Færslur undir „FæðuLumma“

Hvaða bætiefni skortir þig?

Sunnudagur, 28. október 2012

Ætli það sé eitthvað til í þessu?

552068_10151885677042662_106059264_n.jpg
Biribimm biribamm

Grýta

Laugardagur, 31. mars 2012

Ég átti afgangs rauð- og hvít hrísgrjón og ákvað að henda saman í grýtu. Ég held að þetta sé svipað og pakkagrýta, nema bara hollari.

006.JPG

3 hvítlauksrif
Púrrulaukur
hakk
1 dós heilir tómatar
Hálf rauð paprika, frekar smátt skorin
Afgangs hrísgrjón
Maldon saltflögur
Svartur pipar
Kjúklingakrydd frá Pottagöldrum
Chilliflögur

Ég skar hvítlaukinn á ítalskan máta, þeir berja rifið, taka hýðið af druslunni og saxa hann svo. Við þetta losnar víst um olíur í hvítlauknum.

Ég steikti á pönnu 3 hvítlauksrif og afgangs púrrulauk, síðan skellti ég svínahakki á pönnu og steikti þetta allt saman voða vel.

Í blandarann skellti ég einni dós af heilum tómötum, salti, svörtum pipar, þurrkuðum chilliflögum (er í poka, fæst t.d. í Krónunni) og kjúklingakryddi frá Pottagöldrum og blandaði vel saman. Ég setti með í smástund paprikubitana til að fá bitana aðeins minni.

Þegar hakkið var tilbúð setti ég á pönnuna hrísgrjónin, sem voru soðin fyrir, og brasaði þau í smástund, síðan sósuna og um dl af vatni (má vera að það þurfi meira að minna).

Ég leyfði þessu að malla þangað til þykkt, kryddaði þar til það féll að mínum smekk, skellti þessu á ristað brauð og ost yfir. Það er örugglega mjög gott að nota annars konar ostabita, t.d. fetaost, ljúfling, kastala eða kotasælu, vera með þessu kartöflumús, þunnt sneitt gufusoðið grænmeti eða hvað þér þykir gott.
010.jpg

Biribmm biribamm

Í áttina að hollari mataræði

Mánudagur, 26. mars 2012

Reyndu eftir bestu getu að borða sem hreinastan mat, langflestallur unnin matur inniheldur viðbættan sykur (eða gervisætu eða kornsýróp). Ef þig langar að nota sykur, notaðu þá sykur, en hugleiddu aðeins sykurmagnið sem þú neytir hvern dag með tilbúnum mat. Ég held að það sé aðeins betra að sykra matinn heima heldur en kaupa hann tilbúinn og ofursykraðann, þú veist þá u.þ.b. hvað þú ert að neyta mikils sykurs/sætu. Fínt er að reyna að skipta hvíta sykrinum að einhverju leyti út fyrir hrásykur, hlynsíróp eða hunang. Já eða jafnvel agave eða stevíu, það er bara smekksatriði. Það þarf að venjast svolítið að borða ekki dísætt í öll mál.

Bara lítið dæmi: morgunkorn = sykur, tilbúin samloka =sykur, tilbúnir drykkir = sykur eða sæta, álegg flest = sykur, tilbúnar sósur (t.d. tómatsósa) = sykur/sæta/sýróp, hreinir safar eru yfrleitt “concentrate”, innihaldslýsing þarf ekki að fylgja af því og í því er mögulega sykur eða sæta. Endilega spáðu aðeins í þetta.

Fitu eða fituskertur matur, skiptar skoðanir um það í dag. Nýlega er farið að segja að því næst uppruna sem maturinn er því hollari er hann. Fita var einu sinni djöfullinn en við fitnum og fitnum þrátt fyrir fituskerðingu. Að sjálfsögðu er stórt partur af því mikið unnin matur, en má vera að það sé eitthvað til í hugmyndir um fituskerðingu.  Veldu bara hvað þér þykir best, fita eða fitusnautt, athugaðu samt sykur og sætumagnið í þessu fituskerta.

Gróft brauð er hollt og gott en til að sleppa brauði milli mála er hægt að fá sér:

Ávexti og/eða grænmeti; sneiddu gúrku eða papriku (nú eða bæði), snjóbaunir, gulrætur, spergilkál eða ávexti sem þér þykja góðir. Það er ekkert meira vesen að skera ávexti eða grænmeti heldur en að smyrja brauð eða hrökkbrauð, það er bara blekking.

Grísk jógúrt er þykk og því tilvalin til að gera jógúrt að þínum smekk. Ég hræri oft kaffi saman við og er þá komin með afar góða kaffijógurt. Einnig er hægt að þynna hana með mjólk (eða sleppa því) og henda svo í ávaxta- eða berjabitum eða  blanda í blandara með mjólk og frosnum eða ferskum ávöxtum eða berjum, setja morgunkorn út á eða múslí eða hvað sem þér dettur í hug.
Að öllu jöfnu sneiði ég hjá sýrðum mjólkurvörum vegna þess að svitalyktin af mér verður vond, en ég fæ mér einstaka sinnum.

Hrökkbrauð er fínt sem millimál, skella á þetta grænmeti og próteini.
Uppáhaldið mitt þessa dagana er sykurlaus sulta og kotasæla (St.dalfor sulta)
Dæmi um Próteingjafa: smurostur, kotasæla, kjúklingaskinka og egg
Dæmi um grænmeti: spínat, paprika, agúrka, aspas, tómatur, laukur, grænkál eða aðrar tegundir af salati eða káli

Beef jerky (er bezt í heimi, fæst í kosti) og harðfiskur eru góðir próteingjafar en því miður dýrir, það er ágætt kaupa þetta samt í staðin fyrir nammi. Það er vel þess virði!

Lúka af hnetum/fræjum og þurrkuð trönuberju/rúsínur, hneturnar og fræin verða mýkri og bragðbetri (finnst mér) ef þau liggja í bleyti í 12 tíma fyrir átu.

Þeytinga (boozt), mjólk er ágætis próteingjafi í þeyting ef þú þolir hana

Goji ber eru sögð vera holl, mér finnst þau vond á bragð og lauma ég þeim í þeyting

Avocado á að vera svakalega hollt, mér finnst það vont á bragðið og því lauma ég því í þeyting.

Í staðin fyrir nammi er hægt að fá sér:

Dökkt súkkulaði er alls ekki talið vera slæmt, ekkert athugavert við að bræða það og blanda með rjóma eða íslensku smjöri og henda einhverju dótaríi útí (ber, kókos, hnetur)

Gott sykurlaust hnetusmjör er dásemd til átu, en varasamt því það er afar hitaeiningaríkt. Mér finnst það of þurrt eitt og sér en það er mjög gott t.d. með epli eða banana, á samloku með sykurlausri sultu eða smá klessa á suðusúkkulaði (dásemd).

Í staðin fyrir bounty og snickers eru Hnetu- og kókosstykkin frá Sollu/Himneskri hollustu miklu betri kostur, og jafnvel bragðbetri. Þetta er álíka dýrt, en ég hef heyrt umkvartanir um að þarna sértu að fá minna fyrir peninginn - en hvað með það? Af hverju þarftu meira og stærra?

Biribimm biribamm

Heimatilbúin eplamús

Sunnudagur, 11. mars 2012

Ef þú kaupir matinn tilbúinn, þá er sykur í honum. Nema kannski í heilsubúðum, en þá er það dýrt.

Ég þurfti á tímabili að útiloka glúkósa og sætuefni og þá gat ég bara borðað hrökkbrauð, brauð, ost, mjólk, hreinar mjólkurvörur, óunnið kjöt og óunnin fisk, grjón og hrein krydd og hreinar kryddblöndur. Sykri er troðið í allt. Ef það er ekki sykur í því er sætuefni. Við viljum ekki finna annað en gott bragð, helst sætt. Við fitjum upp á nefið eins og smákrakkar og ojum yfir einhverju sem við kunnum ekki við, jafnvel við mat sem smakkast ágætlega. Nei, við getum ekki lagt það á aumingja okkur að bragða á mat sem þóknast ekki sætuþörf okkar. Það er ekkert endilega við okkur að sakast, þetta erum við alin upp við. En við getum alveg harkað af okkur og troðið í ginið á okkur einstaka matvælum sem bragðast la la.

En það var ekki alveg það sem ég ætlaði að tala um. Ég ætlaði að hrista fram uppskrift af heimatilbúinni eplamús sem ég var að enda við að henda í frystinn. Ég set alltaf 2 mola af eplamús út á hafragrautinn á morgnanna, ásamt handfylli af bláberjum. Ég kaupi tröllahafra, þeir eru miklu bragðbetri og ekki eins klístraðir. Vissir þú að kílóverðið af tröllahöfrum er helmingi minna en af seríósi?

Aftur að efninu, ég var með 3 stór jónagold epli, afhýdd og kjarnahreinsuð. Ég skar eplin í grófa bita og fleygði þeim í pott ásamt matskeið af kanil (sagður vera ægilega hollur). Ég setti vatn upp að ca hálfri eplahrúgunni, ekki láta fljóta yfir nema þig langi frekar í eldaðan þreyting. Ég leyfði suðunni að koma upp, tók pottinn af hellunni og leyfði þessu að kólna aðeins.

Ég maukaði eplin í matvinnsluvél, alveg eins hægt að nota kartöflustappara eða gaffal (tekur bara lengri tíma og tekur vel á, það er aldrei slæmt). Þegar eplamúsin var orðin alveg köld hóf ég það subbulega starf að setja hana í klakapoka.

Ég stakk trekt ofan í opið á pokanum og notaði kínaprjón til að ýta eplamúsinni ofan í pokann. Ef hún lekur vel ofan í er hún líklegast of þunn. Síðan verður að kreista eplamúsina niður, bara ekki of fast því þá springur pokinn (já ég fékk að reyna það á eigin skinni).

Sykurlaus eplamús smakkast svo bara ægilega vel, það er algjör óþarfi að sæta epli - þau eru alveg nógu sæt fyrir.

Biribimm biribamm

Morgunmatur

Laugardagur, 25. febrúar 2012

Hugmyndalaus eins og ég? Sá tími er liðinn!

Biribmm biribamm

Spínatsalat

Sunnudagur, 12. febrúar 2012

Mikið af spínati, lambakjöt (ég var með ofnbakaðar framhryggsneiðar), blaðlaukur og fetaostur - afar gott. Það var ekki einu sinni afgangabragð af lambinu daginn eftir.

Biribimm biribamm

Búst

Laugardagur, 11. febrúar 2012

Frosinn ananas og vatn, þarft ekki meira. Bragðgott og ferskt, en það er að sjálfsögðu ekkert að því að skella í þetta sætuefni af einhverju tagi. Blandarinn minn eyðilagðist og því er ég að nota matvinnsluvél til að útbúa mína bústa, það er bara nokkuð gott að hafa kjötið með.

Í ananas er mikið af mangan og C vítamíni.

Mangan er virkur þáttur í ýmisskonar ensímum, þar með talið ensímum sem stjórna blóðsykri, orkuframleiðslu og skjarlkirtilsstarfsemi. Það er ómissandi við framleiðslu líkamans á andoxunarensíminu SOD (superoxide dismutase) sem hefur jákvæð áhrif á fólk með gigt og langvarandi bólgusjúkdóma. Mangan er mikilvægt fyrir efnaskipti prótíns og fitu, heilbrigði tauga og ónæmiskerfið. Eðlilegur beinvöxtur, myndun brjósks og liðvökva er allt háð nærveru mangans. Líkaminn þarfnast þess einnig við nýtingu B1- og E-vítamíns”.

“Hlutverk C-vítamíns til viðhalds heilbrigði líkamans er margþætt. Það hefur mikilvægu hlutverki að gegna við myndun bandvefs, er stór þáttur í vexti og heilbrigði æða, beina, góms og tanna ásamt því að auka frásog járns. C-vítamín hjálpar sárum að gróa og eykur viðnám líkamans gegn sýkingum. Líkaminn þarfnast aukins C-vítamíns þegar hann er undir andlegu eða líkamlegu álagi. C-vítamín er sindurvari (andoxunarefni) þ. e. ver frumur líkamans gegn skaðlegum áhrifum stakeinda”.

Tekið af Heilsa.is

Biribimm biribamm

Fæðutengd vandamál

Fimmtudagur, 9. febrúar 2012

Að finna út úr fæðutengdum vandamálum getur verið þrautinni þyngri. Ekki nóg með að meltingafærin séu í klessu, allskonar önnur einkenni eru líklegast að angra þig, vinnufélagar eru grenjandi þar sem það getur oft verið erfitt að standa skil á vinnu, allir eru vitringar  með allskonar ráðleggingar, endalausar spurningar og yfirheyrslur varðandi þitt matarræði og síðast en ekki síst fólk með leiðindi þegar þú ert að reyna að borða af því að þú gætir fengið illt í magann. Einkenni í maga eru ekki samkvæmt klukku, þau gætu hafist nokkrum mínútum seinna eða sólarhring seinna. T.d. fékk ég mér tómatsúpu eitt kvöldið, fékk strax mikla ólgu í maga sem vissulega gaf ákveðna vísbendingu en súpan byrjaði að koma niður seinnipartinn daginn eftir og fram á kvöld. En hvað var það í súpunni? Var það tómatar, hvítlaukur, chilli, svartur pipar, doritos eða ostur?

Það er erfitt að greina óþol, eða iðraólgu, eða leka þarma eða hvað sem þetta getur verið en allt þetta byggist á því sama, að borða það sem fer vel í mann. Meltingarsérfræðingur sagði að þetta væri iðraólga, sem ég var búin að skoða áður en mér þótti ekki eiga við mig. Við nokkurt gúgl þá fann ég misvísandi upplýsingar og erfitt að borða í samræmi við það.

Andleg heilsa fer hnignandi vegna alls þessa álags og því verður oft erfiðara og erfiðara að takast á við veikindin og vandamálin sem þeim fylgja.

Hjá mér er þetta ekki svo einfalt að ég hafi getað tekið út mjólkurvörur eða glútein, það er ekki það sem er að angra mig. Einstaka fæðutegundir eru að angra mig og að finna út úr því er eins og að elta einn fisk í Þingvallavatni.

Einkennin hjá mér hafa verið margvísleg og vil ég tengja þessi einkenni fæðuóþoli. Vissulega geta þau verið ótengd, en ég hallast helst að því fyrrnefnda.
Einkenni frá meltingarfærum, slæmir verkir og/eða smjörkenndar hægðir eða niðurgangur
Ég hef haft einkenni frá lungum, látið kanna þau oftar en einu sinni en ekkert kom í ljós
Ég hef haft einkenni frá hjarta, verið tekið hjartalínurit og verið tengd holter (sólarhringsmæli) en ekkert kom í ljós
Ég hef átt afar erfitt með einbeitingu og minni
Sinnuleysi er stundum algjört
Mikill þurrkur í slímhúð
Kláði
Fótapirringur
Depurð og grátgirni
verkir í eggjastokkum (hæpið samt)

Svona er ég búin að vera í eitt ár. Nema fyrir ári síðan var ég afar ánægð með lífið og tilveruna og smám saman hefur lundarfar mitt þyngst. Núna snýst líf mitt um að finna út hvað er að angra mig, verja mig fyrir árásum fólks og óska þess að næsti dagur verði betri.

Fólk heldur að það sé rosalega auðvelt að skrifa bara lista og ef ég fæ illt í magann að finna þá út úr því út frá þessum lista. Allajafna eru um og yfir 200 fæðutegundir sem við neytum að staðaldri, daglega um það bil 20.

Þú þarft að finna út hvað er að angra þig. Þú byrjar á að taka út mjólk, en ekki ost, í nokkra daga. Líðanin skánar og þú ert með mjólkursykursóþol, líðanin skánar ekki og næst á dagskrá er þá að taka út ostinn einnig. Líðanin skánar og þú ert með mjólkurpróteinóþol, líðanin skánar ekki og það eru ekki mjólkurvörur.

Næst er það glútein. Þú tekur út allt glútein í nokkurn tíma, líðanin skánar og þú ert með glúteinóþol. Líðanin skánar ekki og þá er það næsta.

Þú prufar alla stóru flokkana, t.d. frúktósa, glúkósa, mjöl, ávexti, grænmeti en það eru ekki stóru flokkarnir heldur einstaka fæðutegundir. Þá ertu farin að synda í Þingvallavatni og rembist við að ná þessum eina fisk af 200. Ætli það sé svo auðvelt?

Ég er að fara að prufa aðra nálgun núna, fjögurra daga rúllur. Þá er með fjórar fæðutegundir af hverjum flokk og skipt þeim niður á daga, rúlla þessu í allavegana tvö skipti, síðan ef ég fæ einkenni þarf ég bara að finna út úr 13 fæðutegundum - að því tilskyldu að ég fái einungis einkenni einn dag. En það er von mín að allavegana einn dagur verði góður svo ég geti haft 13 fæðutegundir inni og bætt hinum við smám saman. Til að byrja með hef ég 13 flokka, ef það er ekki að virka verð ég að fækka þeim. Síðan er ég með einkennalista sem ég krossa við.

Hérna er listi yfir það sem ég er að fara að prufa, hann er ekki tæmandi. Ávexti og grænmeti þarf ég að prufa bæði ferska og eldaða. Yfirleitt á maður að þola vel fæðu af sömu ættkvísl, t.d. er blómkál og spergilkál af sömu ætt og ef ég þoli blómkál ætti ég að þola hitt. Þetta þarf því ekki endilega að vera svo flókið. Ég geri  þetta svona vegna þess að ég er búin að vera að taka inn og taka út svo lengi að ég er orðin hringskoppandi vitlaus á þessu öllu saman.
Ég er einnig að kanna bætiefnin sem ég er að taka, ég hef grun um t.d. að kalk og magnesíum blanda sem ég hef verið að taka fari illa í magann á mér.

Ávextir og ber
Epli, eplamús, þurrkuð epli, aprikósur, þurrkaðar aprikósur, bláber, (banani - ofnæmi), brómber, kirsuber, trönuber, þurrkuð trönuber, rifsber, sólber, döðlur, gráfíkja, greip, melónur (allar tegundir), gojiber, kíví, sítrónur, lime, mandarínur, mangó, nektarínur, appelsínur, ferskjur, perur, plómur, ananas, granatepli, vínber, rúsínur, hinber, jarðaber

Grænmeti,rætur, laukar og krydd
Lárpera, aspas, eggaldin, spergilkál, grasker, hvítkál, gulrætur, blómkál, sellerí, kínakál, kúrbítur, jöklasalat, grænkál, blaðlaukur, laukur, rauðkaukur, steinseljurót, nípa, paprika, kartöflur, radísur, skallotlaukur, spínat, vorlaukur, maísbaunir, maískólfur, sætar kartöflur, gulrófur, rauðrófur, tómatar, næpur, hvítlaukur, chillí

Hnetur og fræ
Möndlur, brasilíuhnetur, kasjúhnetur, kastaníuhnetur, kókos, heslihnetur, pekanhnetur, jarðhnetur, furuhnetur, pistasíur, valhnetur, sesamfræ, sólblómafræ, hörfræ, birkifræ, sinnepsfræ

Baunir, ertur og linsur
Nýrnabaunir, aduki baunir, kjúklingabaunir, smjörbaunir/limabaunir, soya baunir, pintobaunir, hvítar baunir, svartar baunir, linsur, snjóbaunir, strengjabaunir, grænar baunir

Mjöl
(Bygg, verð mjög veik af), hveiti, heilhveiti, hveitikím, hveitiklíð, hafrar, rúgur, hrísmjöl, maísmjöl, hvít hrísgrjón, brún hrísgrjón, fínt spelt, gróft spelt, hirsi, tapicoa

Mjólkurvörur
(Sýrðar mjólkurvörur s.s. skyr, ab, súrmjólk og jógúrt framkalla vonda svitalykt), mjólk, ferskir smurostar, kotasæla, rjómaostar, fastir ostar, fetaostar, mygluostar

Prótein
Egg, lamb, naut, svín, kjúklingur, kalkúnn, skelfiskur, ýsa, þorskur, langa, steinbítur, rauðspretta, lúða, silungur, lax

Sætuefni
Dökkt súkkulaði, hunang, hvítur sykur, hrásykur, stevia, agave

Fitur
Smjör, hörfræsolía, olífuolía, hnetuolía og fleiri sem ég finn út seinna.

Drykkir
Kaffi, te, kolsýrt vatn

Vonandi að einhver hafi gagn af þessu, ég mun einnig birta matseðlana mína, þ.e. rúllurnar

Biribimm biribamm

Morgmaturinn

Fimmtudagur, 2. febrúar 2012

Á morgnanna er lang best að troða sig út af graut. Í fyrsta lagi þá stjórnar þú alveg hvað er í grautnum og í öðru lagi þá er hann yfirleitt hollur. Það er lítið mál að henda einhverju með í grautinn til að gera hann sætan og góðan og súper dúper hollan.

Hafrar eru t.d einstaklega góðir í morgungrautinn. Mér finnst tröllahafrar mikið betri en venjulegir hafrar, það er einhvern veginn meira “kjöt” á þeim. Ég set u.þ.b. 1 dl af höfrum og 3 dl af vatni, hendi þessu í pott og leyfi suðuni að koma upp. Síðan tek ég pottinn af hellunni, set lok á og leyfi grautnum að jafna sig á meðan ég hef mig til. Ég set út í grautinn eina matskeið af eplamús og jafnvel bláber.

Byggflögur eru einnig virkilega góðar í graut, en til að ná þessu einkennandi byggbragði úr þá er best að nota smá kanil, 1/2-1 teskeið. Bragðið af bygginu þykir mér einstaklega vont, kanill bjargar deginum. Blöndun er held ég svipuð og með höfrunum, ég lét bara vatn fljóta duglega yfir.

Í þessa grauta er gott að setja eplamús til að sæta þá. Svo bara það sem þér dettur í hug, frosin bláber eða frosið mangó með í pottinn, jafnvel fersk epli. Bananar, kókosflögur, möndlur, rúsínur, döðlur, stevia, agave, hnetur, hveitikím eða hvaða drasl sem þú átt til að henda með.

Ef þér finnst grautar vondir geturðu huggað þig við það að þetta venst.

Biribimm biribamm.

Hakksúpa

Þriðjudagur, 3. janúar 2012

Ég mallaði mér í kvöldmat ægilega góða hakkksúpu.

008.jpg
300 g hakk, ég var með svínahakk
1 rauðlaukur
4 kartöflur, skornar í bita
1 gulrót, skorin í bita
1 sellerístöngull, skorinn í bita (mér finnst sellerí almennt vont en það var fínt í súpunni)
1 dós hakkaðir tómatar
kjúklingakrydd frá pottagöldrum
salt og pipar
tabasco sósa (má sleppa)
400 ml vatn eða soð (ég var með kjúklingasoð)

Laukur og hakk steikt saman í potti, ég var með djúpa wok pönnu. Þegar vel steikt er kartöflum, gulrót og sellerí bætt saman við og þetta steikt saman í smá tíma. Síðan er tómötum ásamt vökva bætt við og síðan vatni. Látið malla í ca 20 mínútur, eða lengur ef þú kýst. Kryddað að smekk, ég vil hafa tabasco til að þetta rífi aðeins í.

Biribimm biribamm