Espressó og cappúchínó

Um daginn hafði ég áformað að hella upp á kaffi. Ég gerði eins og venja er, reif könnua út, ætlaði fimlega að skella henni undir bununa og eins og venjulega brussaði ég könnuna í kranann. Nema í þetta skiptið þá gaf glerið undan, elskuleg kaffikannan mín brotnaði. Því fórnaði ég mér í það verkefni í dag að versla nýja kaffikönnu. Á netflakki í gær sá ég ansi fína og hræódýra könnu sem hægt er að hella upp á norm kaffi og espressó, svo ekki sé minnst á að það er hægt að flóa mjólk.

Ferðin hófst klukkan 11:14. Með strætó að sjálfsögðu, ódýrt, einfalt og fljótlegt. Fleiri kostir? Ég gat sko látið mig dreyma um vænan bolla af espressó á ferð minni. Það er kosturinn við mig í strætó, ég er nefnilega hættuleg kona við stýrið. Í Elkó skeifunni var mér tjáð að kaffikannan mín væri ekki til, en eftir nokkur símtöl fannst eitt stykki og beið það mín í Smáratorgi. Ég ákvað að nenna þessu ferðalagi, frá Skeifu og inn í Kópavog.

Elsku sæta og góða kaffikannan mín var loks komin í mínar hendur um 12:34 og þurfti ég að hlaupa með risastórann kassa í fanginu svo ég mögulega næði strætó klukkan 12:44. Annars sæi ég fram á hálftíma bið eftir næsta. Ég hljóp mjög varlega með risa kassann í fanginu að strætóskýlinu sem virtist ansi langt í burtu. Þetta var eins og mörgæsahlaup, vildi heldur ekkert detta með elsku kaffikönnuna mína.

Ég hrósaði sigri þegar ég náði að skýlinu á undan strætó. Sönglaði lagstúf í hljóði og glotti við kassanum. Sá strætó svo koma brunandi, hann kom nær og nær. Maður sem stóð í strætóskýlinu veifaði vagninum og ég stóð glottandi með risa kassann minn í fanginu.

En….. ?? Helvítið stoppaði ekki! Hann hægði ekki einu sinni á sér! Bara ók áfram og þóttist ekkert taka eftir okkur illunum sem stóðum þarna og biðum. Ég er alltaf jafn feginn þegar ég sest inn í strætó eftir bið og þarna bara brunaði druslan áfram, skildi okkur eftir, alein, að bíða lengur, eftir næsta, í heilan hálftíma, voff bara!

Næsti vagn stöðvaði þó og ég komst loks af stað og þurfti ekki að bíða lengi eftir vagninum heim. Var komin heim klukkan 13:45.

Eins og ég segi, ódýrt, einfalt og fljótlegt að taka strætó

Biribimm biribamm.Lokað er fyrir ummæli.