Færslur desembermánaðar 2010

Ég gat loksins!

Fimmtudagur, 30. desember 2010

Þegar ég var krakki langaði  mig að stunda íþróttir. Það var bara einn hængur á - eða nei, þeir voru tveir! Ég var í fyrsta lagi algjör klaufi.

Í fótbolta voru fæturnir fyrirstaða, þeir voru bara fyrir mér. Þeir þvældust þarna fram og til baka, felldu mig og létu boltann oftar en einu sinni fara í vitlaust mark.

Í handbolta voru það hendurnar sem þvældust fyrir. Boltinn fór aldrei í þá átt sem ég kastaði, oft bara datt hann úr höndunum á mér eða ég bara datt. Oftast á æfingum var ég að kasta bolta í vegg, það var sko refsingin fyrir klaufaskap.

Í körfu - tja, ég er 162 cm á hæð. Fyrir utan það að ég varð rangeygð þegar kom að körfunni.

En hlaup og sund? Ég gat sprett hratt! Ójá! En ef ég þurfti að hlaupa meira en 100 metra lág ég í keng útaf hlaupasting. Svo ekki sé minnst á að við mikið álag fékk ég krampa í magann og ældi stundum með því. Ég gat ekki einu sini leikið mér mikið í sundi, þá kom ekkert fallegt út úr mér.

Draumar mínir um að æfa íþróttir enduðu því bara í blindgötu, nema ef skyldi kalla sígarettulyftingar og brjálaðan dans með fullt af áfengi í maganum íþróttir.

Með kvíðahnút í maganum og vissu um endalausa krampa og gubb í lítratali, ákvað ég að skrá mig á herþjálfunarnámskeið -  með Tinnu mína sem andlegan stuðning. Þetta er eitthvað sem heillaði mikið og hefur alltaf gert, ekki lóðalyftingar í drepleiðinlegum tækjasal. Og viti menn - enginn krampi, ekkert gubb! Mér gekk bara nokkuð vel, ég var ekkert að þvælast fyrir sjálfri mér heldur.

Mér er minnistætt öll skiptin sem víðavangshlaup var í skólanum. Ég gat aldrei hlaupið neitt, ég þurfti nánast að skríða meiripartinn af leiðinni. Í dag náði ég á hlaupabrettinu að ganga, skokka, hlaupa og spretta 6,5 km, nánast án þess að blása úr nös. Algjörlega toppurinn á tilverunni þetta árið.

Liggur þá ekki beinast við, á næsta ári, að taka þátt í keppni?

Biribimm biribamm