Færslur júlímánaðar 2007

Lítil framtíðarsýn.

Laugardagur, 28. júlí 2007

Hér á landi er er lítil framtíðarsýn í fjármálum. Ef ráðandi bjánar hefðu á einhverjum tímapunkti fyrir x mörgum árum haft framtíðarsýn t.d. varðandi samgöngur, þá værum við ekki í þessari stöðu í dag. Ráðandi bjánar hugsa og hafa hugsað í gegnum tíðina “við tímum ekki að henda fullt af peningum í almenningssamgöngur, reynum að lækka kostnaðinn”. Væri ekki nærri lagi að hugsa “við ætlum að henda fullt af peningum í almenningssamgöngur í dag, gera þær þannig að fólk vilji og geti notað þær og eftir x mörg ár verður komið jafnvægi á fjármálin”? Efast um að nokkrum dytti í hug að stofna fyrirtæki, bjóða fram lélega þjónustu og vera svo steinhissa á öllu þessu tapi. Gripi svo í þokkabót til þess ráðs að minnka þjónustuna og vera svo enn meira hissa á enn meiri halla. Hvar er vitið í þessu?

Ég missti af því að sjá Beyonce detta, allt lok lok og læs. ÆÆ.

Biribimm biribamm.

Messulegur bragur á hátíðum þessa lands.

Laugardagur, 21. júlí 2007

Ég er oft að spá í þjóðlegri hátíð hér á landi. Hér er engin eiginleg hátíð, þ.e.a.s. eitthvað virkilega skemmtilegt um að vera. 17 júní röltir fólk um með blöðrur og krakka með klessulituð smetti og sykurklístur í bland. Allt fjörið er uppi á palli og við stöndum og gónum á það. Eins og í messu. Síðan er farið á fyllerí.

Hvað er þjóðlegt við þetta? Er hægt að kalla hóp fólks með blöðrur, kerrur og hunda í göngutúr skrúðgöngu? Er einhver hátíð til hér á landi sem hægt er með sanni að segja “svona er okkar þjóð”?

Nema við séum bara menningarlega snobbuð þjóð, eða svo viljum við kannski halda að við séum.
Menningarnótt, gónum á menningarlega viðburði og förum svo á fyllerí.

Sumir bæir jú hafa eitthvað í höndunum sem þeir standa fyrir, t.d. Hafnarfjörður, víkíngahátíð. Svo er farið á fyllerí. Man ekki eftir fleiru.

Kannski er okkar þjóðlega einkenni, það sem íslendingar geta með sanni sagt “svona erum við”, er að fara á fyllerí.

Biribimm biribamm

Jiminneinastihvaðvarégaðspá!

Miðvikudagur, 18. júlí 2007

Ég er með aukagest í nokkra daga, gáran hennar ömmu. Mér hefur þótt nóg um að vera með 3 stykki fugla arkandi á mér. Hvað þá að einn af þeim er soldið matfrekur, ef ég gef honum ekki af matnum mínum þá bara fær hann sér sæti (á matnum) og fær sér að éta. Í dag var ég með 4 gauka arkandi á mér. Ömmufugl vildi í fyrstu ekki koma til mín, sat bara uppi á ramma og snyrti fjaðrir. Það var ekki fyrr en ég tók þá slæmu ákvörðun að fá mér hrökkbrauð með osti. Ömmufugl var fljótur að setjast á hrökkið og hóf að tæta það í sig svo ákaft að mynsla þeyttist í allar áttir. Ekki nóg með það, Skortur þurfi auðvitað einnig að setjast á hrökkið mitt og tæta það í sig. Þarna var ég að erfiða við að éta matinn minn með tvo litla gára sem aukaálegg.

Biribimm biribamm

Óheiðarlega heiðarleg.

Sunnudagur, 15. júlí 2007

Mikið var ég óheppin um daginn. Ég pantaði mubludruslur frá rúmfó og fékk alveg óvart aukapakka með. Ég þorði ekki öðru en að vera gasalega heiðarleg og láta vita af þessum óvænta aukapakka. Það versta var að ég hefði vel getað notað þessa mubludruslu, nokkrum sinnum næstum látið verða af því að kaupa akkúrat þetta. Var þetta almáttugur sjálfur að gefa mér drusluna eða var hann að reyna mig??

Þó er þetta ekki ábending um að ég sé heiðarleg, ég bara þori ekki að vera óheiðarleg. Kann ekki að ljúga. Er ekki einhver með námskeið, ljúga, pretta, stela og svíkja 101? Námskeiðið gæti kallast PLAFF - pretta og ljúga aula flott og faglega.

Biribimm biribamm

1/4 frí.

Sunnudagur, 8. júlí 2007

Jæja jæja ég er algjör pæja.
Þá er ég komin í 1/4 sumarfrí. Hélt ég mundi rúlla sumrinu létt upp með því að taka aukavinnu 3x í viku og smá ponsu 2 íslenskuáfanga í fjarnámi. Skítlétt skohhh!!

Ég verð að fá að blóta hressilega og segja mikið assgoti helvíti djösins hafði ég rangt fyrir mér. Þó er sumarstarfið nokk skemmtilegt, fullt af fólki sem ég er búin að kynnast sem mér þykir afskaplega vænt um. Allt annað líf að vinna með fólki sem á við krankleika að stríða heldur en fullfrísku fólki. Hef ekki kynnst öðru eins þakklæti fyrir hið minnsta verk.
Fullfrískt fólk er vanþakklátt og leiðinlegt. Þó er bróðurparturinn að vísu hlutlaus og þakklátar hræður inni á milli.
Jibbíjei gaman gaman og klapp klapp.

Ég er búin að sitja stíf í öxlum og baki í allan dag að krota glósur. Oft hef ég steypt mér í djúpu laugina og haft það af en þarna stökk ég í sjóinn og er að erfða við að synda undan þorskdruslum sem narta í hælana.

Ekki nóg með það, heldur skrapp sólin í frí um leið og ég. Fúlt.

Heyrði því fleygt að við úldinni prumpulykt væri gott að éta kúmen. Ég ætla að gera tilraun og skella í mig ca teskeið með morgunmatnum. Kemur fyrir að aumingja ég sé úldin sem karlmaður, því konur prumpa að sjálfögðu ekki og hvað þá fúlt.

Í gær var ég með svakalega sæta krullu. Verð hér með að setja uppskriftina að henni:
Góður hárþvottur og þurrka vel
Nota Shockwaves Tame it! sléttukrem
Blása hárið vel og vandlega með sérstökum stút fyrir sléttingu
Í restina notaði ég svo sléttujárn, kramdi lokkinn ansi duglega og sléttaði vel úr honum.
Úr þessu kom þessi assgoti sæta krulla.

Biribimm biribamm

Tilgangslaus sumarfærsla

Sunnudagur, 1. júlí 2007

Æ hve ég get verið fyndin þegar ég er bara ein með sjálfri mér. Stundum grenja ég úr hlátri því ég er svo fyndin. Er geggjað hnyttin og með svörin á reiðum höndum. Yfirleitt þó bara eftir á, roðna og stama oftast á meðan samtali stendur. Gengst þó ekki við því að ég sé undarleg, feimið og innrænt fólk er þvílíkt fyndið og skemmtilegt innan um sjálft sig.

Nú í sumar verð ég að hamast við að vinna svo ég geti klárað e-ð af þessari starfsþjálfun sem ég neyðist til að stunda. Þó hafði ég ætlað mér að geyma og geyma þessa starfsþjálfun þangað til ég væri orðin aðeins stærri. Þó kannski ekki vitlaust að drífa þetta af núna, ég hækkaði um heila 2 cm við það að klæðast hvítum sloppi. Svo og yngist ég einnig um 5 - 10 ár. Sem er þó kannski ekkert svo gott miðað við aldur.
Þannig að í haust þegar skólinn hefst aftur þá verð ég örugglega 165 á hæð og 18 ára.

Biribimm biribamm