Bölvun

Um síðustu helgi valhoppaði ég í heimsókn til systur minnar. Þar var bróðurmágur minn að fagna sínu tuttugasta og fimmta ári með lambalæri á borðum og stafla af bjórkössum. Ég slafraði í mig gómsætu lambinu og drekkti mér í nokkrum ölverum. Þegar ég hugðist halda heim á leið fann ég að vöðvarnir í hálsinum voru að stífna upp. Vona að þetta mundi ganga hratt yfir en svo varð ekki, ég var komin með bölvaðan hálsríg. Ekki nóg með það heldur var ég að erfiða við að læra undir próf. Sveiattan, það var ekki hægt að húka yfir bókardruslu og glósustafla, enda gekk mér sem verst á þessu prófi. Lítið við því að gera.

Í gær arkaði ég í heimsókn til systu og ákvað að fá mér eitt rauðvínsglas með þeim skötuhjúunum. Glösin urðu nokkur, öllari og vindill og í restina var ég að sulla í rósavíni. Ég komst heil á húfi heim seint og síðar meir en afleiðingin var af svipuðum meiði og helgina  áður, nema nú geng ég um eins og áttrætt gamalmenni með staf. Mjóbakið er einhverra hluta að mótmæla og er fast klemmt saman.

Systir mín sver af sér að hafa lagt á  mig bölvun, þá dettur mér einna helst í hug hann mágur minn. Er þess fullviss að í höttunum hans felist ýmislegt gruggugt. Báða dagana kvaddi hann með því að skella á sig veglegum hatt og glotta eins og bjáni. Því meir sem ég hugsa um það því sannfærðari er ég um að í höttunum séu engar hvítar krúslilega kanínur heldur “far vel” bölvun sem eltir uppi vöðva hist og hér í kroppnum. Nema það hafi verið glottið?

Biribimm biribamm.Lokað er fyrir ummæli.