Færslur ágústmánaðar 2006

Nautaat.

Sunnudagur, 27. ágúst 2006

Já það er víst að haustin eru ágætur tími til að næla sér í vöðvabólgu og pirring. Á venjulegum tímum liggur þetta dótarí í felum og bíður eftir að einhver aulinn kræki í þetta en þegar skólarnir byrja þá hoppar þetta í nautabanabúning og sveiflar rauðri skikkju fyrir framan okkur. Gargar “TORO!! í stað “here pus pus”. Á örfáum dögum þurfa allir þeir sem eiga börn í skóla og eru í skóla sjálfir að hendast í búðir til að versla það sem þarf fyrir námið. Troðningar og biðraðir er akkúrat það sem óþolinmóðum íslendingum finnst skemmtilegast að gera.

Ég er þó fegin að það þarf ekki að hafa mikið fyrir dótlunni, eina sem þarf að gera er að versla, henda draslinu í töskuna og bless. Fyrir utan það þó að hún er komin á snemmbæra gelgju. Allt var ómögulegt morguninn sem skólasetninging var. Hún ætlaði að slétta á sér hárið en vaknaði of seint, glatað sko! Svo grenjaði hún og vældi því hún vildi fá lánað belti frá mér. Belti sem rétt passa á mig sem er 3x breiðari en hún.

Ég hlakkar ekki til þegar gelgjan brýst fram af fullum krafti. Og þó, þá kannski hef ég nóg að blogga um. Og þó, kannski næ ég ekki að skrifa mikið meira en arg og garg. Kemur vonandi í ljós eftir nokkur ár takk!!

Fyrirhöfnin hjá mér var töluvert meiri en að kaupa drasl, henda í töskuna og mæta í skólann með freðið bros. Flestir tímar hjá mér voru um og eftir hádegi og mig langaði í meira meira mæta fyrr fyrr!! Einn daginn beið ég í hálftíma eftir að bæta inn einu fagi. Komst síðan að því að ég gæti bætt einu fagi til viðbótar, jíha. Því var ég mætt annan daginn í röð að rabba við áfangastjóra en röðin var löööööööng. Ætlaði samt ekki að hopa því ég vildi fá þetta fag inn!

Á þessum tíma eru ansi margir að lappa upp á stundarskrána sína en það vantaði annan áfangastjórann. Argasta gargasta og því beið ég í klukkutíma en þá ákvað kerlan að fara í mat. Ætlaði samt ekki að gefast upp og sat því sem fastast. Eftir rúmlega 1,5 klst bið þá komst ég að og var rétt um mínútu inni.

Fegin er ég nú að vera búin að rífa af mér hornin, gufukatlana úr nösunum og dansaði síðan nautabanann af mér á balli með Gildrunni.

Biribimm biribamm.

Danmerkuferðin.

Mánudagur, 21. ágúst 2006

Að sjálfsögðu gleymdi ég deddlæninu fyrir bloggið, þ.e.a.s. henda inn færslu fyrir miðnætti. Var upptekin í dag við að vera pirruð og hefði því líklegast lítið annað en urg og arg verið krotað fyrir bloggið. Ég var víst búin að lofa ferðasögu, bjóst að vísu við að hún yrði mikið mikið mikið merklegri en þessi er þó betri en engin.

Við ætluðum fyrst að eyða smá tíma í Köben, höfðum mögulega 3 gistingar. Eina örugga, eina vara og aðra vara var. Enginn gat svo tekið á móti okkur þannig að við urðum víst að bruna beint til Vojens. Það var obobb númer eitt, allt er þegar þrennt er rættist.

Þriðjudagurinn rann upp og ég var orðin þvílíkt spennt. Ákveðin stemmning fylgdi því að fara í innritun og tékk og sitja svo á kaffihúsi með öl og rettu. Náði reyndar ekki nema að sötra hálfan bjór, þá var ég komin með nóg. Eftir smá töf, ca 30 mín, þá vorum við kellingarnar sestar inn í vél og vel spenntar á alla kanta. Flugvélin burraði í tæplega 3 tíma og þá stigum við á danska grund. Vá og aftur vá hvað það var gaman. Mikið assgoti var svo löng ganga bara að töskunum, jídúddamía skobarasta.

Náðum töskunum og leituðum að lestarstöð eða álíka fararbæri til að henda okkur á lestarstöð. Heppnin var með okkur, það var lestarstöð á Kastrup og við gátum pantað miða beint til Vojens, já eða með smá skákomum hingað og þangað. Já og lestin fór víst ekki fyrr en á miðnætti. Við sáum að eitthvað var gruggugt þegar við skoðuðum lestarmiðana og númerin á lestunum, skildum hvorki upp né niður í hvernig þetta kerfi virkaði. Ég gerði heiðarlega tilraun til að spurja lestarmiðasölukallinn hvar við ættum að taka fyrstu lestina, “Central station” argaði hann óþolinmóður og bandaði mér í burtu. “Here?” spurði ég og jess sagði hann og bandaði mér aftur í burtu.

Ákvað því að vera ekkert að trufla aumingja manninn meira og hanga bara þarna þangað til líkleg lest kæmi. En hin kellan (sem var með mér sko) rakst á íslendinga sem voru guðs gjöf fyrir tvær ráðvilltar hænur í stórri flugstöð. Við áttum víst að taka lest frá Kastrup að annari stöð og á þeirri stöð væri lest sem færi með okkur til Odense og þar biði okkar svo lest til Vojens.

Gott að vita það, annars hefðum við hangið þarna til morguns. Á central stöðinni snérum við okkur í hringi eins og ráðvilltar hænur því við vorum ekki að fatta þetta kerfi, hvar átti lestin okkar að koma. Gripum í lestarkall sem sagði okkur að lestin kæmi á track 6. Dásamlegt! Eitthvað að gerast. Nema við biðum heillengi við track 6 en aldrei kom lestin. Við skulfum af hræðslu í smá tíma eða þangað til við spurðum lestarkellu út í þetta mál, en þá höfðu víst verið örlitlar breytingar og lestin átti að koma á track 7.

Lestir komu og fóru og að lokum pikkuðum við í konu sem var þarna og spurðum hvaða lest færi til Odense. Hún sagðist vera á leiðinni þangað líka og því eltum við hana bara. Held að greyi konan hafi verið soldið hrædd við okkur því við slepptum henni ekki úr sjón, gengum eða hlupum á eftir henni. Loks komumst við inn í lest sem var á leið til Odense en skildum ekkert í því af hverju það vantaði reyksvæðið okkar.

Lestarkallinn sagði að ef við vildum reyksvæði gætum við skipt um lest á næstu stoppustöð. Við héldum nú ekki!! það var bara nokk þægilegt að sitja í lest, fann lítið fyrir ferðinni og gaman að koma í lest (fyrir utan vesenið). Okkur var tilkynnt það að lestinni seinkaði og því óx og óx kvíðahnútur í mallanum - sjitturinn, náum við hinni lestinni???? Viti menn, það hafðist. Loksins loksins loksins loksins sátum við í lest á leið til Vojens í örugga höfn. Kl 3:30 vorum við mættar og gestgjafinn beið okkar á lestarstöðinni.
Þetta var obobb númer tvö.

Það er nú svo sem ekki frá miklu að segja. Gistum hjá yndislegu fólki, þau eiga 2 hunda og voru með einn St, bernharðs hund í pössun (sem var svaka kelirófa og gerði í því að slefa á hreinu fötin). Versluðum smá og smá, skruppum til Flensborgar í Þýskalandi. Vorum 30 mínútur að keyra þangað, nokk gaman að skoða Þýskaland líka (já eða örlítið brot af því). Fórum í ljónagarð, þar voru reyndar slatti af dýrum öðrum en ljónum; apar, górilla sem ullaði, gírafar, fílar, úlfaldar sem fyrst röðuðu sér í eina línu með smettið fram (pósa fyrir mynd), snéru sér svo við og þá var pósað rassinum, nashyrningar og ble ble bara slatti af dýrum. Enda tók ég helling af myndum en vantaði samt fleiri filmur (já ég er nörd).

Kvöldið áður en ég fór heim sátum við og spjölluðum langt frameftir, drukkum dúlís og öl. Ég var orðin svakalega dönsk í mér, bað um mörk kaffi og var á leið í lofthöfnina. Ég ætlaði svo aldrei að ná að sofna og rétt náði að dotta í hálftíma. Rauk á fætur kl 6:30, átti eftir að sitja 3 tíma í lest og flugið átti að fara kl 13:15. Sú varð sko ekki raunin!! Þarna var obbobb númer þrjú. Til að byrja með var ekki hægt að tékka sig inn, var einhver ógn akkúrat í terminal 2. Þurfti þó ekki að bíða lengi eftir að komast inn og var mjög fegin að komast í fríhöfnina.

Fékk 100 dkkr vegna tafar á flugi til að versla mér að éta. Ákvað því að fara bara á steikhús og fá mér eitthvað almennilegt að eta. Fékk steik með vondu brunabragði og harða kartöflu. Það voru nokkrir tíma í flug, ca 5 tímar og ég ákvað að ganga um til að halda mér vakandi. Hefði örugglega sofnað ef ég hefði fengið mér sæti. Þegar ég var búin að ganga trilljón hringi þá voru íslenskir farþegar kallaðir upp, enn meiri seinkun á flugi og aftur 100 dkkr til að versla í matinn. Þá ákvað ég bara að fá mér marga banana og nokkur súkkulaðistykki til að halda jafnvægi á blóðsykrinum. Bananinn virkaði vel, þurfti ekkert súkkulaði.

Meirpartinn af þessum tæplega tíu tímum sem ég var á flugvellinum eyddi ég í að ganga. Af og til settist ég niður til að reykja og spila en hélt mér gangandi á bönunum og göngu. Kl 19:15 kom loks á töflu að hvaða hliði ég ætti að mæta og ég brunaði á 30km hraða þangað. Steinrotaðist áður en flaugin tók á loft og svaf vel þangað til við svifum yfir vatnajökli.

Var komin heim klukkan 21 í stað 14:23. Fúlt og aftur fúlt!!! En hlakkaði mjög mikið til að hitta elsku litlu krúsídúlluna mína. Hún var hjá mömmu sem ætlaði að sækja mig. Sá þetta alveg fyrir mér, litlan kæmi hlaupandi með bros á vör - MAMMA!!!! hæ hæ lovjú og allt það og keyptirðu marga pakka?????

EN nei nei, mín vildi bara ekkert koma að sækja mig!! Var á þvælingi með vinkonu sinni, kom heim og hæ hæ og lovjú og allt það og hvar eru pakkarnir og fékk ég ekki meira? Og má ég gista hjá vinkonu minni???

Gaman að koma heim, þvottavélin að hrynja og ofninn lekur. Home sweet home.

Birbimm birbamm.

Adíos….

Sunnudagur, 13. ágúst 2006

Ég stórgleymdi að blogga síðasta sunnudag, ég var upptekin við að lepja áfenga drykki í tilefni af frídegi verslunarmanna. Ég, sem er ekki verslunarmaður, var í fríi á mánudeginum ólíkt ansi mörgum verslunarmönnum. Ef það eru einhverjir sem vinna á frídegi verslunarmanna þá eru það verslunarmenn.

Annars ætla ég ekki að blogga mikið núna, spara puttana þar til næsta sunnudag því þá kemur ferðasaga (spara puttana my ass, er bara hugmyndasnauð). Ætla að skreppa til Danmerkur í 4 daga. Er búin að fá ferðamannaniðurganginn fyrirfram, sjaldan upplifað jafn mikinn hrærigraut af kvíða og spenningi. Þangað til næst, góða ferð ég og allt það.

Birbimm birbamm