Færslur ágústmánaðar 2008

Klaufasmit

Þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Ég og Lísa vinkona skruppum norður um helgina, ég hafði mjög gaman af klaufaskapnum í henni. Hún rak sig í hér og þar, steig á vatnsdall á gólfinu oftar en einu sinni og til að toppa allt þá ákvað hún að strippa þegar við fórum að sofa eitt kvöldið. Byrjaði að dansa rólega, renndi niður buxnaklaufinni - og steig á safafernu. Fernan sprakk og safinn sprautaðist út um allt fellihýsið - og í þokkabót var þetta ferskjusafi! Þvílík og önnur eins ólykt af þessum andskota, en ekki var bragði neitt betra. Ég dundaði mér við það alla leiðina heim að hlæja að henni og hennar klaufaskap, voða gaman hjá mér.

Ég hefði átt að hlæja aðeins minna því mér hefndist hláturinn þegar heim var komið. Ég byrjaði á því að missa naglalakksflösku úr höndunum og að sjálfsögðu splundraðist sú flaska. Buxur og inniskór eru líklegast ruslamatur, verra var að nýji kjólinn sem hékk innst á sturtuhenginu - nánar tiltekið fyrir innan tvær flíkur, varð fyrir barðinu á nokkrum slettum. Hinar flíkurnar sluppu, merkilegt nokk. Ég skellti buxunum í vélina til að kanna hvort hægt væri að bjarga þeim með snöggum þvotti en gleymdi að setja rörið í affallið, vatnið úr þvottavélinni sturtaðist á gólfið og allt varð á floti.

Jæja, ég tölti um en fann fuglakorn á hælnum, ekki svo óvön því. Reif dralsið frá og hélt mínu tölti áfram. Nema hvað, inniskórinn var fljótandi í blóði - þetta var víst glerbrot sem ég var með í fætinum. Ég lét þetta svo sem ekki á mig fá, skellti nokkrum handklæðum í vélina, þvoði mér um hendur og þurrkaði síðan með látum með hreinu handklæði, fékk ansi duglega rispu á hendina við þann verknað. Það hafði víst límst glerbrot á handklæðið.

Lísa er ekki lengur fyndin klaufi

Biribimm biribamm