Heimatilbúin eplamús

Ef þú kaupir matinn tilbúinn, þá er sykur í honum. Nema kannski í heilsubúðum, en þá er það dýrt.

Ég þurfti á tímabili að útiloka glúkósa og sætuefni og þá gat ég bara borðað hrökkbrauð, brauð, ost, mjólk, hreinar mjólkurvörur, óunnið kjöt og óunnin fisk, grjón og hrein krydd og hreinar kryddblöndur. Sykri er troðið í allt. Ef það er ekki sykur í því er sætuefni. Við viljum ekki finna annað en gott bragð, helst sætt. Við fitjum upp á nefið eins og smákrakkar og ojum yfir einhverju sem við kunnum ekki við, jafnvel við mat sem smakkast ágætlega. Nei, við getum ekki lagt það á aumingja okkur að bragða á mat sem þóknast ekki sætuþörf okkar. Það er ekkert endilega við okkur að sakast, þetta erum við alin upp við. En við getum alveg harkað af okkur og troðið í ginið á okkur einstaka matvælum sem bragðast la la.

En það var ekki alveg það sem ég ætlaði að tala um. Ég ætlaði að hrista fram uppskrift af heimatilbúinni eplamús sem ég var að enda við að henda í frystinn. Ég set alltaf 2 mola af eplamús út á hafragrautinn á morgnanna, ásamt handfylli af bláberjum. Ég kaupi tröllahafra, þeir eru miklu bragðbetri og ekki eins klístraðir. Vissir þú að kílóverðið af tröllahöfrum er helmingi minna en af seríósi?

Aftur að efninu, ég var með 3 stór jónagold epli, afhýdd og kjarnahreinsuð. Ég skar eplin í grófa bita og fleygði þeim í pott ásamt matskeið af kanil (sagður vera ægilega hollur). Ég setti vatn upp að ca hálfri eplahrúgunni, ekki láta fljóta yfir nema þig langi frekar í eldaðan þreyting. Ég leyfði suðunni að koma upp, tók pottinn af hellunni og leyfði þessu að kólna aðeins.

Ég maukaði eplin í matvinnsluvél, alveg eins hægt að nota kartöflustappara eða gaffal (tekur bara lengri tíma og tekur vel á, það er aldrei slæmt). Þegar eplamúsin var orðin alveg köld hóf ég það subbulega starf að setja hana í klakapoka.

Ég stakk trekt ofan í opið á pokanum og notaði kínaprjón til að ýta eplamúsinni ofan í pokann. Ef hún lekur vel ofan í er hún líklegast of þunn. Síðan verður að kreista eplamúsina niður, bara ekki of fast því þá springur pokinn (já ég fékk að reyna það á eigin skinni).

Sykurlaus eplamús smakkast svo bara ægilega vel, það er algjör óþarfi að sæta epli - þau eru alveg nógu sæt fyrir.

Biribimm biribammLokað er fyrir ummæli.