Færslur marsmánaðar 2007

Ég er ekki alki fyrir fimmaura.

Miðvikudagur, 28. mars 2007

Stundum kemur yfir mig löngun í bjór eða léttvín. Þá langar mig bara í eitt glas, bara svona aþþíbara. Venjulega kemur þessi löngun upp á föstudegi eða laugardegi.

MMMM….. mig langar í bjór, best að skreppa í ríkið hugsun poppar upp einn föstudaginn. Nema hvað að þegar ég ætla að skreppa út að versla bjórinn þá er búið að loka ríkinu.

Núja, hugsa ég með mér. Fer þá bara á morgun. Þá er sama sagan og fyrri daginn, ég hreinlega man ekki eftir að skjótast þessa 20 metra í vínbúðina.
Svona gengur þetta í nokkrar vikur. Löngunin kemur, “ég fer á eftir”, man eftir þessu eftir lokun. 

Það sem er öllu verra er að þegar ég á bjór í ísskápnum þá man ég ekki eftir að drekka hann. Þurfti að fara í ríkið nú í byrjun mars og átti afgang af bjór. Alla daga kíki ég inn í ískáp, sé bjórinn og hugsa, “ahhh mig langar í bjór!! fæ mér í kvöld”.

En man ég eftir því? Nei ó nei, gleymi því um leið og ég loka hurðinni. Á sunnudaginn var sama sagan, ég sá bjórinn, langaði í hann, ákvað að fá mér seinna um kvöldið og ákvað líka að ég skyldi muna eftir þessu.

Ég skrifaði á post-it “drekka bjór” og límdi hann á skjáinn. Og viti menn, ég sötraði öl þetta kvöld.

Biribimm biribamm.

Frekar óþægilegt.

Sunnudagur, 25. mars 2007

Um daginn fékk ég að prófa öndunarmælingu. Sú sem sér um þetta vildi endilega prófa nýja tryllitækið sitt og vantaði heilbrigðann blásara. Ég ákvað af góðmennskunni einni saman, ásamt dassi af forvitni, að fórna mér í þessa tilraunastarfsemi.

Veit nú að lungun eru næstum fullkomlega heilbrigð, mættu vera betri samt:S

Ég hafði áður horft á öndunarmælingu í framkvæmd, virtist ekki ýkja flókið eða erfitt. En ég, með heilbrigðu reyklungun, var á því að ég væri að kafna. Hver tilraun er gerð 2 - 3 sinnum. Rétt áður en fyrsta tilraun hófst fór ég að sjá eftir þessari góðmennsku minni. Klemma á nefinu, stútur í trantinum og ég gat ekki kyngt (það er assgoti assgoti óþægilegt!!)

Ég þurfti að kreista allt loft úr kroppnum, belgja mig upp af lofti, blása og mása og ég veit ekki hvað. Fyrir rest var ég orðin frekar undarleg í hausnun, þá undarlegri en vanalega.

Koldíoxíð í lungum var algjörlega skipt út fyrir súrefni í síðustu rauninni. Ég sver að það er satt, ég var í vímu eftir þessa þolraun. Svona mikið súrefni getur varla verið heilanum gott.

Setningar ultu samhengislausar út úr mér. Eitt orð sem ég gat engann veginn sagt rétt var drasl og rusl sama hvað ég reyndi. Drusl, rasl nei drusl… nei ég meina lusl… eða bara lasl.. æ nei… ööö… drusl… æ arg!!

Fannst þó þegar leið á daginn að ég væri að jafna mig. Ofurkátinan sem ég græddi á þessu fór minnkandi og orðaforðin fór aftur í réttar skorður.

Rétt fyrir heimferð tæmdi ég vasa mína, sagði bless og “nennirðu að henda þessu í druslið?”

Biribimm biribamm.

Nokkur ráð við svefnleysi.

Sunnudagur, 18. mars 2007

Flóuð mjólk með hunangi. Það verður að sjóða hana því það verður einhver breyting á mjólkinni við suðu sem verður ekki við upphitun.

Fylla líkamann af sandi. Ýminda sér að líkaminn sé að fyllast af sandi og að hann þyngist og þyngist. Hef ekki prófað þetta sjálf en hef heyrt að þetta virki mjög vel en það sé afar erfitt að vakna að morgni.

Öndunaræfingar. Anda rólega inn og út og í huganum líka. Þ.e. þylja með anda inn, anda út. Einnig er mjög róandi (sérstaklega við erfiðar eða stressandi aðstæður) að halda fyrir aðra nösina, anda inn, skipta um nös og anda út, anda inn aftur, skipta um nös og anda út o.s.frv.

Slakandi tónlist með eða án mötunar. Persónulega finnst mér betra að hafa mötun því ég tuða með og á þar með auðveldara með að sleppa þreytandi hugsunum.

Taka sér tíma frá rétt fyrir svefninn að hugsa hugsanir sem best er að burðast ekki með í rúmið.
T.d upptalning á stundarskrá næsta dags (aaaaarrrrrrrrrrrg það er svo brjálað að gera!!!), fíflið á kassa var með argasta dónaskap!!! Rifrildi, særindi og svo framvegis og svo framvegis.

Örlítið snarl ef magatetrið er tómt, það er vont að erfiða við að sofna með gaulandi garnir.

Svo er líka hægt að gera eins og ég, ég er nefnilega svo sniðug. Á meðan ég bylti mér og brölti, bölva í sand og ösku, naga sængina og sparka í dýnuna þá er ég að útdeila smsum með góðum ráðum við andvöku.

Biribimm biribamm.

Furðulega furðulegur draumur.

Fimmtudagur, 15. mars 2007

Mig hefur dreymt ansi margt yfirgengilega furðulegt en þetta held ég slær öllu út. Nægir held ég að segja Björn Ingi. Jebb og jamm, hann mætti í nótt í minn draumaheim.

Ég var að leita að einhverju, að mig minnir frænda mínum. Mamma var hugmynd í þessum draumi og er líklegt að við mæðgurnar höfum verið að leita að honum. Var búin að rölta og tölta um hverfið og það án gsm síma!! Hversu dömm gat ég verið. Því þurfti ég nauðsynlega að ná á mömmu því hún átti að ná í mig.

Hvers vegna veit ég ekki, ekki var ég langt að heiman. Skyndilega brummar hann Bingi að mér og býður mér far. Fyrst að þetta var draumur þá að sjálfsögðu þáði ég það með þökkum, mig vantaði nefnilega að hringja í mömmu.

Bingi brosti skakka brosinu sínu þegar hann tjáði mér það stoltur í bragði að hann gengi nú ekki með gsm síma á sér, hann væri jú svo afslappaður. Þess í stað bauð hann mér heim svo ég gæti hringt.

Bla bla bla bla sagði ég við mömmu í símann, aðallega að mig minnir nennjú sæk mí. Þegar ég var við það að kveðja Binga og skakka brosið datt honum svolítið sniðugt í hug! Hann bjó jú ekki langt frá mér, hvernig væri að ég færi alla morgna heim til hans, gripi stelpuskrattan hans og fylgdi henni í skólann ásamt dótlunni.

Mér fannst þetta frekar undarleg bón, þar sem ég bý stutt frá skólanum og þyrfti að fara í öfuga átt til að grípa þennan krakkabjána með. En Bingi hafði auðvitað lausnina á því. Hann átti þennan fína ww brumm brumm sem ég gæti fengið afnot af til að skutla dömunum í skólanum.

Ég samþykkti þetta, neita ekki flottum bíl. Nema lykillinn að svissinum var sígaretta. Fannst eins og retta dygði bara nokkur skipti í svissinn og ég þyrfti að fá nýja rettu frá honum reglulega. En klaufinn ég braut rettufjandann á leiðinni út, átti bara lítinn stubb eftir. Stubburinn dugði á einn rúnt og það síðasta sem ég man var að ég þyrfti að biðja Binga um aðra rettu.

Annaðhvort þýðir þetta að eitthvað miður gott sé í vændum, getur hreinlega ekki vitað á gott að dreyma framsóknarmann!
Eða framsóknarmenn séu á atkvæðaveiðum með aðstoð vúdú.

Biribimm biribamm.

Du du du du du!

Þriðjudagur, 6. mars 2007

Buxurnar mínar tóku þá sjálfstæðu ákvörðun að minnka við sig. Ekki alveg viss um í hvaða tilgangi þær gerðu það. Hvort það væri svo ég liti út fyrir að vera þrýstin og flott eða til að ég liti út fyrir að hafa bætt á mig lærum og rassi.  Að auki hefur buxnastrengurinn þrengst og beltin eru styttri.

Það furðulega við þetta allt saman er að vigtin hefur stigið upp á við í samræmi við vídd larfanna. Samsæri?

Ég held samt að sökudólgurinn sé vanish. Byrjaði að nota það síðust mánaðarmót og larfarnir minnka og minnka.  Gæti virkað að skrúbba kroppinn með vanish, ætla að prófa það.

Um daginn var vekjaraklukkan mín gú gú. Ég rankaði við mér við hið hljómfagra du du du du du, greip drusluna, rýndi í hana með smá rifu á auganu og ýtti á snús. Stuttu seinna fékk þessi drusla eitthvað kast! Hún var ekki lengur hljómfögur du du du heldur bætti hún við slaufum og lykkjum í hljóðin. Du du di di damm damm eða hvað það var sem hún var að orga. Ekki nóg með það heldur varð hún eitthvað speisuð í útliti.

Snús takkinn var ekki lengur lítill takki á miðju klukkunnar, hann var dottin ofan í holu og ég þurfti mikið að vanda mig til að hitta á hann. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti að hitta nákvæmlega á miðju takkans svo hún gæti hætt að orga. En úppps aðeins of mikið til hægri, úpps aðeins of mikið til vinstri, úpps aðeins of ofarlega, úppps aðeins of mikið til vinstri. Eftir að ég held 15 tilraunir til að hitta á helvítis takann þá ákvað herra fattari að ranka við sér. Þetta var símahelvítið að grenja.

Biribimm biribamm.