Færslur desembermánaðar 2007

Klárir kettir

Þriðjudagur, 25. desember 2007

Mamma á ansi klára ketti. Í gær gáfu þeir nokkra pakka sem þeir pökkuðu víst alveg sjálfir inn. Ekkert smá duglegir. Ég sá kött í sjónvarpinu um daginn sem kunni að borða með gaffli og prjónum, það er víst hægt að kenna þessum ansdskotum allt. Það furðulega var að þegar þeir áttu að opna sína pakka hlupu þeir bara í burtu með skottið á milli fóta. Held að mamma hafi ofgert greyjunum í þessu pakkaveseni.

Loksins tókst þó að fá þá til að handleika pakkana sína. Þeir þefuðu af pappírnum, ýttu honum fram og til baka og fundu sér svo eitthvað annað að gera.

Held að mamma þurfi fyrir næstu jól að kenna þeim að opna pakka líka.

Biribimm biribamm.

Gleðileg jól

Mánudagur, 24. desember 2007

Þetta hafðist. Hvít jól. Þetta er svo sem ekkert óalgengt, spáð rauðum jólum og svo ákveður snjórinn að falla á aðfangadag. Jafnvel ein jólin var útlit fyrir rauð jól en snjórinn ákvað að taka þátt fyrir klukkan sex. Svona á þetta að vera, smá spenna í þessu öllu saman!

Ég óska ykkur gleðilegra jóla, ofáts og góðra gjafa. Hafið það gott á meltunni og ég vona að þið étið ekki það mikið að ykkur líði illa. Síðast en ekki síst óska ég ykkur velgengi við að hlaupa hátíðarmatinn af ykkur á komandi ári.

Biribimm biribamm.

Stresshátíð

Föstudagur, 21. desember 2007

Jæja jæja, enn og aftur mætir hátíð ofurstressaðs og pirraðs fólks. Þó er ég ekki viss um að svo margir þrífi pleisið í tætlur eins og gert var hér áður fyrr. Örugglega eru þó enn til fólk þarna úti sem skrúbbar veggi, bónar gólf og pressar jólanáttfötin.

Mér finnst ég ekki hafa keypt svo margar og dýrar gjafir, ég fór sparlega með aurinn og fækkaði gjöfum. Svo það er ekki ástæðan fyrir léttu veski, ég er viss um að það sé gat á því sem ekki er sjáanlegt mannlegum augum. Hugsanlega er visst jólagat sem borast í veskið um leið og desember gengur í garð. Í mínu tilfelli mun það kallast jólaogafmælisgat. Dótlan á afmæli í desember sem og tveir af sonum systur minnar. Þar að auki var minnsta sys (ekki yngsta þó) að gjóta nú um daginn.

Dótlan er þó skynsamari en ég. Hún sagði eftir allt afmælisstússið og lætin “ég sagði að við hefðum átt að halda þetta í október!”

Biribimm biribamm.

“Léleg” sjón

Fimmtudagur, 13. desember 2007

Ég varð þess var eins og aðrir sem voru vakandi í nótt að það var frekar vont veður úti. Ég lá andvaka, þar sem ég þarf ekki að vakna snemma þá sef ég aaaaaðeins of lengi og vaki aaaaaðeins of lengi, og hlustaði á lætin. Mest var ég hissa á að plastdraslið hérna fyrir utan væri ekki farið veg allrar veraldar.

Litla sys hringd og spurði hvort ég hefði getað sofið fyrir látum í nótt, lætin hjá henni voru slík því þakið var að rifna af og lausadrals fauk til og frá. Ég sagðist ekki hafa fundið fyrir neinu, ekkert fauk hjá mér, “og þó, bíddu aðeins, ég ætla að tékka hvort borðið mitt sé enn hérna fyrir utan”. Þá fyrst tók ég eftir, þrátt fyrir að hafa gengið þar framhjá fyrr um kvöldið, að borðið mitt var horfið.

Biribimm biribamm.

Ég sá draug.

Mánudagur, 10. desember 2007

Ég átti erfitt með að sofna, bylti mér fram og til baka og barði sængina duglega. Ákvað að nenna fram að spræna, þá mögulega gæti ég sofnað. Ég skrölti framúr og er ég ætla að rölta fram sé ég hreyfingu! Ég hendist aftur inn í rúm og hendi sænginni yfir hausinn. Ég hef aldrei á minni ævi svo ég muni eftir séð draug. Ekki var þetta innbrotsþjófur því ég hefði ekki komist hjá því að heyra bröltið í honum.

Hjartað í mér hamaðist og reyndi eftir bestu getu að komast út. Ég ætlaði mér sko ekki að fara fram aftur á vit draugsins, ég hef engann áhuga á að hitta draug! Ég lá lengi í bælinu með hjartað á hundraði. Smám saman róaðist ég niður, ákvað bara að gleyma þessu og fara að sofa.

Það var hægara sagt en gert, mér var ennþá mál. Ég settist upp og hugsaði aðeins um þetta. Ákvað að ná aftur í mína elskulegu rökhugsun og díla við hana. Fyrir það fyrsta hafði ég aldrei séð draug og er ekki viss um að draugar séu til. Ég ákvað því að gera tilraun númer tvö með það hugfast að ég vissi ekki til þess að draugar væri til.

Ég rölti rólega að dyrunum og kíkti fram hægt og rólega. Skimaði í kringum mig og kom auga á drauginn. Þetta var glampi af espressó könnu.

Biribimm biribamm.