Færslur septembermánaðar 2009

Herþjálfun

Mánudagur, 7. september 2009

Ég og Tinnz, lilla sys, hófum í vor ferðalag okkar til heilbrigðis og fegurðar. Ég keypti mér þessa æðislegu boot camp bók og við hófum strangar æfingar eftir bókinni. Fyrstu vikurnar voru helvítis helvíti, jafnvel þó að við byrjuðum á allra léttasta prógramminu. Við þraukuðum samt og héldum áfram þrátt fyrir blóð, svita og tár.

Vikurnar liðu og við urðum sterkari og sterkari, það fór að móta fyrir vöðvum og vorum við ansi stoltar af hve sterkar við vorum orðnar. Við hlógum að því að aðeins nokkrum vikum áður vorum við grenjandi yfir æfingum sem voru orðnar ansi léttar.

Við orðnar þetta sterkar og æðislegar vorum alveg á því að við myndum meika það flott á alvöru hernámskeiði. Við skráðum okkur og biðum spenntar eftir þeim degi sem við áttum að mæta kl 6 að morgni í fjörið. Fyrsti dagurinn var í dag, ekki var auðvelt að rífa sig framúr um hánótt en það hafðist. Vöðvastæltar og spengilegar, kraftmiklar og duglegar, flottar og fíraðar byrjuðum við að skokka með montglott á smettinu - við kunnum þetta allt saman sko! Það fóru að renna á okkur tvær grímur eftir 10 mínútur og korteri seinna voru þær orðnar fjórar - og nokkuð grænar held ég líka.

Tinnz var næstum búin að æla á sig alla og ég var grenjandi innra með mér. Við fórum heim aumar og lúnar, kraftlitlar og sprungnar, vælandi og skjálfandi - montglottið gufaði upp en bíður þess eins að birtast aftur eftir nokkrar vikur þegar við verðum vöðvastæltar og spengilegar, kraftmiklar og duglegar, flottar og fíraðar

Biribimm biribamm.