Færslur septembermánaðar 2007

Vasapeningur.

Sunnudagur, 30. september 2007

Nú er dótlan orðin alveg nógu gömul til að fá vasapening. Þó ekki vasapening til að eyða í hvað sem er heldur datt mér í hug að hún fengi nammipening fyrir komandi laugardag hvern og einn mánuð.

Í gær lét ég hana því hafa 500 krónur, sem átti að vera nammipeningur fyrir þann dag og næstu 4 laugardaga. Ég sagði henni að taka ábyrgð á peningnum, hún yrði að passa hann sjálf og ef hún mundu eyða í vitleysu þá fengi hún ekkert nammi næstu laugardaga.

Ekkert mál segir daman, voða ánægð að vera treyst fyrir heilum 500 krónum í vasann til eigin neyslu. Hún var greinilega sérlega ánægð að fá þetta mikinn pening því ég er ein af þessum vondu mömmum sem gefa bara skitnar 100 kr í nammipening, aðrir fá sko 300 kall eða meira!

Dótlan kom síðan voða hróðug úr sjoppunni með innkaupapoka fullan af nammi að andvirði 1000 kr. Hún setti allt undir, “vil fá nammi fyrir einn rauðann takk”

Biribimm biribamm.

Fátækt eða hagsýni?

Mánudagur, 17. september 2007

Eftir nokkuð langan skóladag skellti ég mér í sæti eitt í stóra gula limmanum og klessti smettinu upp við rúðuna. Hann burraði af stað með látum eins og venja er, það er ekki ofsögum sagt að ég sé komin með limmavöðva, þ.e. vöðvar sem þróast við að halda líkamanum á sama stað á ferð í þessu farartæki. Ég sá eldri mann á göngu og hélt hann á einni kramdri áldós. Hver er aðalástæða þess að fólk hirði upp eina dós í safnið? Er þetta mikil fátækt eða er það hagsýni að hirða upp dósir fyrir 10 krónur í vasann? Iðulega sé ég fólk ganga um að tína upp dósir.

Nú vonda kella, sem er í þessu tilviki Pétur Blöndal, vill auðvitað meina að það sé engin fátækt hér á landi. Er þetta ekki bara græðgi?
Ágæta kellan sem er vanalega með augu og eyru opin hefur séð og heyrt furðulegar beiðnir frá stofnanafólki sem á að vera afar einföld lausn úr fátækt, en eru í raun bara fáheyrð vitleysa. Það er að sjálfsögðu mjög einfalt að segja fólki bara að “skipta um vinnu og fá hærri laun si svona” en er það svo einfalt í framkvæmd? Bara si svona jám jámm.

Ég er búin að komast að því hvert hámark letinnar sé. Það er að nenna þessu ekki. Spurning hvort þetta væri titlað sem að “nýta u.þ.b. 2 mín á x margra mínútna fresti” eða “eyða öllum þessum mínútufjölda í teygjur”. Ég nota þetta sjálf á meðan ég er að læra og nördast í tölvunni í tilgangslausu vafri. Ég stili þetta á 15 mín, 5 teygjur. Þar með fell ég ekki í þennan hármarsletisflokk.

Biribimm biribamm.

Skylda samfélagsins.

Miðvikudagur, 12. september 2007

Í mér búa tvær kerlingar. Önnur er kaldbrjósta og getur verið ansi grimm en hin er alveg ágæt. Þessar kerlingar rífast oft. Arga og garga, skella hurðum, reyta hár sitt og sparka í veggi á meðan ég sit kannski blásaklaus fyrir framan tölvu eða blaðskellandi fólk. Ég er assgoti fegin að þessar kerlingar birtast ekki útávið, enda væri ég þá hárlaus og með brotnar tær.

Rifrildi þeirra er í þetta sinn, hver sé skylda samfélagsins gangvart þegnum, þ.e. hversu langt samfélagið eigi að ganga til að aðstoða þegna sína. Dæmi; skuldir manneskju langt umfram tekjur.

Grimma kerlingin vill meina að sú manneskja eigi að redda sér út úr þessu, hætta þessu væli og finna leiðir. Sú ágæta ber í bætiflákann og vill meina að þó að hver einstaklingur sé ábyrgur sinna gerða, þá er sá möguleiki fyrir hendi að manneskjan þurfi nokkra putta að láni.

Sú grimma lemur í borðið og segir að það sé bara andskotann ekkert nóg af puttum til fyrir alla sem skulda langt umfram tekjur, það ætti að þurfa í mesta lagi vísifingurssveiflu til að leggja áheyrslu á mikilvæg þess að standa á eigin fótum. Séu þeir úr deigi, er þá ekki bara málið að henda þeim í ofninn?

Ágæta kerlan bendir á að brauðfætur séu ágætir sófafætur. Fallhætta er mikil, það er vont að ganga á þeim og ekki séns á að hlaupa.

Kerlingarnar komast loks að niðurstöðu. Hvers vegna nær þetta að ganga svona langt, þ.e. að skuldir manneskju nái að verða langt umfram tekjur? Er möguleikinn fyrir hendi að ábyrgðin sé ekki síst að hluta til samfélagsins? Getum við bara veifað vísifingri og sagt, abbabb, aumingja þú en þér var nær að [bankinn lánaði þér]? Úr vísifingri standa gufustrókar með skilaboðin: Hættu að reykja, borðaðu kartöflur með smjöri í ár og þetta reddast!

Case closed.

Biribimm biribamm.