Færslur októbermánaðar 2008

Kreppudraumur

Sunnudagur, 19. október 2008

Ég skrapp inn í Hafnarfjörð um helgina til vinkonu minnar. Við nestuðum okkur með nammi, snakki, ostum og bjór. Vegalengdin frá Mos í Hafnarfjörð er svo ægileg að ég ákvað að gista þar, allavegana fyrir strætórúntandi fólk. Við komum okkur vel fyrir í sófanum með allt þetta gúmmelaði innan handar og skelltum einni hrollvekju í tækið. Myndin var svo ægileg að ég þurfti að kreista teppið alveg einu sinni! Önnur hrollvekja var spiluð og ég held að ég hafi eitthvað kreist teppið, ekki alveg viss samt.

Jæja, þessar myndir sigu eitthvað á sálina ásamt rokinu í þjóðfélaginu og úr varð hressilegur draumur. Ég man satt að segja ekki mikið en það var fullt af fólki statt á einhverjum stað og einhver var að drepa, eða að reyna að drepa, allt þetta fólk. Jú jú, fullt af fólki dó en ég slapp víst. Þetta var jú minn draumur.

Fyrir rest áttaði ég mig á því að við vorum stödd í banka og þegar ég var að ranka við mér af þessum draumi þá ómaði Gleðibankinn í hausnum á mér.

Biribimm biribamm.