Færslur frá 18. mars 2007

Nokkur ráð við svefnleysi.

Sunnudagur, 18. mars 2007

Flóuð mjólk með hunangi. Það verður að sjóða hana því það verður einhver breyting á mjólkinni við suðu sem verður ekki við upphitun.

Fylla líkamann af sandi. Ýminda sér að líkaminn sé að fyllast af sandi og að hann þyngist og þyngist. Hef ekki prófað þetta sjálf en hef heyrt að þetta virki mjög vel en það sé afar erfitt að vakna að morgni.

Öndunaræfingar. Anda rólega inn og út og í huganum líka. Þ.e. þylja með anda inn, anda út. Einnig er mjög róandi (sérstaklega við erfiðar eða stressandi aðstæður) að halda fyrir aðra nösina, anda inn, skipta um nös og anda út, anda inn aftur, skipta um nös og anda út o.s.frv.

Slakandi tónlist með eða án mötunar. Persónulega finnst mér betra að hafa mötun því ég tuða með og á þar með auðveldara með að sleppa þreytandi hugsunum.

Taka sér tíma frá rétt fyrir svefninn að hugsa hugsanir sem best er að burðast ekki með í rúmið.
T.d upptalning á stundarskrá næsta dags (aaaaarrrrrrrrrrrg það er svo brjálað að gera!!!), fíflið á kassa var með argasta dónaskap!!! Rifrildi, særindi og svo framvegis og svo framvegis.

Örlítið snarl ef magatetrið er tómt, það er vont að erfiða við að sofna með gaulandi garnir.

Svo er líka hægt að gera eins og ég, ég er nefnilega svo sniðug. Á meðan ég bylti mér og brölti, bölva í sand og ösku, naga sængina og sparka í dýnuna þá er ég að útdeila smsum með góðum ráðum við andvöku.

Biribimm biribamm.