Færslur septembermánaðar 2008

Dirty sys.

Laugardagur, 13. september 2008

Hún systir mín elskuleg hélt upp á þrítugsafmælið sitt um daginn. Flestallir hlýddu skipun fröken Söndru og komu með grímu á smettinu, aðrir voru bara púkalegir. Við sátum að sumbli fram eftir en allir ráfuðu heim á nokkuð kristilegum tíma. Fyrir þetta merka tilefni þá lét ég skera slatta af lufsunum og litaði þær dökkbrúnar. Dótlan var hreint ekki ánægð með þetta meikóver, sagði að ég liti út eins og norn.

Ég fékk staðfestingu á því seinna meir. Um daginn var ég að arka heim úr vinnu. Feðgar tveir voru úti að hjóla, sá litli hefur verið held ég 3ja ára eða eitthvað svoleiðis. Hann var orðinn vel þreyttur á þessu hjóleríi. Ég arkaði áfram og nálgaðist hjólandi barnið. Ég kom nær og nær, greyi barnið var orðið örmagna eftir túrinn. Ég var næstum komin uppað barninu, var að spá í hvort ég ætti að hvetja ræfilinn, segja eitthvað eins og “ætlar þú að láta mig gangandi manneskjuna vinna þig! Þú sem ert á svona fínu hjóli”. En ég hafi ekki færi á að segja neitt, krakkinn leit upp og hóf að orga hástöfum. “Pabbi!!!! PABBI!!!! grenjaði hann og skellti í fimmta gír. Af og til leit hann aftur fyrir sig til að vera viss um að ég væri í hæfilegri fjarlægð.

Ekki enn sannfærð? Daginn eftir þegar ég hoppaði í mesta sakleysi inn í strætóskýli þá var þar amma með barnabarn sitt. Amman tók í hönd barnsins og dróg það nær sér og hélt fast í hendi þess!

Biribimm biribamm.

Langþráðar túttur, enda glápt!
picture-093.jpg

Við systurnar á góðri stundu
picture-073.jpg

Mannasiðir

Þriðjudagur, 2. september 2008

Allt er erfðum háð, jafnvel hvort við getum rúllað tungunni eður ei. Og mannasiðir? Jú er ekki ágætt að benda á erfiðir.
Ég var á bæjarflakki með móður minni um daginn. Við keyrðum um bæinn þverann og endilangann og eftir nokkra tíma var ég farin að skjálfa af hungri.

Ég bað mömmu um að stoppa í Skalla, þar fæst ægilega góð pylsa. Þ.e. djúpsteikt ostapylsa með papriku og hvítlaukssósu - algjört nammi.

Við mæðgurnar vorum að ræða málin þegar ég áttaði mig á því að ég var með kúfullan munn og spýtti matarleifum um allan bílinn (næs, ég veit). Ég hugsaði með mér “Gvöð, hvurslas dónaskapur er þetta, hvaðan næli ég mér í þessa mannaósiði!

Þegar hugsuninni sleppi lít ég á mömmu, sú var með stappfullann munninn og matarleifar slettust út um allt.

Biribimm biribamm.