Færslur aprílmánaðar 2008

Bölvun

Sunnudagur, 27. apríl 2008

Um síðustu helgi valhoppaði ég í heimsókn til systur minnar. Þar var bróðurmágur minn að fagna sínu tuttugasta og fimmta ári með lambalæri á borðum og stafla af bjórkössum. Ég slafraði í mig gómsætu lambinu og drekkti mér í nokkrum ölverum. Þegar ég hugðist halda heim á leið fann ég að vöðvarnir í hálsinum voru að stífna upp. Vona að þetta mundi ganga hratt yfir en svo varð ekki, ég var komin með bölvaðan hálsríg. Ekki nóg með það heldur var ég að erfiða við að læra undir próf. Sveiattan, það var ekki hægt að húka yfir bókardruslu og glósustafla, enda gekk mér sem verst á þessu prófi. Lítið við því að gera.

Í gær arkaði ég í heimsókn til systu og ákvað að fá mér eitt rauðvínsglas með þeim skötuhjúunum. Glösin urðu nokkur, öllari og vindill og í restina var ég að sulla í rósavíni. Ég komst heil á húfi heim seint og síðar meir en afleiðingin var af svipuðum meiði og helgina  áður, nema nú geng ég um eins og áttrætt gamalmenni með staf. Mjóbakið er einhverra hluta að mótmæla og er fast klemmt saman.

Systir mín sver af sér að hafa lagt á  mig bölvun, þá dettur mér einna helst í hug hann mágur minn. Er þess fullviss að í höttunum hans felist ýmislegt gruggugt. Báða dagana kvaddi hann með því að skella á sig veglegum hatt og glotta eins og bjáni. Því meir sem ég hugsa um það því sannfærðari er ég um að í höttunum séu engar hvítar krúslilega kanínur heldur “far vel” bölvun sem eltir uppi vöðva hist og hér í kroppnum. Nema það hafi verið glottið?

Biribimm biribamm.

Brandarar

Þriðjudagur, 22. apríl 2008

Enn og aftur er ég komin með skrifstíflu. Nema það sé nokkuð málið, það bara gerist ekkert spennandi, ekki einu sinni köngulóardrusla búin að angra mig. Því hendi ég bara inn nokkrum bröndurum í stað þess að reyna eitthvað.

Megrun fyrir karlmenn

Maður hringir í fyrirtæki og pantar hjá þeim “misstu 5 kg á 5 dögum” pakkann.
Daginn eftir er barið á dyrnar hjá honum og fyrir utan stendur íturvaxin 19 ára snót í engu nema Nike hlaupaskóm. Um hálsinn á henni hangir skilti sem á stendur “Ef þú nærð mér, þá máttu eiga mig“.
Hann lætur ekki segja sér það tvisvar og stekkur á eftir henni. Eftir nokkra kílómetra er hann orðinn móður og másandi og gefst upp. Sama stúlkan mætir á þröskuldinn hjá honum næstu 4 dagana og það sama gerist í hvert skipti. Á fimmta degi vigtar félaginn sig, og viti menn, hann hefur misst 5 kg.
Hæstánægður með árangurinn hringir maðurinn aftur í fyrirtækið og pantar hjá þeim
misstu 10kg á 5 dögum” pakkann.
Næsta dag er bankað á dyrnar og fyrir utan stendur einhver sú fallegasta og kynþokkafyllsta kona sem hann hefur á ævinni séð. Hún er eingöngu klædd í Reebok hlaupaskó. Um hálsinn á henni hangir skilti sem á stendur “Ef þú nærð mér, þá máttu eiga mig“.
Eins og elding tekur hann á rás á eftir skvísunni. Hún er auðvitað í fantaformi og þó hann reyni sitt besta nær hann henni ekki. Næstu fjóra daga heldur þessi rútína áfram og hann kemst smám saman í betra form. Á fimmta degi vigtar hann sig og sér til ómældrar gleði hefur hann misst 10 kg.

Hann ákveður að leggja allt í sölurnar og hringir og pantar “misstu 25 kg á 7 dögum” pakkann. “Ertu alveg viss?”spyr sölumaðurinn ” Þetta er erfiðasta prógrammið okkar”
“Ekki spurning” svarar félaginn, “mér hefur ekki liðið svona vel í mörg ár”.

Daginn eftir er barið á dyrnar, og þegar hann opnar stendur risastór, helmassaður karlmaður fyrir utan í engu nema bleikum hlaupaskóm.
Um hálsinn á honum hangir skilti sem á stendur “Ef ég næ þér, er rassinn á þér MINN!”

Félaginn missti 32 kg í þeirri viku.

__________________________

Maður í loftbelg sá að hann var að missa hæð. Hann tók eftir konu á jörðinni, lækkaði flugið aðeins meira og kallaði til hennar: „Afsakið, geturðu hjálpað mé? Ég lofaði að hitta vin minn fyrir klukkutíma, en veit ekki hvar ég er.“

Konan svaraði: „Þú ert í loftbelg sem svífur í 10 metra hæð, milli 40. og 41. Norðlægrar breiddargráðu og milli 59. og 60. Vestlægrar lengdargráðu.“

„Þú hlýtur að vinna við tölvur“, sagði loftbelgsmaðurinn.

„Það geri ég“, svaraði konan. „Hvernig vissirðu það?“

„Nú“, svaraði maðurinn, „allt sem þú sagðir mér er tæknilega rétt, en ég hef ekki hugmynd um hvaða gagn er af þeim upplýsingum, og reyndar er ég enn villtur. Satt að segja þá hefur ekki verið mikil hjálp frá þér. Ef eitthvað er þá hefurðu helst tafið ferð mína.“

„Konan svaraði: Þú hlýtur að vinna við stjórnun.“

„Já“, sagði maðurinn. „En hvernig vissir þú það?“

„Nú“, sagði konan, „þú vissir hvorki hvar þú ert né hvert þú ert að fara. Eintómt loft hefur komið þér þangað upp sem þú ert. Þú gafst loforð sem þú hefur ekki hugmynd um hvernig á að efna og þú ætlast til þess að fólk fyrir neðan þig leysi þín vandamál. Reyndar ertu í sömu stöðu og þegar við hittumst, en nú er það einhvern veginn mín sök.„

Biribimm biribamm

Sumarið að ganga í garð

Laugardagur, 12. apríl 2008

Ég sat hérna inni og starði út um gluggann. Það var hlýtt og notalegt, sólin skein skært og ég naut þess í tætlur að vera í innisólbaði. Þá var kominn tími til að arka af stað og sjá dótluna spila fótbolta. Ég ákvað, sem betur fer, að taka með mér teppi minnug þess að síðast þegar ég starði á dótluna keppa þá var ég að krókna úr kulda.

Derhúfu var skellt á kollinn og peysan rennd upp að nefi, úlpan að sjálfsögðu með í för (ég er afar mikil kuldaskræfa) og fínu bleiku vettlingarnir. Jú kuldinn beit aðeins, sólin var bara til skrauts. Afskaplega var ég fegin að hafa tekið teppið með mér.

Þó rændi dótlan teppinu af mér þegar á áfangastað var komið, henni var nefnilega svo kalt. Ég lét það eftir henni þó hún væri á hlaupum fram og til baka á eftir tuðrunni en ég stóð eins og illa gerður hlutur að krókna úr kulda. Hún var þó ekki með teppið á sér á hlaupum, það hefði örugglega orðið henni til trafalla.

Eftir leikinn örkuðum við mæðgurnar heim, fengum okkur heitt kakó og ristað brauð í hlýrri sólinni.

Sumarið er allavegana komið inni!

Biribimm biribamm

Öldruð framhaldsskólamær

Fimmtudagur, 3. apríl 2008

Ég segi það satt! Ég, kornung manneskjan, er alltof gömul til að taka þátt í því sem er í gangi innan og utan veggja skólans. Ég skrapp nú í skóla þegar ég var 16 og mátaði hann í eitt ár. Síðan ákvað ég að skreppa suður í Hafnarfjörð til að vinna í fiski, ægilega spennandi.

Þá var gaman í skóla. Fara á böll, hafði leyfi til að taka þátt í söngvakeppni og gettu betur, pískraði í tímum eða krotaði á miða. Í dag er ég of gömul til að taka þátt í söngvakeppni og gettu betur (þó má ég vera í gettu betur hóp bara til gamans - þ.e.a.s. ef mér finnst ægilega gaman að læra), það þykir örugglega ekki hip og kúl að skreppa á ball með ormum sem eru 10-12 árum yngri og ég þoli ekki pískur í tímum! Ég óska þess stundum að ég gæti hoppað 10 ár aftur í tímann, bara svo ég geti verið með í skólastuðinu. En það er víst að maður fer bara í hina áttina, bætir við árum og það með léttum leik.

Annars var ég búin að hugsa upp 3-4 skemmtilegar bloggfærslur, bara man ekkert um hvað ég ætlaði að skrifa.

Biribimm biribamm