Færslur frá 12. september 2007

Skylda samfélagsins.

Miðvikudagur, 12. september 2007

Í mér búa tvær kerlingar. Önnur er kaldbrjósta og getur verið ansi grimm en hin er alveg ágæt. Þessar kerlingar rífast oft. Arga og garga, skella hurðum, reyta hár sitt og sparka í veggi á meðan ég sit kannski blásaklaus fyrir framan tölvu eða blaðskellandi fólk. Ég er assgoti fegin að þessar kerlingar birtast ekki útávið, enda væri ég þá hárlaus og með brotnar tær.

Rifrildi þeirra er í þetta sinn, hver sé skylda samfélagsins gangvart þegnum, þ.e. hversu langt samfélagið eigi að ganga til að aðstoða þegna sína. Dæmi; skuldir manneskju langt umfram tekjur.

Grimma kerlingin vill meina að sú manneskja eigi að redda sér út úr þessu, hætta þessu væli og finna leiðir. Sú ágæta ber í bætiflákann og vill meina að þó að hver einstaklingur sé ábyrgur sinna gerða, þá er sá möguleiki fyrir hendi að manneskjan þurfi nokkra putta að láni.

Sú grimma lemur í borðið og segir að það sé bara andskotann ekkert nóg af puttum til fyrir alla sem skulda langt umfram tekjur, það ætti að þurfa í mesta lagi vísifingurssveiflu til að leggja áheyrslu á mikilvæg þess að standa á eigin fótum. Séu þeir úr deigi, er þá ekki bara málið að henda þeim í ofninn?

Ágæta kerlan bendir á að brauðfætur séu ágætir sófafætur. Fallhætta er mikil, það er vont að ganga á þeim og ekki séns á að hlaupa.

Kerlingarnar komast loks að niðurstöðu. Hvers vegna nær þetta að ganga svona langt, þ.e. að skuldir manneskju nái að verða langt umfram tekjur? Er möguleikinn fyrir hendi að ábyrgðin sé ekki síst að hluta til samfélagsins? Getum við bara veifað vísifingri og sagt, abbabb, aumingja þú en þér var nær að [bankinn lánaði þér]? Úr vísifingri standa gufustrókar með skilaboðin: Hættu að reykja, borðaðu kartöflur með smjöri í ár og þetta reddast!

Case closed.

Biribimm biribamm.