Færslur nóvembermánaðar 2010

Prófaþreytu boozt

Laugardagur, 27. nóvember 2010

Æi prófalestur! Þá er setið lon og don lungann úr deginum. Orkan þverneitar að hanga með manni, heilinn fer að flauta lagstúf og rasskinarnar eru orðnar flatar og ljótar. Þá er oft lítið annað að gera en að éta og éta til að halda uppi orkunni. Það er ekki bara það að það sé lýjandi að sitja og læra, heldur tekur heilinn til sín ansi mikið af orku. Ég er allavegana sísvöng þegar ég er mikið að nota þessa elsku.

Eitt ráð er að éta nammi, bounty er t.d. mjög gott. Ég sé bonty í hillingum. Mmmmm bounty! Ég kann að baka bounty köku. Hún er góð. Kannski ég leggi í eina?

Annars held ég að það sé betra að eta og drekka fæðu sem dvelur lengur við orkugjöf í líkamanum heldur en bounty.. nammi.

Var að malla saman orkuboozt, sem er meira að segja merkilega bragðgott

Orkuboozt ala Sonja

1 frosinn spínatkubbur
2 cm engiferbútur
2-3 gulrætur
Trönuberjasafi eftir smekk

Fleygist í blandara, blandað með látum og drukkið með bestu lyst.

0011.JPG
Spínat
Spínat er ríkt af orkugefandi vítamínum eins og járni, B vítamínum, C og E.

Gulrætur
Luteolin, plöntuhollefni í gulrótum, er sagt hjálpa til við virkni heilans

Engifer
Er sagt bæta blóðrásina, sem er ekki vanþörf á þegar heilinn er annars vegar. Hann tekur til sín mikið blóð.

Trönuberjasafi
pakkaður af C vítamíni til að nýta allt þetta járn í spínatinu

Skerí dörtí vonn

Fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Jæja..

Þrátt fyrir góða viðleitni við að forðast þennan einn þá mætti hann samt á miðnætti, ótrúlega hress og galvaskur og svolítið uppáþrengjandi. Ég henti mér í gólfið berjandi hnefum, sparkandi og organdi. Hann þráaðist samt við að fara, sagði að hann “þyrfti að koma inn í mig”. Ég var ekki lengi að hleypa honum að, haldandi að þetta yrði eitthvað fjörugt.

EN neeeiiii!! Hann bætti bara einu ári við, helvískur. Djöfull! En ég hef 9 ár eða 468 vikur eða 3285 daga eða 78840 klst til að vera dörtí, ég get lifað með því. Það er ýkt kúl að vera dörtí somþíng.

Annars hef ég enga aldurskomplexa, þvert á móti. Ég hlæ, og slæ mér á lær, af fólki á mínum aldri, OG sérstaklega yngra, sem talar um að það sé gamalt. Ýkt fyndið, því ég er enn kornung kona. Bara með 7 hrukkur á enninu, fimm hrukkaennið hrukkur og tvær reiði hrukkur og bara einu sinni verið kölluð eldri kona (í merkingunni, ég hef aldrei verið með eldri konu en hvað eru 2 ár á milli vina?).

En jöst in keis! Ef ég fyllist sorg og sút og yfir mig hellast aldurskomplexar, þá ætla ég að vera full annað kvöld.

Biribimm biribamm

Boozt ala Sonja

Mánudagur, 8. nóvember 2010

Venjulega eftir smá skróp í ræktinni, þá fær maður heljarinnar harpðsperrur. Ég er allavegana þannig, að eftir smá pásu geng ég um eins og nírætt gigtveikt gamalmenni. Ég þarf að undirbúa mig andlega undir að arka upp stiga og að teygja mig eftir hlut - sérstaklega ef ég þarf að beygja mig! Ég hef ræstingar að atvinnu og það er bara þjáning.

Fyrir nokkru síðan mallaði ég saman boozt eftir fyrsta ræktartímann eftir skróp og fékk litlar harðsperrur. Ég skrópaði aftur og mallaði sama booztið og enn og aftur var ég að upplifa litlar harðsperrur. Ég finn til, ekki efast um það. En ég get gengið eðlilega og teygt mig, beygt mig, reigt mig og unnið léttilega. Hvað er dásamlegra en að finna harðsperrur án þess að vera nánast farlama?

Harðsperrur fáum við eftir álag á vöðvann. Skemmdir verða á vöðvafrumum sársaukinn kemur fram þegar bólgusvörun verður í vöðvanum og viðgerð hefst.

Boozt ala Sonja

Ca 500 ml (fyrir tvo venjulega, ég fæ mér frekar stórann skammt)

4 hvítkálsblöð
2 gulrætur (eða 1 stór)
1 epli/pera
1 tsk glútamín
300 ml vatn

Mixað í blandara. Mjög bragðgott, verður enn mýkra bragð ef notuð er pera í stað eplis.

Hvítkál
Í hvítkáli er hið margrómaða eða óþarfa prótínið glútamín. Sumir segja að ræktarfólk þurfi það, aðrir að það hafi engin áhrif. Ein rannsókn sýndi að það hefði góð áhrif á bata hjá skurðsjúklingum. Því er sá möguleiki á að það hjálpi til við uppbyggingu á skemmdum vefjum.
Hvítkál er talið hafa bólgueyðandi áhrif, andoxandi áhrif og hjálpar til við vöðvauppbyggingu.

Gulrætur
Eiga þátt í að lagfæra miniháttar sár og meiðsli. Bætir vöðvaheilsu, hefur bólgueyðandi áhrif sem og hefur góð áhrif á blóðsykursjafnvægi.

Epli
Quercetin í eplum hafa bólgueyðandi áhrif.

Biribimm biribamm