Færslur janúarmánaðar 2007

Bílstjórar eru fávitar!!!

Sunnudagur, 14. janúar 2007

Hvað er annars svona gleðilegt við byrjun ársins? Ég vakna nokkuð kát, fæ mér kaffisopa og ósóma, sest síðan niður til að lesa mitt blað og þá er nýársgleðin farin. Ég er hætt að lesa blöðin. Einstaka frétt um málefni líðandi stundar en síðan grein eftir grein um megrun og megrun og megrun og skuldir og skuldir og aftur megrun og ketti og hreyndýr og drekka snjó með karrýi og stöppuðum banana o.s.frv. Bjúgur og jólabumba, vinna hefst aftur sem er í raun gleðiefni því það er hundleiðinlegt að danglast um og hafa ekkert fyrir stafni. Skólinn hefst aftur sem er enn meira gleðiefni því þá hef ég eitthvað fyrir stafni á daginn líka.

Þrátt fyrir að ég hafi verið í fríi yfir jólin þá varð ég þreyttari og latari en ef ég hef mikið fyrir stafni. Mér datt t.d. ekki í hug að ryksuga þó það sæist ekki í gólfið fyrir fuglakorni, kexi, poppi, hörðum osti og gúrkusneiðum. Var of upptekin við að gera ekki neitt. “Vaskaðu bara upp glas” argaði ég reglulega og ef ég hefði nennt út í búð þá hefðu verið staflar af einnota dótaríi og stórir ruslapokar á víð og dreif um pleisið.

Bráðum þarf ég þó ekki að arga lengur því ég ætla mér að ættleiða uppþvottavél. Litla barnið mitt mun bera nafnið þvotta og verður sannarlega gleðigjafi á þessu heimili. Þá mun uppvaskið örugglega vera afskaplega spennandi fyrir dótlunni, svona fyrst um sinn. Er víst kominn tími á að herða á písknum, hún á að að vaska upp, þvo þott, skúra, elda og allt það sem sannri dömu sæmir í stað þess að drasla til og rífa kjaft sem drengur væri. Það er því áramótaheitið, temja dótluna betur.

Ég fer ekkert ofan af því að bílstjórar eru fávitar. Þessir fávitar sitja í sínu upphitaða skýli og ekki svo mörgum dettur í hug að stoppa fyrir gangandi vegfarendum við gangbraut, þá sérstaklega ekki ef veður er vont. Sumir jafnvel ana áfram þrátt fyrir að bíll úr gagnstæðri átt stöðvi. Fábjánar. Þó skiptir klæðnaður máli. Ef ég er með hettuna uppi þá er ekki séns í hvelvíti að nokkur hleypi mér yfir. Húfa er í lagi, léttur klæðnaður hittir í mark og ég á eftir að prófa nektina.

Biribimm biribamm.

Jóladagbók - hátíðargeðveikin á mínu heimili

Þriðjudagur, 2. janúar 2007

Miðvikudagur 20 des
Tvær jólagjafir komnar í hús, um 16 eftir. Ætlaði að vakna eeeeeeeeeeldsnemma og versla og versla en nennti því svo ekki. Dröslaðist alltof seint framúr, verslaði smá drasl í ískápinn, vann, boraði svo í nefið það sem eftir lifði dags.

Fimmtudagur 21 des
Vera dugleg að versla í dag og ekkert múður. Æ geisp best að þrífa bara í staðinn og henglast þetta í kvöld. Stakk rakettu í boruna og vann á ofurhraða. Of vont veður til að nenna í bæinn, geri þetta á morgun.

Föstudagur 22 des
Vaknaði og teygði úr mér. Það var notalegt að vera til. Píndi dótluna til að koma með í bæinn, hafa gaman saman. Dótlan var byrjuð að vola eftir korter og örtöðin jókst eftir því sem leið á daginn. Góða skapið lét sig hverfa, hungrið kom hlaupandi og engin sæti laus. Bless bless kringudrusla, ég er farin heim!!! Kem ekki aftur næstu jól!!! Lofa því eins og síðustu ár!!! Rakst á dömur sem ég þekki og við fengum far heim. Enda var grenjandi rigning og von var á heljarinnar gjafadrukknun. Pakkaði inn gjöfum á mettíma með dótluna volandi yfir mér, allt ómögulegt. Systa hringdi og sagðist rétt ætla að vona að ég kæmi um kvöldið. Til hvers??? Urraði ég. Æjá, miðormurinn átti afmæli. Blásaklaus kerlingaranginn fékk á sig rok og rigningu gegnum símann, mitt góða skap fauk út um allt. Ágætis endir á deginum, fullt af kökum og andvökunótt.

Laugardagur 23 des.
Hvers vegna étur fólk úldinn mat? Við étum steiktann fisk og franskar. Dagurinn fór í að tuða í krakkanum, ganga frá ganga frá!!!! Allt á að vera hreint og fínt!!! Til hvers, spyr dótlan. Nú bara, segi ég og þar við situr. Ég er eldri og vitrari og veit að jólin krefjast þess að það sé ekki niðurklippt bréf á gólfinu, nammibréf út um allt og sandur á gólfum. Og til að halda því þannig þarf urrarinn í mér að vera til staðar. Jólin krefjast þess.
Nú, formlega og opinberlega, hata ég seríur. Henti þessu drasli í einni hrúgu á gluggann. Var nýbúin að leysa flækju og þegar ég ætlaði að raða þessu upp þá fór þetta í flækju aftur. Rembdist áðan við að setja upp seríu úti. Þetta var mikil þrekraun, mig vantar nokkra cm á lengdina svo ég geti hent þessu upp með góðu móti. Þetta er þvælt og allt það, mér stendur á sama. Seríur eru svarnir óvinir mínir.

Sunnudagur 24 des.
Aðfangadagur mætti reifur á svæðið. Jibbí jei. Þar kom kátínan hlaupandi og fagnandi til mín aftur því það var góður matur á boðstólum og pakkar pakkar pakkar!!! Ég fékk tvo stóra pakka!!! Einn frá mannsa og einn frá pabba. Er greinilega ekki ennþá vaxin upp úr því að það er gaman að fá stóra pakka. Fórum heim til mannsa að snæða möndlugjafargraut og hissalúkkið var alvöru þegar ég sá möndlu á minni skeið. Græddi þarna fínasta skraut á jólatréð, hí á ykkur hin…ég vann *ull*. Litli bró fékk skemmtilega gjöf. Stór pakki handa honum vel merktur brothætt. Þar inni var vel vafið fréttablað sem var svo ekkert inni í. Slatti var af rifnu fréttablaði og kornfleksi þar oní. Eftir mikla leit kom í ljós armband. Maturinn var góður, gjafirnar flottar og dagurinn góður.

Mánudagur 25 des.
Ég hafði það af, algjörlega óviljandi og óafvitandi, að pota í nokkra eigingirnistakka hjá minni familíu. Tilkynnti þeim það að mannsamamma varð fyrri til að ræna mér og dótlunni í mat. Svona átti þetta ekki að vera, þetta var ekki rétt. Sonja ehf varð skyndilega Sonja hf í þeirra huga og voru þau hreint ekki sátt við að eiga minnihlutann. En ég gat hætt að ýta á takkana því það var matur hjá mannsa kl 3 og mor kl 6. Óhætt að segja að maginn hafi stækkað um marga sentimetra þennan daginn.

Þriðjudagurannarjanúar tvöþúsundogsjöogennþásödd
Gleðilegt ár STOPP. Takk fyrir það liðna STOPP. Hafið það gott STOPP. C ya….

Biribimm biribamm.