Ávinningur af líkamsrækt

Fyrir um fimm árum var ég andlegt hrúgald. Ég gekk um hnípt með betlaralegan hvolpasvip í augum. Ég óskaði þess iðulega að ég gæti borið með mér gat til að stökkva ofan í við erfiðar félagslegar aðstæður, eins og t.d. ef einhver tók ekki eftir að hafa misst eitthvað og ég þurfti að pikka í bakið á viðkomandi. Með dúndrandi hjarta og þurran munn kallaði ég „heyrðu, halló!“. Ég hljóp til og titrandi  höndin, sem streittist á móti, pikkaði í viðkomandi og undarlega rám og skjálfandi rödd sem virtist koma utan frá sagði „þú misstir þetta.“

Hversdagslegar aðstæður voru erfiðar og margar óyfirstíganlegar. Þá var ég um 50 kg og 160 cm.

Mig langaði svo að vera hraust, vera að hreyfa mig og stunda líkamsrækt. Vandamálið var að mér fannst tæki svo leiðinleg. Ég og systir mín fórum því saman í hóptíma og fundum okkur vel þar. Systir mín hætti en ég hélt áfram. Það var ekkert svo erfitt að mæta ein því ég var farin að þekkja til þarna. Að vísu var erfitt að mæta í aðra opna tíma, ef ég mætti sat ég á dollunni góða stund fyrir tímann með kvíðahnút í maganum.

Smám saman jókst sjálfstraust mitt og kjarkur, ég þorði meira að segja að júhhúa fólk sem missti draslið sitt án þess að taka eftir því.

Ég er hætt í hóptímum og farin að æfa sjálf, ég fann út hvað mér þótti skemmtilegt og hlakkar því yfirleitt til að fara í ræktina. Ég hef ekkert lést, í dag er ég um 60 kg og 162 cm og bara afar sátt við það.

Með tímanum hefur sjálfstraustið aukist enn meira. Ég þori að segja mína skoðun og tjá mig á vissum sviðum, það er auðvelt í vinunni gangvart starfsfólki og yfirmönnum (ég tók meira að segja að mér að vera trúnaðarmaður) en á persónulega sviðinu er ég enn að bæta mig.

Ég finn það að ef ég er ekki dugleg að mæta í ræktina reygir gamla Klisja hálsinn aðeins og kíkir með öðru auganu á hvort það sé tímabært að taka við aftur. Hún er alltaf tilbúin að taka við.

Mér sárnar þess vegna yfirleitt þegar fólk talar eins og ræktin sé afsprengi hins illa. „Allt þetta meidda fólk og veika fólk, þetta er allt í ræktinni“. Tölfræðilega séð efast ég um að fólk sem stundar ræktina sé oftar veikt eða með vöðvabólgur en annað fólk, fólk sem fer í ræktina er bara venjulegt fólk.

Þegar allt kemur til alls þá snúast æfingar því ekki um að grennast og borða brokkolí, heldur til að viðhalda gleði í hjartanu og elífri uppsprettu hláturs.

BæjæbæbæbæbæLokað er fyrir ummæli.