Færslur frá 1. febrúar 2008

Ef ekkert er umræðuefnið…

Föstudagur, 1. febrúar 2008

…..þá talar maður bara um veðrið. Hér á landi er veðrið frekar fjölbreytilegt. Væri erfitt að brjóta ísinn í umræðum með því að segja alltaf “jæja það er heitt í dag”. Ég þarf nú samt ekki að brjóta neinn ís og nenni ekki að brjóta heilann til að finna eitthað skemmtilegra að tala um en veðrið.

Á miðvikudaginn var ég ansi bjartsýn. Ég skellti mér í létta úlpu, gleymdi vettlingum og gekk á vegg þegar ég arkaði út. Og þó, ég ætti frekar að segja að það hafi veggur gengið fyrir framan mig því ekki fór hann neitt. Skjálfandi úr kulda beið ég eftir strætó og skjálfandi úr kulda sat ég í strætó. Vanalega þegar það er semí kalt út þá kynda bílstjórar ansi vel. Nema þessa dagana, þeir eru svo hot þessa dagana að þeir eru jafnvel með lúgurnar opnar svo það blæs inn skítagaldri golu.

Ég var í svo langri eyðu þennan dag að ég skrapp heim og lofaði sjálfri mér því að í þessari ferð yrði ég kappklædd. Rétt áður en ég fór kíkti ég út og með smettið í stóru glotti klæddi ég mig í sömu léttu úlpuna nema ég mundi eftir vettlingunum. Það var nefnilega sól og blíða úti. Ég komst að því þegar ég fór út að glugginn er langt frá því að vera góður mælikvarði á veður. Það hef ég að vísu alltaf vitað, en eins og sönnum íslendingi sæmir þá er bjartsýnin ofar skynsemi.

Mig grunaði að þegar ég mundi klæða mig úr skónum þá dyttu tærnar af. Ég hefði ekki vitað það með vissu ef ég hefði ekki káfað aðeins á þeim til að leita af mér allan grun, þær voru enn á sínum stað.

Þó mun ég skjálfa úr kulda á eftir þegar ég arka af stað þrátt fyrir tvenna sokka, vettlinga, húfu og úlpu. Ég skelf nú þegar bara við tilhugsunina um mínus átta til tíu gráður.

Biribimm biribamm