Færslur frá 15. mars 2007

Furðulega furðulegur draumur.

Fimmtudagur, 15. mars 2007

Mig hefur dreymt ansi margt yfirgengilega furðulegt en þetta held ég slær öllu út. Nægir held ég að segja Björn Ingi. Jebb og jamm, hann mætti í nótt í minn draumaheim.

Ég var að leita að einhverju, að mig minnir frænda mínum. Mamma var hugmynd í þessum draumi og er líklegt að við mæðgurnar höfum verið að leita að honum. Var búin að rölta og tölta um hverfið og það án gsm síma!! Hversu dömm gat ég verið. Því þurfti ég nauðsynlega að ná á mömmu því hún átti að ná í mig.

Hvers vegna veit ég ekki, ekki var ég langt að heiman. Skyndilega brummar hann Bingi að mér og býður mér far. Fyrst að þetta var draumur þá að sjálfsögðu þáði ég það með þökkum, mig vantaði nefnilega að hringja í mömmu.

Bingi brosti skakka brosinu sínu þegar hann tjáði mér það stoltur í bragði að hann gengi nú ekki með gsm síma á sér, hann væri jú svo afslappaður. Þess í stað bauð hann mér heim svo ég gæti hringt.

Bla bla bla bla sagði ég við mömmu í símann, aðallega að mig minnir nennjú sæk mí. Þegar ég var við það að kveðja Binga og skakka brosið datt honum svolítið sniðugt í hug! Hann bjó jú ekki langt frá mér, hvernig væri að ég færi alla morgna heim til hans, gripi stelpuskrattan hans og fylgdi henni í skólann ásamt dótlunni.

Mér fannst þetta frekar undarleg bón, þar sem ég bý stutt frá skólanum og þyrfti að fara í öfuga átt til að grípa þennan krakkabjána með. En Bingi hafði auðvitað lausnina á því. Hann átti þennan fína ww brumm brumm sem ég gæti fengið afnot af til að skutla dömunum í skólanum.

Ég samþykkti þetta, neita ekki flottum bíl. Nema lykillinn að svissinum var sígaretta. Fannst eins og retta dygði bara nokkur skipti í svissinn og ég þyrfti að fá nýja rettu frá honum reglulega. En klaufinn ég braut rettufjandann á leiðinni út, átti bara lítinn stubb eftir. Stubburinn dugði á einn rúnt og það síðasta sem ég man var að ég þyrfti að biðja Binga um aðra rettu.

Annaðhvort þýðir þetta að eitthvað miður gott sé í vændum, getur hreinlega ekki vitað á gott að dreyma framsóknarmann!
Eða framsóknarmenn séu á atkvæðaveiðum með aðstoð vúdú.

Biribimm biribamm.