Færslur febrúarmánaðar 2008

Notalegt að vakna við

Mánudagur, 11. febrúar 2008

Briiiiiiiiiiimmmbruuuuuum - di di di di - brriiiiiiiiiiimbruuum briiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiim - di di di di - bruuuuuuuuuuummbriiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiimm

Hver sem getur giskað á hvað það er sem vakti mig fær verðlaun.

Biribimm biribamm.

Verkóvit

Mánudagur, 4. febrúar 2008

Borðstofustólarnir á þessu heimili voru af tveim sortum. Önnur var plaststólar með baki sem poppaði upp ef einhver vogaði sér að halla sér aftur en hin gamlir stólar frá ömmu og annar þeirra með brotinni setu. Í gær hlammaði ég mér á annan ömmustólinn og skildi ekkert í því af hverju hann ruggaði svona mikið. Núhh, þar sem ég er einstaklega bráðgáfuð ung kona með nokkuð gott verkvit á hvernig hlutir á heimilinu funkera þá kíkti ég á stólfótinn. Sá var að gliðna í sundur við rótina og datt af við smá juð.

Þannig fór það að ég þurfti loksins að kreista veskið fyrir nokkra stóla. Fagrir hvítir stólar með mjög svo ekta gervileðrissetu urðu fyrir valinu. Fyrst þurfti ég að sjálfsögðu að henda þeim saman, enda vön kona við þess konar tilfæringar. Eins og ég sagði eitt sinn þegar minnst var á hve laglega ég handlék skrúfjárnið, “Yeeees, I’m always screewing something”.

Jæja, ég dröslaði draslinu úr kassanum og horfði á þetta furðuverk. Mér til mikillar furðu var járnplata með skrúfunum sem átti víst að vera einhversstaðar. Ég góndi á þetta og emjaði “Ó mæ god, þetta er eitthvað flókið!” Verkvitið í þetta sinn var á við nýfráskilda eiginkonu heimilisathafnamanns. Ég rýndi í teikninguna og sá að þessi plata átti að fara undir skrúfuna. Ó! Þegar sú var komin á sinn stað hófst vinnan við að skrúfa þetta saman. Ég hef aldrei lent í öðru eins, hálftíma með einn stól. Mæ gad sko. Við næsta stól hélt ég áfram fyrri iðju, þ.e.a.s. að pota sexkanntinum inn í raufina og skrúfa ca 60°, upp með sexinn og oní aftur og skrúfa 60° og dásama þennan litla sæta hnúð sem var efst á sexanum, ússí gússí.

Já eða hann var rosa krúttlegur þangað til ég fattaði að litli sæti hnúðurinn væri í raun og veru verkfæri og korteri seinna var ég búin að henda upp restinni af stólunum.

Biribimm biribamm.

Ef ekkert er umræðuefnið…

Föstudagur, 1. febrúar 2008

…..þá talar maður bara um veðrið. Hér á landi er veðrið frekar fjölbreytilegt. Væri erfitt að brjóta ísinn í umræðum með því að segja alltaf “jæja það er heitt í dag”. Ég þarf nú samt ekki að brjóta neinn ís og nenni ekki að brjóta heilann til að finna eitthað skemmtilegra að tala um en veðrið.

Á miðvikudaginn var ég ansi bjartsýn. Ég skellti mér í létta úlpu, gleymdi vettlingum og gekk á vegg þegar ég arkaði út. Og þó, ég ætti frekar að segja að það hafi veggur gengið fyrir framan mig því ekki fór hann neitt. Skjálfandi úr kulda beið ég eftir strætó og skjálfandi úr kulda sat ég í strætó. Vanalega þegar það er semí kalt út þá kynda bílstjórar ansi vel. Nema þessa dagana, þeir eru svo hot þessa dagana að þeir eru jafnvel með lúgurnar opnar svo það blæs inn skítagaldri golu.

Ég var í svo langri eyðu þennan dag að ég skrapp heim og lofaði sjálfri mér því að í þessari ferð yrði ég kappklædd. Rétt áður en ég fór kíkti ég út og með smettið í stóru glotti klæddi ég mig í sömu léttu úlpuna nema ég mundi eftir vettlingunum. Það var nefnilega sól og blíða úti. Ég komst að því þegar ég fór út að glugginn er langt frá því að vera góður mælikvarði á veður. Það hef ég að vísu alltaf vitað, en eins og sönnum íslendingi sæmir þá er bjartsýnin ofar skynsemi.

Mig grunaði að þegar ég mundi klæða mig úr skónum þá dyttu tærnar af. Ég hefði ekki vitað það með vissu ef ég hefði ekki káfað aðeins á þeim til að leita af mér allan grun, þær voru enn á sínum stað.

Þó mun ég skjálfa úr kulda á eftir þegar ég arka af stað þrátt fyrir tvenna sokka, vettlinga, húfu og úlpu. Ég skelf nú þegar bara við tilhugsunina um mínus átta til tíu gráður.

Biribimm biribamm