Færslur undir „FæðuLumma“

Rusl súpa og ponsu hollusta í eplaköku

Sunnudagur, 3. apríl 2011

Það er ágætt að nýta allt sem er ætt, en er oftast hent, í súpu. Ég átti afskurð af blómkáli (laufin) og græna endann á púrru og mallaði súpu úr því. Fínasta súpa.

2 msk smjör látið bráðna í potti
Frekar fínt söxuð púrran látin malla við hægan hita í 7 mínútur
Afskurðinum hent útí og látið brallast í 10 mínútur í viðbót

1 lítra af vatni sullað saman við ásamt salti, svörtum pipar og eðal-kjúklingakryddi frá pottagöldrum (besta krydd í heimi). Látið sjóða í korter. Annaðhvort að eta súpuna svona heita eða láta hana kólna aðeins og skella henni í matvinnsluvél og vinna hana vel. Mjög góð súpa.

Það er ekki erfitt að troða örlítilli hollustu í baksturinn, og það er meira að segja nokkuð bragðgott. Það er mikill misskilningur að bakkelsi sé vont nema það sé bara hveitiklístur í því. Ég bakaði eplaköku áðan.
1 egg + 125 g af sykri (já ég notaði sykur) hært saman þar til létt og ljóst. 125 g af smjöri hært saman við.
125 g samanlagt af hveitiklíði, hveilhveiti og hveiti (25 g hveiti nóg) og 1 tsk vínsteinslyftiduft (já eða bara venjulegt) hært saman við.

Stappað í form, eplaskífum raðað yfir og smá kanilsykri.
Bakað við 180°C í 30 mín.
Þegar kakan er til er bitum af dökku súkkilaði dreift á kökuna, sett í ofninn (sem búið er að slökkva á) í 1-2 mín. Smyrja súkkulaðinu á alla kökuna og rymja af ánægju með hverri skeið.

Biribimm biribamm

Magans og hjartans boozt

Mánudagur, 24. janúar 2011

Núna eftir jólin eru trönuber á niðursettu verði, einhver skemmd ber inn á milli en kemur samt út í plús. Týna bara út skemmdu berin, skola heilu berin vel og þurrka. Skella þeim síðan í frystinn og nota þau í boozt.

Trönuberjasafi er mikið notaður á ýmsum heilsustofnunum gegn þvagfærasýkingu, oft er gefinn trönuberjasafi áður en reynt er við sýklalyfjameðferð. Trönuber eru stútfull af plöntuhollefnum, flavóníðum. Eitt af þeim efnum húðar þvagblöðruveggina að innan sem gerir bakteríum erfitt fyrir að festa sig.

Einnig hafa plöntuhollefni í trönuberjum  góð áhrif á hjarta- og æðakerfið. Virknin virðist vera mest í heilum berjum, þar sem sum efnin vinna saman en aðskiljast við vinnslu. Rannsóknir hafa sýnt að dagleg inntaka trönuberja eða safa geta komið í veg fyrir að ákveðin ensím sem valda æðakölkun fari af stað.

Trönuber virðast hafa bólgueyðandi áhrif (sérstaklega á tanngóma), minnka líkur á nýrnasteinum, styrkja ónæmiskerfið og minnka líkur á myndun krabbameins.

Einnig eru trönuber talin jafna bakteríuflóruna  í maga, og þar með minnka líkur á magasári.
http://whfoods.org/genpage.php?tname=foodspice&dbid=145

Kalíumríkir bananar hafa löngum þótt hafa góð áhrif á hjarta og æðakerfið með því að halda blóðþrýstingi í skefjum.
Einnig eru bananar taldir góðir til að halda sýrustigi í jafnvægi sem og auka virkni frumna í maga sem framleiða slím. Þannig minnka líkur á magasári.
http://www.whfoods.com/genpage.php?tname=foodspice&dbid=7
Trönuber og banani eru því súper dúper blanda fyrir hjarta og maga.

Magans og hjartans boozt

Hálfur banandi
3 lúkur frosin (eða fersk) trönuber
1 glas af vatni
Blandist og drekkist.

Biribimm biribamm

Góður matur maður!

Sunnudagur, 23. janúar 2011

Sparnaðar blómkálssúpa.

Ég keypti um daginn blómkálshaus sem var innilokaður í laufi. Ég tímdi ekki að henda því og ákvað því bara að búa til súpu úr laufinu. Súpan varð ótrúlega góð. Fylgt er uppskrift af venjulegri blómkálssúpu nema laufin eru soðin í um hálftíma, rétt í restina er bætt við smá blómkáli til að fá kraft, svo rjómanum.

Ódýr, holl og súper dúper góð pizza (fyrir einn).

Slatti af hveitikími, af slumma olíu og dass  vatni, pizzakrydd, hvítlaukspipar og svartur pipar hrært í skál. Klesst á bökunarplötu og jafnað út með höndunum (það er auðveldast)
Þurrkað í 20-30 mín við ca 180° (ekki með blæstri)

Tómatsalsa
einn tómatur skorinn í litla bita
ræma af lauk saxaður
biti af chilli saxaður

Pizzasósu dreift á botninn, síðan ost og tómatsalsa ofan á ostinn. Til að gera pizzuna einstaklega mjúka og djúsi er klessum af hreinum rjómaost laumað hér og þar ofan á. Bakað við 200° hita og aftur, ekki blástur.

Bon apetide

Biribimm biribamm

Prófaþreytu boozt

Laugardagur, 27. nóvember 2010

Æi prófalestur! Þá er setið lon og don lungann úr deginum. Orkan þverneitar að hanga með manni, heilinn fer að flauta lagstúf og rasskinarnar eru orðnar flatar og ljótar. Þá er oft lítið annað að gera en að éta og éta til að halda uppi orkunni. Það er ekki bara það að það sé lýjandi að sitja og læra, heldur tekur heilinn til sín ansi mikið af orku. Ég er allavegana sísvöng þegar ég er mikið að nota þessa elsku.

Eitt ráð er að éta nammi, bounty er t.d. mjög gott. Ég sé bonty í hillingum. Mmmmm bounty! Ég kann að baka bounty köku. Hún er góð. Kannski ég leggi í eina?

Annars held ég að það sé betra að eta og drekka fæðu sem dvelur lengur við orkugjöf í líkamanum heldur en bounty.. nammi.

Var að malla saman orkuboozt, sem er meira að segja merkilega bragðgott

Orkuboozt ala Sonja

1 frosinn spínatkubbur
2 cm engiferbútur
2-3 gulrætur
Trönuberjasafi eftir smekk

Fleygist í blandara, blandað með látum og drukkið með bestu lyst.

0011.JPG
Spínat
Spínat er ríkt af orkugefandi vítamínum eins og járni, B vítamínum, C og E.

Gulrætur
Luteolin, plöntuhollefni í gulrótum, er sagt hjálpa til við virkni heilans

Engifer
Er sagt bæta blóðrásina, sem er ekki vanþörf á þegar heilinn er annars vegar. Hann tekur til sín mikið blóð.

Trönuberjasafi
pakkaður af C vítamíni til að nýta allt þetta járn í spínatinu

Boozt ala Sonja

Mánudagur, 8. nóvember 2010

Venjulega eftir smá skróp í ræktinni, þá fær maður heljarinnar harpðsperrur. Ég er allavegana þannig, að eftir smá pásu geng ég um eins og nírætt gigtveikt gamalmenni. Ég þarf að undirbúa mig andlega undir að arka upp stiga og að teygja mig eftir hlut - sérstaklega ef ég þarf að beygja mig! Ég hef ræstingar að atvinnu og það er bara þjáning.

Fyrir nokkru síðan mallaði ég saman boozt eftir fyrsta ræktartímann eftir skróp og fékk litlar harðsperrur. Ég skrópaði aftur og mallaði sama booztið og enn og aftur var ég að upplifa litlar harðsperrur. Ég finn til, ekki efast um það. En ég get gengið eðlilega og teygt mig, beygt mig, reigt mig og unnið léttilega. Hvað er dásamlegra en að finna harðsperrur án þess að vera nánast farlama?

Harðsperrur fáum við eftir álag á vöðvann. Skemmdir verða á vöðvafrumum sársaukinn kemur fram þegar bólgusvörun verður í vöðvanum og viðgerð hefst.

Boozt ala Sonja

Ca 500 ml (fyrir tvo venjulega, ég fæ mér frekar stórann skammt)

4 hvítkálsblöð
2 gulrætur (eða 1 stór)
1 epli/pera
1 tsk glútamín
300 ml vatn

Mixað í blandara. Mjög bragðgott, verður enn mýkra bragð ef notuð er pera í stað eplis.

Hvítkál
Í hvítkáli er hið margrómaða eða óþarfa prótínið glútamín. Sumir segja að ræktarfólk þurfi það, aðrir að það hafi engin áhrif. Ein rannsókn sýndi að það hefði góð áhrif á bata hjá skurðsjúklingum. Því er sá möguleiki á að það hjálpi til við uppbyggingu á skemmdum vefjum.
Hvítkál er talið hafa bólgueyðandi áhrif, andoxandi áhrif og hjálpar til við vöðvauppbyggingu.

Gulrætur
Eiga þátt í að lagfæra miniháttar sár og meiðsli. Bætir vöðvaheilsu, hefur bólgueyðandi áhrif sem og hefur góð áhrif á blóðsykursjafnvægi.

Epli
Quercetin í eplum hafa bólgueyðandi áhrif.

Biribimm biribamm