Færslur októbermánaðar 2009

Búúúúíð

Laugardagur, 17. október 2009

Síðasti dagur 6 vikna boot camp námskeiðisins rann upp. Ég átti erfitt með að sofna, en það var svo sem ekkert óvanalegt. Sérstaklega á mánudögum svaf ég í um 2 tíma á nóttu eftir óreglu helgarinnar. Mér finnst nefnilega ææææægilega gott að sofa út en það hefur sínar hliðarverkanir.

Síðasti dagurinn rann upp og ég var ekkert lítið spennt eins og alltaf. Eyddi alltaf hálfum degi fyrir púlið í að hlakka til að mæta spengileg með stýrur í augun. Við systurnar erum að sjálfsögðu orðnar vöðvastæltar og spengilegar, kraftmiklar og duglegar, flottar og fíraðar núna!! Ég er orðin að því sem félagsfræðkennarinn sagði að væri hræðilegt við konur “bara harðar!! ekkert mjúkt að grípa í lengur!!” Ég er samt ekki búin að fremja versta glæpinn, það er að líta út eins og herðatré. Held ég? Ég má ekki við því,er með aðeins of lítinn haus. Þá mundi ég bara líta út eins og einhver hefði skellt sítrónu á herðatré og talið það vera góða og gilda manneskju.

Jæja, ég vaknaði eins og venjulega við vekjarann á símanum - nema það var ekki vekjarinn!! Það var símanúmer á skjánum! Mér til mikillar undrunar, það á ekki að vera símanúmer?!? Mér varð litið á klukkuna og hún var fimm mínútur í átta! Hægt og bítandi áttaði ég mig á því að ég hafði sofið yfir mig. Vantrú helltist yfir mig og síðan reiði. Ég beið og beið, í fullri vantrú yfir að klukkan væri átta, eftir að klukkan mundi slá fimm. Ég beið eftir að tíminn mundi skríða til baka - þetta átti ekki að gerast!!

Næsta korterið beið ég eftir að klukkan yrði bara fimm og allt yrði eðlilegt. Það gerðist bara ekki neitt, dótlan fór í skólann og ég sat og starði á klukkuna - reyndi að mæna á hana að verða fimm. Skyndilega fékk ég þá snilldarhugmynd að ég gæti mætt kl 18 í staðin - sem var svo ekkert mál. Í stað þess að vera á bömmer í 2 vikur eyddi ég deginum í að hlakka til að mæta.

Boot camp er ægilegt puð, það er ekki svitnað þarna heldur farið í sturtu - og mér hlakkar ekkert lítið til að mæta á nýtt námskeið um hánótt næsta mánudag.

Biribimm biribamm.

Pool var cool til að byrja með

Miðvikudagur, 14. október 2009

Við mæðgurnar tókum upp á því einn daginn að prófa pool. Þetta fannst okkur gaman og ákváðum við því að stunda þetta reglulega, það er gott að eiga skemmtilega stund með yndinu. Verst er að það er enginn pool staður hér í nágrenninu, ekki svo ég viti af. Þar fyrir utan er ágætt að fara bara inn í keiluhöll, þar sem engir snillingar láta sjá sig og ég get verið glöð með að hitta sjaldnast ofan í holurnar.

Ég og yndið mitt erum búnar að fara nokkrum sinnum og ég yfirleitt rúlað í þessu sporti. Að sjálfsögðu, ég er stærri og tæpum tveim áratugum eldri! Ég sló þó þann varnagla á í upphafi að líklegast yrði dótlan betri en ég áður en liði á löngu, krakkar eru yfirleitt fljótir að læra.

Síðustu tvö skipti sem við höfum farið hefur dúllan mín ráðið borðinu, teljandi á fingrum annarar handar þær kúlur sem ákveða að fara ofan í hjá mér og litla gellan hreinsar borðið. Það væri svo sem allt í góðu og ég bara ánægð með það, nema um daginn þegar bévítans krakkaskrípið horfði á mig samúðar augum og sagði í fullri einlægni: “Æ mamma, ég vorkenni þér svo!! Þú hittir bara ekki neitt!”

Biribimm biribamm.