Happadagur

Eða þannig skomm. Ég hóf daginn á því að kúra aðeins lengur, ég gæti bara keyrt í vinnuna í dag. það var meira en að segja það að koma bílnum af stað. Fyrsta vinnan var að moka þykku lagi af snjó af bílnum og síðan að hreyfa hann. Ég var ekki búin að hreyfa bílinn í nokkra daga og því var smá skafl í kringum hann. Ég spólaði og spólaði, henti mottu aftan við eitt dekkið og tókst að losa bílinn aðeins. Síðan hélt ég bara áfram að spóla, óð og skreið í snjó og henti mottum bakvið öll dekk. Komst ekkert afturábak en ég komst þó loks áfram og af stað - en alltof sein í vinnu.

Þegar í vinnuna var komið fattaði ég að ég hafði gleymt lyklinum af skápnum heima. það var svo sem lítið mál þar sem ég geymi aukalykil í vinnunni, sem ég síðan læsti inni í skáp. Vaktmaðurinn kvað að það væri lítið mál að klippa lásinn og setja nýjan, en hann fann ekki klippurnar.

Ég sagði honum ekki að hafa áhyggjur, ég færi létt með að bruna heim að sækja minn lykil. Ég var búin að hringja í dóttur mína og biðja hana um að vera heima klukkan fjögur. Korter í fjögur fattaði ég að ég gæti það bara ekki neitt, bíllykillinn var læstur inni í skáp. Ég á sem betur fer svo æðislega systur sem nennti að skutlast eftir lyklinum og koma honum til mín.

Þegar svona dagur er er gott að vera með góða tónlist í spilaranum, ekki verra að hafa “neyðardisk” sem kemur þér í gott skap. Fyrr um morgunin þegar ég var að hamast var ég með Killer með Gildrunni, sjaldan hef ég verið jafn æst og fljót að sópa bílinn og drita honum úr skafli (ég hljóp hring eftir hring í kringum bílinn). Á heimleið var It’s just a thougth með CCR og kom það mér í glimrandi gott skap,  ég söng alla leiðina heim.

Biribimm biribammLokað er fyrir ummæli.