippti út spakmæli og límdi á skrifborðið með límlakki. Þá er ég alltaf með ágætis rassasparkara til staðar.
“Til að komast á áfangastað þarftu að taka fyrsta skrefið”
“Eyddu aldrei peningunum áður en þú eignast þá”
“Ef þú veist ekki hvert þú stefnir liggja allir vegir út í tómið”

Mikið til í því.

Biribimm biribamm.

Skipulag og reglusemi eða árátta?

Sunnudagur, 16. júlí 2006

Ég er gjörn á það að hafa ýmislegt í föstum skorðum. Ég á fjögur handklæði fyrir kroppinn og fjögur handklæði fyrir hárið. Það angrar mig ef það eru t.d. 3 kroppahandklæði en 4 hárhandklæði í hillunni. Herðatrén verða öll að snúa eins og það sem er á þeim líka. Klósettpappírinn; lauf út, ekki inn (systa þarf að muna það). Föt á snúru eiga helst að snúa fram en það angrar mig svo sem ekki ef þau snúa í bak eða eru öfug. Allir pappírar eiga að vera vel skiplagðir í möppur og allar möppurnar eiga að vera eins. Ein mappan er öðruvísi en hinar og ég forðast að horfa á elskurnar mínar því þetta pirrar mig.

En ég er ekki ein um að vera með þessa bilun. Ég hringdi í vini og vandamenn og spurði út í þessa áráttu hjá þeim og allir höfðu eitthvað til að leggja í púkk.

Hjá sys er þetta venjulega, herðatré og klópappír (nema það að hún snýr klópappír lauf inn og snýr því þannig heima hjá mér líka!! Argasta skobara). Þvotturinn verður að snúa rétt, á réttunni og snúa fram. Hún getur ekki sofið nema sængin snúi rétt, böndin á sængurverinu mega ekki vera í smettinu og framhliðin á sængurverinu verður að snúa upp.

Ein lítil dama sem ég þekki er einnig með sérviskur (ekki bara fullorðna fólkið). Lestrarkortið verður að snúa rétt í plastinu og bókinni og allir litir verða að vera í réttri röð og auðvitað snúa rétt.

Herra E hefur reglu á hvernig hann borðar. Raðar á diskinn og borðar eftir ákveðinni reglu. Við síðasta bita verður að vera nákvæmt magn af öllu (allt jafnt) þannig að það sé einn munnbiti eftir af öllu til að raða á gaffalinn.

Día getur ekki eldað ef eldhúsið er ekki hreint. Pumpan á sápubrúsanum verður að snúa fram og hún verður að henda notuðum kaffifilter og setja hreinan í eftir að kaffið er runnið (hræðilegt ef það gleymist). Sjónvarpstöðvar verða að vera númeraðar eftir stöð, þ.e.a.s. stöð 1 á 1, stöð 2 á 2 og skjár 1 á 3. Á erfitt með að halda aftur af sér við að laga þetta ekki heima hjá öðrum, þ.e.a.s. stilla stöðvarnar rétt.

Litli frændi er mjög vanafastur. Ég var að passa hann í nokkrar vikur og eitt og annað komst fljótt í vana. Alltaf þegar ég sit við tölvuna þá fer ég úr vinstri inniskónum og set fótinn undir lærið. Það truflaði hann vegna þess að ég átti að vera í inniskónum. Nema einn daginn þegar ég sat við eldhúsborðið, fór úr vinstri inniskónum og setti fótinn undir lærið. Þá tók hann inniskóinn og lagði við tölvustólinn.

Goji vill bara andrex klópappír á sinn rass, ó ðat silkí fíling. Ef það er eitt lítið gat á sokknum hans þá er ekki hægt að nota hann lengur, í rusl og kaupa nýja takk. Bolina hans má ekki hengja á herðatré, hann gæti alveg eins klæðst einu. Sængin verður að vera nákvæmlega horn í horn í sængurverinu, annars er sængurverið krumpulegt. Þegar hann drekkur gos verður gosið að snerta hliðina á glasinu áður en það fer í botninn, alveg bannað að hella beint í botninn á glasinu.

Jógó, betri helmingur Goja, er andstæða hans. Hún verður að nota sokkana þangað til þeir detta sjálfkrafa af eftir mikla notkun og bolirnir eiga að vera á herðatréi. En hún hefur furðulega áráttu. Þegar hún er að vaska upp eða brjóta saman þvott þá verður hún að telja. Ég var lengi að átta mig á hvað og hvernig hún væri að telja. Já sko, vaskar upp og telur 10 hnífapör, síðan 5 diska (eða álíka) síðan tekur við að telja önnur 10 hnífapör og síðan 5 diska og….. já. Gerir það sama þegar hún brýtur saman þvott, telur 10 litlar flíkur, síðan 5 stórar, síðan 10 litlar o.s.frv. Reglan er þó ekki 10/5 heldur helmingi minna af stórum hlutum en litlum, 8/4 og 4/2.

Linney er með þetta venjulega, klósettpappír og herðatré sem þarf að snúa rétt. Hún verður að snúa styttum á ská, þær eru aldrei beinar. Henni líður illa ef það er lítið sandkorn á gólfinu (hún sópar oft á dag), þess vegna er stranglega bannað að borða kex heima hjá henni. Vanalega sendir hún börnin sín út með kex en eitt skiptið þá langaði þeim svo mikið í kex að hún kom þeim fyrir í baðkarinu með kexpakka og þar máttu þau mylja og maula. Þurfti ekkert að sópa gólfið, bara sópa úr karinu og skola, málið leyst.

Get ekki kallað þetta þráhyggju, ég vil að sjálfsögðu meina að þetta sé gott skipulag en mögulega er hægt að kalla þetta þráhyggju hina minni. Þráhyggja er allt annars eðlis og öllu alvarlegri, ég VERÐ ekkert að hafa þetta svona en það fer í pirrurnar mínar ef þetta er hinsegin.
Hver kannast annars ekki við að vilja hafa eitthvað í röð og reglu? Jafnvel skipulagða eða óskipulagða óreiðu, það er ákveðið form af reglu. Mögulega gerir fólk þetta til að hafa stjórn á einhverju, en ég nenni ekki neinu sálfræði jabbí daabbí.
Þetta er fínt svona eins og þetta er.

Birbimm birbamm.

Hitt og þetta.

Sunnudagur, 9. júlí 2006

Jæja, lítið varið í þessi húsráð mín ef ég uppfæri aldrei.

Setja matarsóda í skó með vondri lykt og leyfa honum að liggja yfir nótt. Síðan er nóg að hrissta hann úr og lyktin hverfur. Hef prófað að þvo skó en ekkert gekk fyrr en ég gerði þetta. Svínvirkar.

Fleiri maskar. Gott að nota egg, píska hvítuna þangað til hún verður stíf og bera á smettið, leyfa henni að stífna og þrífa síðan af. Smettið verður eins og stífbónað og vel strauað. Hvítan er góð fyrir feita húð en rauðan fyrir þurra húð.
Einnig ágætt að nota hunang.

Extra virgin olive oil er mjög góð fyrir hárið. Sérstaklega hársvörðinn, þegar skán er eða flasa. Bera hana í hárið og mjög gott að sofa með hana, þvo hana síðan úr daginn eftir (ca þrjár umferðir með sjampói) og hárið verður mjúkt, glansandi og virkar afar hreint.

Svo elsku svampurinn minn, stroksvampurinn. Tekur pennastrik og gamla fasta kaffibletti úr t.d. vask sem ég hef hingað til bara náð úr með klór. Jafnvel tússpenna kroti á ólökkuðum við. Hrein dásemd.

Hollur lestur.

Sunnudagur, 9. júlí 2006

Jemineinasti dúddamíasta skobarasta. Skrapp upp á bókasafn og var að skoða mig um. Ég rak augun í bók um leiðbeiningar um hvernig kona ætti að halda í karlmann. Já eða heilla hann eða eitthvað þannig. Bleh, man ekki titilinn. Ég opnaði bókina á einum stað, í miðri bók eða svo og sýndist þarna komin lausnin á mínum vandamálum, þarna stóð svart á hvítu að allt sem ég er, er akkúrat það sem karlmönnum finnst ekki heillandi við konu.

Samkvæmt þessu eiga konur að:
vera duglegar að snyrta sig til, þ.e.a.s vera óaðfinnnanlegar í útliti,
spreyja létt ilmvatni á sig en alls ekki hella,
vera kurteisar,
eiga ekki að vera áberandi,
alls ekki að hegða sér karlmannlega (já eða eins og yfirmaður) þótt þær eigi fyrirtæki,
ekki segja brandara,
ekki hlæja hátt
brosa mikið,
krossleggja fætur og sitja dömulega,
alls ekki sitja gleiðar,
ekki tala mikið, helst alls ekkert nema nauðsyn krefst,
ekki að vera kaldhæðnar,
ekki slá sér á lær þegar hlegið er,
alls ekki að rökræða..

Nennti eiginlega ekki að lesa meira því þá hefði ég þurft að viðurkenna vandann. En ég á virkilega erfitt með mig. Það er mikil barátta milli góðu mér og slæmu mér. Þessi góða vill að sjálfsögðu stökkva út á bókasafn og éta innihald bókarinnar hrátt svo hægt sé að setja nýjar hegðunarreglur. Slæma ég er ekki einu sinni til í að éta þetta soðið, vill halda áfram að slá sér á lær, reyta af sér brandara, hlæja hátt og sitja gleið. Þó er slæma ég alveg til í að lesa þessa bók, bara til að henta gaman að.

En að sjálfsögðu er ég að ljúga að mér, ætla að byrja strax í dag (mánudag). Byrja á að æfa mig í að ganga í hælaskóm alla daga, ganga dömulega til vinnu í stað þess að arka eða hjóla og hef Cellu Sinnep og Bolton (Mækol?) í spilaranum. Það er víst þannig að karlmenn horfa ekki á eftir skessum eins og mér og að sjálfsögðu snýst allt um það.

Þessar reglur ætla ég að hafa til hliðsjónar í framtíðinni:
Þessar reglur eru teknar úr kennslubók í heimilisfræði frá 1950.

1. Hafðu kvöldmatinn tilbúinn á réttum tíma. Það veitir honum þá
tilfinningu að þú hafir verið að hugsa um hann og að þér sé annt um þarfir hans. Flestir karlmenn eru svangir þegar þeir koma heim og tilbúinn matur er hluti af því að láta hann finna hversu velkominn hann er heim, en það er karlmönnum nauðsynlegt.
2. Notaðu 15 mín. til að snyrta þig og skipta um föt áður en hann kemur. Hann er að koma heim úr leiðinlegri og erfiðri vinnu og er þreyttur. Vertu svolítið hress og skemmtileg til að hressa hann við.
3. Taktu upp allt rusl og dót. Farðu eina umferð um húsið og safnaðu saman skólabókum, leikföngum, pappírsrusli og blöðum. Renndu svo tusku yfir borðin til að þurrka af og þrífa svolítið. Eiginmanni þínum mun finnast hann kominn í friðarparadís og það hefur mikið að segja fyrir hann.
4. Snyrtu börnin til. Það tekur aðeins nokkrar mínútur að þrífa hendur og andlit og greiða þeim. Ef þarf, skaltu láta þau skipta um föt. Þau eru hans fjársjóður og hann vill sjá þau þannig.
5. Sjáðu til þess að húsið sé hljóðlátt. Slökktu á öllum vélum, s.s.
uppþvottavél , þvottavél, þurrkara og ryksugu. Reyndu að sjá til þess að börnin hafi hljótt. Taktu á móti honum með glöðu brosi.
6. Gættu þess að hella ekki yfir hann kvörtunum þegar hann kemur. Ekki heldur kvarta þó hann komi of seint í mat. Þú getur verið viss um að þínar kvartanir eru minniháttar í samanburði við það sem hann hefur þurft að þola yfir daginn.
7. Sjáðu til þess að hann hafi það þægilegt. Láttu hann halla sér aftur á bak í hægindastól eða stingdu upp á því að hann halli sér smástund í rúmið. Vertu tilbúin með kaldan eða heitan drykk handa honum. Bjóddu honum að
klæða hann úr skónum og hagræddu púðunum undir honum. Ræddu við hann með
rólegri, mjúkri röddu. Leyfðu honum að slaka á.
8. Láttu hann ráða kvöldinu. Ekki kvarta þó hann fari ekki með þig út að borða eða á aðrar skemmtanir, reyndu í stað þess að skilja að hann hefur
fengið sinn skerf af streitu og látum yfir daginn og þarfnast hvíldar
heima.
9. Markmiðið er að gera heimilið að stað þar sem eiginmaður þinn getur fundið frið og reglu og getur slakað á eftir erfiðan dag.

Birbimm birbamm.

Baðið er böl.

Sunnudagur, 2. júlí 2006

Smá misskilningur. Systir mín hringdi í mig og allir virðust hafa brenglaða heyrn.
Systa: Hæ hvað ertu að gera?
Ég: Skanna tölvuna.
Systa: Ha, ertu að skamma tölvuna?
Ég: Nei, ég er að skanna tölvuna.
Dótlan: Ha mamma ertu að skemma tölvuna?

Dótlan mín getur verið algjör þrjóskhaus. Það kostar alltaf átak að biðja hana um að gera eitthvað, gildir einu hvað það er. Ef hún er svöng og ég segi henni að fá sér að borða þá getur hún það ekki vegna þess að hún tók ekki þá ákvörðun sjálf.

Hún fékk þennan mótþróa í arf, örugglega ekki frá mér. Þegar hún var 2/3 ára var hún eina barnið á leikskólanum sem neitaði að fara í skammarkrókinn. Sagði bara nei, þarna ætla ég ekki að sitja.
Það hefur alltaf verið erfitt að fá hana til að fara í bað, eins og allt annað sem ég bið hana um að gera. Ég hef reynt ýmis ráð til að fá hana til að sinna þessari grundvallarþörf, betla, biðja, grenja, tuða, skamma, henda, segja, orga, skipa o.s.frv en yfirleitt tekur það um 2 daga og 2 - 3 klukkutíma að nöldra hana í sturtuna.

Um daginn hóf ég þetta vanalega tuð, fara í bað. Var búin að segja henni daginn áður að hún ætti að fara í bað þennan daginn. En að sjálfsögðu þurfti hún að treina það töluvert, gera hitt og þetta og væla smá og fyrst að borða og fyrst hitt og fyrst þetta og svona og hinsegin og bla bla. Ég fékk nóg og sagði að hún fengi ekki að fara út fyrr en hún væri búin í baði, fengi ekki einu sinni að fara í fótbolta. Hún missti andlitið á gólfið, dröslaði því upp aftur, skundaði inn í herbergi, skellti á eftir sér hurðinni og skrifaði mér hatursbréf.

Hún klæddi sig bara í náttföt þegar hún vaknaði, var slétt sama hvort hún fengi að fara út eða ekki. Það var ekki fyrr en seinnipartinn, þegar ég sagði henni að hún gæti fengið Aftureldingargallann í dag sem hún loksins tók þá ákvörðun sjálf, alveg sjálf, upp á sitt einsdæmi, að fara í bað með bros á vör.

Biribimm birbamm.