Pool var cool til að byrja með

Við mæðgurnar tókum upp á því einn daginn að prófa pool. Þetta fannst okkur gaman og ákváðum við því að stunda þetta reglulega, það er gott að eiga skemmtilega stund með yndinu. Verst er að það er enginn pool staður hér í nágrenninu, ekki svo ég viti af. Þar fyrir utan er ágætt að fara bara inn í keiluhöll, þar sem engir snillingar láta sjá sig og ég get verið glöð með að hitta sjaldnast ofan í holurnar.

Ég og yndið mitt erum búnar að fara nokkrum sinnum og ég yfirleitt rúlað í þessu sporti. Að sjálfsögðu, ég er stærri og tæpum tveim áratugum eldri! Ég sló þó þann varnagla á í upphafi að líklegast yrði dótlan betri en ég áður en liði á löngu, krakkar eru yfirleitt fljótir að læra.

Síðustu tvö skipti sem við höfum farið hefur dúllan mín ráðið borðinu, teljandi á fingrum annarar handar þær kúlur sem ákveða að fara ofan í hjá mér og litla gellan hreinsar borðið. Það væri svo sem allt í góðu og ég bara ánægð með það, nema um daginn þegar bévítans krakkaskrípið horfði á mig samúðar augum og sagði í fullri einlægni: “Æ mamma, ég vorkenni þér svo!! Þú hittir bara ekki neitt!”

Biribimm biribamm.Lokað er fyrir ummæli.