Færslur desembermánaðar 2006

Bráðum koma blessuð jólin

Sunnudagur, 17. desember 2006

Jæja jæja. Þá er desember genginn í garð. Nú er rétti tíminn til að hendast í stress gallann með geðveikisglampa í augum, jólaskraut í úfnu hárinu, jólapappír og jólaborða teipað fast við stressgallann, piparkökudeig í smettinu og með rúðuúða og cilit bang ilmský yfir höfði. Auglýsingaflóðið valtar yfir allt og alla eins og risastór alda og fáir eiga nægilega stórt brimbretti til að halda í við þessa öldu.

Eins og ölduniður getur verið þægilegur þá er þessi niður það ekki. Stundum hljómar hann “zzzzzzuuuuuuuzzzzzzzzzuuuuuuuuuuuuuzzzzzzzzzzuuuuuuuu gefðu bííííiíl zzzzzzzzzzuuuuuuzzzzzzzzuuuuuuuuuuuzzzzzzzzzuuuuuuuuuu gefðu plaaaasma zzzzzzzzzzzuuuuuuu zzzzzzzzzzzuuuuuuu” og þess á milli “skín í rauða skotthúfu… la la la”.

Veit ég vel að það er hægt að lækka í tækinu eða skipta um stöð á meðan flóðið stendur yfir. En ég er letingi bæði inn við beinið og utan þannig að það er of mikil fyrirhöfn að þrýsta á þessa takka á fjarstýringunni. Og þó. Ég lýg þegar ég segi ‘þessa’ takka því eini takkinn sem ég þarf að pota í er mute. En samt of mikil fyrirhöfn.

Þyrfti að næla mér í sniðuga teppið sem var verið að auglýsa um daginn. Þetta með vasanum. Assgoti sniðugt að pota bara fjarstýringunni þar oní og þurfa ekki að teygja sig langt eftir græjunni. Örugglega líka hægt að troða smá poppi þar oní, einu marsi og poka af djúpum.

Smám saman er rómantíkin að síast inn hjá mér. Día gaf mér kerti í afmælisgjöf með það í huga að ég ætti að drusla saman smá rómantík og hafa það kósí. Það augljóslega virkaði því um daginn datt yfir mig rómantík. Ég mundi eftir því að kerti gefa yl, það var svo assgoti kalt hér í kotinu.

Ef kuldinn heldur áfram að læðast um hér inni sé ég fram á að þurfa að;
a) halda rómantíkinni við
b) smyrja helvítis gluggana

Biribimm biribamm