Færslur frá 15. janúar 2012

Að drattast í megun

Sunnudagur, 15. janúar 2012

Síðustu daga er ég búin að lesa ansi marga pistla sem fjalla um þyngdarmissi. Gildir einu í hvaða heilsugrúbbu þú skráir þig, hvaða vefsíðu skoðað er, reglulegir pistar í pósthólfið, umræðan í þjóðfélaginu, martraðir okkar á næturna, brandarar, sjónvarp, útvarp, okkar sýn og hugsun. Það snýst svo margt um að missa kíló, komast í ákveðin föt og viðhafa ákveðið útlit. Mikið púður fer í að tyggja að við séum næstum því feitasta þjóð í heimi, alveg í öðru sæti. Ég er búin að googla nokkra stund og ég get ekki séð að það sé rétt. Sjáið t.d. hér, hér, hér, hér, hér, og hér

En það breytir því ekki að margir íslendingar eru að mörgu leyti óheilbrigðir. Við étum of mikið, við hreyfum okkur lítið, við reykjum, drekkum og dópum svo nokkur dæmi séu nefnd. Feitt fólk eru ekki þau einu sem þurfa að breyta sínum lífstíl. Þess vegna finnst mér ákaflega mikilvægt að hamra á að hugsa um heilsuna fyrst og fremst. Við ættum að hafa heilsuna í forgangi, alltaf.

Þegar þú ferð í megrun ertu ekki að hugsa um heilsuna. Þvert á móti er megrun slæm fyrir andlega og líkamlega heilsu. Þú hugsar um heilsuna með því að marka þína leið hollustu og heilbrigði. Megrun er neikvætt hlaðið orð svo það er komið á bannlista. Þegar einhver  spyr þig hvort þú sért í megrun er ekki amalegt að svara “nei, ég er að hugsa um heilsuna”.

Ég verð samt því miður að valda þér vonbrigðum með því að segja þér að það er ekki til nein ein uppskrift að þinni bestu mögulegu heilsu. Athugaðu að ég er ekki einungis að tala um líkamlega, heldur einnig andlega. T.d. þá þolum við ekki öll sama mat, sum okkar geta leyft sér nammi af og til en aðrir ekki, sum okkar hafa gaman af lyftingum en aðrir göngutúr, sumir hafa líkamlega annmarka og verða að vinna út frá því. En ég tel að það sé nauðsynlegt að prufa flestar æfingar. Stundum er æfingin leiðinleg vegna þess að hún er erfið. Þegar álagið venst þá getur sama æfingin orðið hin skemmtilegasta. Ef ekki þá er bara að snúa sér að öðru.

Sjáðu til þess fyrst að fremst að þú sért vel nærð/ur og vel hreyfð/ur og þér eru allir vegir færir.

Biribimm biribamm