Ég er ekki alki fyrir fimmaura.

Stundum kemur yfir mig löngun í bjór eða léttvín. Þá langar mig bara í eitt glas, bara svona aþþíbara. Venjulega kemur þessi löngun upp á föstudegi eða laugardegi.

MMMM….. mig langar í bjór, best að skreppa í ríkið hugsun poppar upp einn föstudaginn. Nema hvað að þegar ég ætla að skreppa út að versla bjórinn þá er búið að loka ríkinu.

Núja, hugsa ég með mér. Fer þá bara á morgun. Þá er sama sagan og fyrri daginn, ég hreinlega man ekki eftir að skjótast þessa 20 metra í vínbúðina.
Svona gengur þetta í nokkrar vikur. Löngunin kemur, “ég fer á eftir”, man eftir þessu eftir lokun. 

Það sem er öllu verra er að þegar ég á bjór í ísskápnum þá man ég ekki eftir að drekka hann. Þurfti að fara í ríkið nú í byrjun mars og átti afgang af bjór. Alla daga kíki ég inn í ískáp, sé bjórinn og hugsa, “ahhh mig langar í bjór!! fæ mér í kvöld”.

En man ég eftir því? Nei ó nei, gleymi því um leið og ég loka hurðinni. Á sunnudaginn var sama sagan, ég sá bjórinn, langaði í hann, ákvað að fá mér seinna um kvöldið og ákvað líka að ég skyldi muna eftir þessu.

Ég skrifaði á post-it “drekka bjór” og límdi hann á skjáinn. Og viti menn, ég sötraði öl þetta kvöld.

Biribimm biribamm.Lokað er fyrir ummæli.