Færslur desembermánaðar 2009

Útskrifuð :)

Miðvikudagur, 23. desember 2009

Jæja já og jamm og jæja. þar kom loksins að því að ég stóð rígmontin uppi á sviði að taka á móti staðfestingu þess að skólagöngu minni væri hér með lokið - í bili. Ég sá að vísu fyrir mér að á þessum tímapunkti væri ég tvíhleyp, en þarna stóð ég með prófskírteini nýorðin þrítug og ennþá einhleyp. Í huga mér skutust upp myndir af fólki sem ég áleit að vonlaust væri að færa það í fjötra en það fólk í dag er gift og búið að hrúga niður krökkum. Þegar allt kemur til alls, þá er það ég sem er vonlaus. Útlit er fyrir að litli bróðir minn sé hræðilega vonlaus og ef hann dregur einhverja drusluna upp að altarinu áður en ég verð búin að máta það þá fær hann fyrir ferðina.

Ég komst skammlaust í gegnum athöfnina og merkilegt nokk - það voru ekki matarslettur í hólf og gólf eftir eldamennsku mína heima hjá mömmu. Nema daginn eftir voru bláar leifar bollunar upp um alla veggi. Svoleiðis hlutir gerast þegar botninum á skálinni er náð og gestirnir farnir að rása og röfla. Ekki voru allir alltaf glaðir og reifir, eins og gengur og gerist þegar áfengi er haft um hönd, en þá reif ég bara upp fimleikaborða og fór að leika listir. Það tók samt enginn eftir mér, hugmyndir mínar um að ég væri stjarna kvöldsins voru ekki alveg á rökum reistar.

Á heildina litið var ég samt virkilega ánægð með kvöldið og glöð og reif yfir að alllt mitt uppáhaldsfólk hafi mætt - nema pabbi, sem leit við og smitaði mig af magakveisu. Hann er dottin af “fav”listanum - asni!!
Takk kærlega fyrir mig kæru vinir og ættingjar fyrir súper dúper mergjað kvöld.

Biribimm biribamm

Hér er ný mynd af okkur systrum, hin er frá þrítugsafmæli stóru sys og nú þessi af mínu. Nú erum við allar í sama lit.

0741.JPG

Hafragrautur

Fimmtudagur, 10. desember 2009

Mmmm ég er svo mikill sælkeri. T.d. finnst mér “helgarmorgunmatur” ægilega góður. Um tíma þá át ég allan “helgarmorgunmatinn” og þurfti svo að kaupa nýtt svo krakkinn mundi ekki fatta neitt. Sérstaklega á þetta við um Happa töfra eða kókó más. Nammi nammi namm bara.

Hafragrautur fannst mér alltaf ægilega vondur. Bara hræðilega! Objakk bara! Ég ætlaði mér eitt sinn að venja dótluna á að éta hann. Ég mallaði þennan fína graut og hóf svo að mata orminn. Ég skildi ekkert í þessu, hún vildi ekki þennan fína graut sem ég mallaði. Ég stakk skeiðinni sjálf upp í mig til að sýna hvað þetta væri æðislegt, ég lét á engu bera (held ég) að ég hafi kúgast og kúgast yfir þessu ógeði. Samt vildi hún ekkert þennan æðislega haffa.

Mig vantaði góðan og léttan mat fyrir boot camp og ákvað ég að það skyldi verða haffi. Ég var nýbúin að uppgötva agave sýróp og það dótarí gat örugglega bjargað haffanum. Ég mallaði grautinn og sprautaði smá (slatta) af sýrópi út á og þetta gekk þrautarlaust fyrir sig. Smám saman fór ég að skipta haffanum út fyrir venjulegan morgunmat, þetta er nefnilega bara allt í lagi matur skomm.

Annað var það eina helgina þegar ég ætlaði að fá mér kókó más. Ég starði á pakkann og síðan í áttina að haffanum. Án efasemdarradda og togstreitu var ég farin að malla mér haffa.

Biribimm biribamm

3-6 desember

Sunnudagur, 6. desember 2009

Fimmtudagur
Þá er komið að þessu árlega - halda afmæli. Desember er hræðilegur mánuður, dótlan á afmæli og 3 systrasynir líka. Einnig er ég að fara að útskrifast og halda upp á þrítugsafmælið og mér fannst sniðugast að slá því saman í eina veislu. Svo ekki sé minnst á jólin sjálf. Það á eftir að bergmála á kortareikningnum korter í jól. Með síðustu krónunum heyrist jarm en við algjöran fjárskort mun einungis verða spegilmynd af mér með óttaslegin augu hvíslandi - “halló??”

Föstudagur
Stuðið er þegar byrjað, ég með fingurinn á lofti rappandi “taktu til taktu til þarna ormur” ásamt því að skrifa lista yfir það sem ég þarf í allar veislurnar, draslið sem ég þarf að huga að fyrir útskrift, innkaupalista og ský af hreinsiefnum elta mig. Hárið var litað því ég ætla að vera fín í útskriftinni. Hárið átti að verða rauttish en það lítur út fyrir að ég hafi dottað undir rauðvínsbelju með opinn kranann.

Laugardagur
Þessa dagana er ég einstaklega klaufaleg í eldhúsinu. Hvað sem ég reyni að gera endar út um allt eldhús, ég þarf að skúra loft og gólf eftir aðfarirnar. Núna var ég að baka ljótustu Bettí krokker djöful sem sést hefur hér nær og fjær, meira af súkkulaði var á mér en á kökunni. Ég bað dótluna að segja krökkunum að það hefði einhver óvart keyrt yfir hana. Eða nærri lagi að segja að mamma sín hafi keyrt yfir hana miðað við hvernig ég keyrði í dag. Ég var á leið í Elkó skeifu en tók ranga beygju. Skyndilega var ég á leiðinni að versla mér á KFC, sem ég ætlaði mér alls ekki. Eftir að hafa keyrt á og yfir nokkra kanta þá var ég allt í einu komin í Elkó, þetta var víst stysta leið sem ég gat farið. Unglingapartý í dag og ég verð skammt undan - en ekki of nálægt - svo ég verði ekki gráhærð fyrir aldur fram. Þó held ég að þrjú grá hár hafi læðst fram þegar ég kom heim.

Hérna er ljóta kakan

img_5427.JPG
Sunnudagur
Dótlan 12 ára - ó mæ gad. Hvernig getur barnið orðið 12 ára á 5 árum???

Biribimm biribamm

Snjór snjór snjór snjór snjóóóóór!!!

Þriðjudagur, 1. desember 2009

Nú langar mig bara út að leika! Ég þarf að læra á snjóbretti, það er held ég ýkt kúl að kunna á svoleiðis græju.

Annars geri ég mér bara að góðu skíðin mín. Þó vantar reyndar skíðastafina og ég kann ekkert á skíði.

Brósi ætlar að blása upp tuðrur og við systkynin ætlum að bruna niður brekkur á þeim á ógnarhraða! Það er varla hægt að finna sér skemmtilegri leið heldur en tuðrur. Svo er annað mál hvort það verði eitthvað úr því, það varð ekki síðasta vetur.

Ég og lilla sys ætlum að skreppa á Esjuna með rassaþotur í farteskinu - það verður stuð að bruna þar niður!! Svo fremi sem við fáum ekki stein á rófubeinið, það væri værra.

Ég hugsa samt  að ég klippi bara ruslapoka og renni mér niður þessa fimm metra brekku hér heima, það er öruggast fyrir þrítug gamalmenni.

Biribimm biribamm