Ég vil vera memm

Hvar sem ég les þá sé ég umræðu um prumpið með lyktinni. Fréttaveitur, blogg og umræðuvefir hamast við að tyggja sömu slummuna. Það er þessi slumma sem plokkuð er upp úr gangstéttinni og etin. Svo sem ekkert verra að endurvinna slummurnar, þannig séð.

Fyrir nokkrum önnum, í ísl 102, var mér skylt að rita rökfærsluritgerð. Ég var ekki nógu spennt fyrir efnisvalinu og fékk því að pota minni eigin hugmynd að. Efnið var um hvort íslendingar létu allt yfir sig ganga, ég páraði nokkrar síður um efnið og fékk toppeinkun fyrir. Það er nefnilega ekki svo erfitt að færa rök fyrir því að íslendingar hummi allt af sér, brosi í gegnum gremjuna og segja að það sé allt bara alltílæi. En þegar mótmæli eiga sér stað eiga þau helst að eiga sér stað á öðrum tíma. T.d. mótmæli vörubílstjóra um verslunarmannahelgi. Mótmælin áttu rétt á sér, bara ekki á þessum tíma þar sem þau trufluðu svo marga.

Svo virðist sem þegar íslendingar standa á lappir, orga hananú og berja hnefanum í vegginn, sveifla svo brákuðum hnúfunum meðan þeir kreista fram réttmætar kröfur úr koki, þá er það ekki rétti tíminn. Mótmælin nú eru sem sagt réttmæt en á röngum tíma og röngum stað. Þegar fólk mótmælti prumpinu þá voru það réttmæt mótmæli en staður og tími voru óviðeigandi og móðgandi.

Það er að sjálfsögðu bara kjánaskapur að gera svona, fólkið hefði auðvitað bara átt að arka í bílageymsluna við Smáralindina og öskra þar. Þá hefðu mótmælin verið réttmæt, vel tímasett (þ.e.a.s. langt frá þeim sem mótmælunum var beint að) og ekki nokkur sála fengi illt í móðgið.

Biribimm biribamm.Lokað er fyrir ummæli.