Færslur júlímánaðar 2009

Humarhátíð

Fimmtudagur, 16. júlí 2009

Humarhátíð er viðburður sem mig hefur alltaf langað að taka þátt í. Því ákvað ég þetta árið, þrátt fyrir spá um rigningu, að skella mér. Fyrst ég er nú komin á bíl þá varð ég að nota kerruna almennilega. Ég, dótlan og móðir góð brunuðum af stað austur á Hornafjörð. Leiðin er ansi flott og ég hafði miklar fyrirætlanir um að skoða hina ýmsu staði á leiðinin heim. Ingólfshöfði, Skógarfoss, Seljalandsfoss, Vatnajökull og fleira og fleira.

Eftir 6 tíma akstur hentum ég og mamma upp nýja fína tjaldinu mínu og við mægðurnar röltum af stað í bæinn að tjútta. Ég sá ekki þennan humar sem átti að vera á hverju götuhorni. En það var bara föstudagur, hann var örugglega í kryddlegi eða að bíða þess að komast í súpu.

Við þrjár fórum því bara aftur á tjaldstæðið og spiluðum fótboolta. Mamma var skömmuð fyrir þessi læti, óþekktaranginn! Á laugardeginum vöknuðum við í hífandi roki en við létum sko ekki deigan síga! Við röltum um allt að leita að þessum humar en hann lét ekki sjá sig. Hann var jú að sjálfsögðu fastagestur á kaffihúsum og veitingastöðum - en greinilega of dannaður til að vera til sölu á götuhorni eins og hver önnur mella. Við rákumst þó á pulsuhumar, þ.e.a.s. grillaðan humar í pulsubrauði með hvítlaukssósu. Sem var ágætt, humar er humar.

Seint og síðar meir, eftir langa leit að humri, skriðum við inn í nýja, fína og blauta tjaldið mitt. Enn og aftur vöknuðum við í hífandi roki og tókum þá góðu ákvörðun að fara bara heim. Við hlóðum elskulegann bílinn minn, dustuðum af lófunum en sáum okkur til mikillar skelfingar að helvítis dekkið var flatt! Við mamma hljótum að hafa litið hálf kjánalega út að þykjast vera að skipta um dekk því að okkur arkaði maður, reif af okkur græjurnar og skipti um dekk.

Varadekkið var komið á en það var hálf loftlaust. Nú við hljótum enn og aftur að hafa litið hálf kjánalega út standandi við hálf loftlaust dekk því að okkur arkaði annar maður og sagði að við þyrftum að pumpa í dekkið! Aldrei hefði mér dottið það í hug! Mæ mæ.

Loks komumst við af stað frá þessum humarbæ sem var ekki  með humar á hverju götuhorni. Við vorum ekki búnar að keyra lengi þegar ég heyrði ægileg óhljóð frá bílnum. Mér sýndist að mér væri vaxinn pungur en þá var þetta bara hjartað, svo mikið brá mér. Undir bílnum var gnauðryðgað drasl sem lítið annað var hægt að gera við en að rífa undan og henda.

Við komumst heilar á húfi heim, með pínu humar í æðum og pung.

Biribimm biribamm.