Færslur frá 10. september 2006

Fóbíur, já og skrýtin lyfta!

Sunnudagur, 10. september 2006

Lengi vel var ég haldin fóbíu fyrir köngulóm og geitungum. Nennti eiginlega ekki að takast á við þær fóbíur, sá þetta drasl hvort eð er svo sjaldan. En vont er samt að skjálfa og svitna í hvert sinn sem könguló er í augsýn og hlaupa um sveiflandi skönkum og argandi þegar geitungur líður hjá. En í vinnuni þarf ég að kála köngulóm (dettur ekki til hugar að bjarga þeim!!) og því hefur köngulóarfóbían smá saman verið að lagast.

Þegar ég fór til DK var að sjálfsögðu nóg af geitungum og köngulóm, ég nennti sko ekki að vera hlaupandi um allt og henti því þessum fóbíum í vasann (ekki ruslið samt, of langt að sækja þær þangað ef mér dettur í hug að skrækja yfir þessu dótaríi aftur). Ég hleyp ekki lengur í burtu ef ég sé geitung, þrefallt húrra fyrir mér!!!!

Um daginn var könguló inni hjá mér. Ég greip í eina löpp á þessu kvikindi og henti henni út, stórmerkilegur áfangi fyrir manneskju sem fyrir ekki svo löngu síðan þorði varla að stíga á svona stykki. Margfallt húrra húrra!!

Á mánudaginn var ég að vinna og barasta sópandi í rólegheitunum. Sé ég ekki þetta ógeðslegasta kvikindi sem ég hef augum litið!! ca 2 cm löng, kolsvört og loðin köngulóardrusla var bara töltandi í rólegheitunum þarna. Með feitar lappir og ekki út til hliðanna heldur fram á við. Argasta og hrollur og bjakk og ojbara og allt það. Ég barði hana með moppunni og hélt að þetta kvikindi væri steindautt. Nei nei, þá hafði hún rúllað sér saman, hoppaði svo skyndilega í sundur og hélt áfram að labba eins og ekkert hefði í skorist.

Ég fríkaði út, setti moppuna mína (bjargvættinn minn) á hana og hoppaði og hoppaði á moppunni, kíkti á dótið, moppuna aftur yfir og hoppaði og hoppaði og hoppaði til að vera handviss um að hún væri dauðari en dautt. Sópaði henni svo fram og til baka en hafði auga með henni ef henni dytti í hug að hoppa í sundur aftur.

Nennti svo ekki að hafa auga með henni lengur, nældi mér í járnstaut og kramdi hana í klessu. Lamdi duglega á hana nokkrum sinnum þangað til hún var orðin svo illa kramin að það hefði verið hægt að skrifa með henni með fjaðurpenna.

Furðulegt hve húðin verður næm þegar svona stendur á. Ég var, eftir þessa skelfilegu reynslu, með þvílíka paranoju. Bjóst við annari svona hvað úr hverju, skríðandi á mér eða gera sér heimili í hárinu. En ef buxurnar snertu húðina þá stökk ég til því mér fannst eitthvað vera skríðandi á mér, svífandi ryk varð að ógnvætti og læti bara. Meira segja vindurinn var skerí þegar ég brummaði heim á hjólinu. En lækningin var, skoða myndir af köngulóm og planta einu stykki á desktopið og ég hoppaði ekki mikið daginn eftir í vinnunni.

Og þá er það skrýtna lyftan. Lyftan í vinnuni neitar alfarið að fara í gang þegar ég stíg inn í hana. Ég get náð í hana, en um leið og ég stíg inn í hana þá gerist ekkert. Svo eftir smá tíma virkar hún fínt. Fyrsta skiptið sem þetta kom fyrir tilkynnti ég bilun, en í annað og þriðja skiptið lét ég það vera því þá væri ég að tilkynna bilun í mér. Vaktmaðurinn kom með ágætis kenningu, þetta væri diskólyfta sem væri að mótmæla mínum tónlistarsmekk, greinilega þolir ekki rokk.

Biribimm biribamm.