Færslur frá 15. apríl 2007

Hvar er þessi andi?

Sunnudagur, 15. apríl 2007

Ég sit hérna við tölvudrusluna og bíð eftir að andinn komi yfir mig. Þessi andi sem á að detta yfir mig og hrinda yfir mig brjáluðum og góðum hugmyndum af einhverju til að skrifa um. En þessi andi lætur ekki sjá sig.

Ég kveikti öll ljósin áðan og á fullt af kertum líka. Ég varð oggulítið hrædd við að bíða eftir þessum anda. Það er jú frekar óhugnanlegt að hugsa til að þess að það komi einhver andi röltandi hingað með kassa, eða veski eða hvað hann hefur til að bera allar þessar hugmyndir.

Hræddust er ég um að hann sé með buddu fulla af klinki. Hann gæti kastað nokkrum krónum í hausinn á mér eða honum gæti dottið í hug að sturta úr buddunni á mig. Það er vont að fá klink í sig.

Hvað ætli þessi andi heiti annars? Zemakorsapóklarón? Gæti verið, þó hefur hann ekki látið sjá sig þrátt fyrir að ég hafi hvíslað þetta nafn hátt og skýrt. Hvaða andi mundi ekki koma hlaupandi við músarlegt og skjálfraddað hvísl???

Annars held ég að það komi enginn andi, bara fattarinn fór í gangi. Auðvitað þorir enginn andi hingað inn, ég er með andafælu danglandi í loftinu!!

Biribimm biribamm