Færslur undir „SunnudagsLumma“

Megrunarlausi dagurinn

Sunnudagur, 6. maí 2012

Í dag er megrunarlausi dagurinn. Að fara í megrun er eins og að ætla að keyra hringinn í kringum landið á einum tanki af bensíni, þú kemst ekkert alla leið - það er ekkert flóknara en það.

Í áttina að hollari mataræði

Mánudagur, 26. mars 2012

Reyndu eftir bestu getu að borða sem hreinastan mat, langflestallur unnin matur inniheldur viðbættan sykur (eða gervisætu eða kornsýróp). Ef þig langar að nota sykur, notaðu þá sykur, en hugleiddu aðeins sykurmagnið sem þú neytir hvern dag með tilbúnum mat. Ég held að það sé aðeins betra að sykra matinn heima heldur en kaupa hann tilbúinn og ofursykraðann, þú veist þá u.þ.b. hvað þú ert að neyta mikils sykurs/sætu. Fínt er að reyna að skipta hvíta sykrinum að einhverju leyti út fyrir hrásykur, hlynsíróp eða hunang. Já eða jafnvel agave eða stevíu, það er bara smekksatriði. Það þarf að venjast svolítið að borða ekki dísætt í öll mál.

Bara lítið dæmi: morgunkorn = sykur, tilbúin samloka =sykur, tilbúnir drykkir = sykur eða sæta, álegg flest = sykur, tilbúnar sósur (t.d. tómatsósa) = sykur/sæta/sýróp, hreinir safar eru yfrleitt “concentrate”, innihaldslýsing þarf ekki að fylgja af því og í því er mögulega sykur eða sæta. Endilega spáðu aðeins í þetta.

Fitu eða fituskertur matur, skiptar skoðanir um það í dag. Nýlega er farið að segja að því næst uppruna sem maturinn er því hollari er hann. Fita var einu sinni djöfullinn en við fitnum og fitnum þrátt fyrir fituskerðingu. Að sjálfsögðu er stórt partur af því mikið unnin matur, en má vera að það sé eitthvað til í hugmyndir um fituskerðingu.  Veldu bara hvað þér þykir best, fita eða fitusnautt, athugaðu samt sykur og sætumagnið í þessu fituskerta.

Gróft brauð er hollt og gott en til að sleppa brauði milli mála er hægt að fá sér:

Ávexti og/eða grænmeti; sneiddu gúrku eða papriku (nú eða bæði), snjóbaunir, gulrætur, spergilkál eða ávexti sem þér þykja góðir. Það er ekkert meira vesen að skera ávexti eða grænmeti heldur en að smyrja brauð eða hrökkbrauð, það er bara blekking.

Grísk jógúrt er þykk og því tilvalin til að gera jógúrt að þínum smekk. Ég hræri oft kaffi saman við og er þá komin með afar góða kaffijógurt. Einnig er hægt að þynna hana með mjólk (eða sleppa því) og henda svo í ávaxta- eða berjabitum eða  blanda í blandara með mjólk og frosnum eða ferskum ávöxtum eða berjum, setja morgunkorn út á eða múslí eða hvað sem þér dettur í hug.
Að öllu jöfnu sneiði ég hjá sýrðum mjólkurvörum vegna þess að svitalyktin af mér verður vond, en ég fæ mér einstaka sinnum.

Hrökkbrauð er fínt sem millimál, skella á þetta grænmeti og próteini.
Uppáhaldið mitt þessa dagana er sykurlaus sulta og kotasæla (St.dalfor sulta)
Dæmi um Próteingjafa: smurostur, kotasæla, kjúklingaskinka og egg
Dæmi um grænmeti: spínat, paprika, agúrka, aspas, tómatur, laukur, grænkál eða aðrar tegundir af salati eða káli

Beef jerky (er bezt í heimi, fæst í kosti) og harðfiskur eru góðir próteingjafar en því miður dýrir, það er ágætt kaupa þetta samt í staðin fyrir nammi. Það er vel þess virði!

Lúka af hnetum/fræjum og þurrkuð trönuberju/rúsínur, hneturnar og fræin verða mýkri og bragðbetri (finnst mér) ef þau liggja í bleyti í 12 tíma fyrir átu.

Þeytinga (boozt), mjólk er ágætis próteingjafi í þeyting ef þú þolir hana

Goji ber eru sögð vera holl, mér finnst þau vond á bragð og lauma ég þeim í þeyting

Avocado á að vera svakalega hollt, mér finnst það vont á bragðið og því lauma ég því í þeyting.

Í staðin fyrir nammi er hægt að fá sér:

Dökkt súkkulaði er alls ekki talið vera slæmt, ekkert athugavert við að bræða það og blanda með rjóma eða íslensku smjöri og henda einhverju dótaríi útí (ber, kókos, hnetur)

Gott sykurlaust hnetusmjör er dásemd til átu, en varasamt því það er afar hitaeiningaríkt. Mér finnst það of þurrt eitt og sér en það er mjög gott t.d. með epli eða banana, á samloku með sykurlausri sultu eða smá klessa á suðusúkkulaði (dásemd).

Í staðin fyrir bounty og snickers eru Hnetu- og kókosstykkin frá Sollu/Himneskri hollustu miklu betri kostur, og jafnvel bragðbetri. Þetta er álíka dýrt, en ég hef heyrt umkvartanir um að þarna sértu að fá minna fyrir peninginn - en hvað með það? Af hverju þarftu meira og stærra?

Biribimm biribamm

Staður til að hvílast á

Mánudagur, 12. mars 2012

Ég er oft þreytt seinnipartinn og er mikið búin að hugleiða hvernig ég gæti hrist þessa blessuðu þreytu úr mér. Nokkrir bollar af kaffi duga ekk, það hef ég sannreynt. En bolli af tei og staður til að hvílast á var algjörlega svarið við minni spurningu. Ég sit í gluggakistunni og góni út. Mér fannst það ekki alveg nóg og tróð því pottaplöntu, kerti og nokkrum kristöllum. Hvort kristallar virki get ég ekki sagt til um, en það sakar ekki að hafa þá.

Hér sit ég og góni á fólk

00521.jpg

Og hér er dótaríið

0092.jpg
Frekar þröngt en afar notalegt

Biribimm biribamm

Happadagur

Föstudagur, 27. janúar 2012

Eða þannig skomm. Ég hóf daginn á því að kúra aðeins lengur, ég gæti bara keyrt í vinnuna í dag. það var meira en að segja það að koma bílnum af stað. Fyrsta vinnan var að moka þykku lagi af snjó af bílnum og síðan að hreyfa hann. Ég var ekki búin að hreyfa bílinn í nokkra daga og því var smá skafl í kringum hann. Ég spólaði og spólaði, henti mottu aftan við eitt dekkið og tókst að losa bílinn aðeins. Síðan hélt ég bara áfram að spóla, óð og skreið í snjó og henti mottum bakvið öll dekk. Komst ekkert afturábak en ég komst þó loks áfram og af stað - en alltof sein í vinnu.

Þegar í vinnuna var komið fattaði ég að ég hafði gleymt lyklinum af skápnum heima. það var svo sem lítið mál þar sem ég geymi aukalykil í vinnunni, sem ég síðan læsti inni í skáp. Vaktmaðurinn kvað að það væri lítið mál að klippa lásinn og setja nýjan, en hann fann ekki klippurnar.

Ég sagði honum ekki að hafa áhyggjur, ég færi létt með að bruna heim að sækja minn lykil. Ég var búin að hringja í dóttur mína og biðja hana um að vera heima klukkan fjögur. Korter í fjögur fattaði ég að ég gæti það bara ekki neitt, bíllykillinn var læstur inni í skáp. Ég á sem betur fer svo æðislega systur sem nennti að skutlast eftir lyklinum og koma honum til mín.

Þegar svona dagur er er gott að vera með góða tónlist í spilaranum, ekki verra að hafa “neyðardisk” sem kemur þér í gott skap. Fyrr um morgunin þegar ég var að hamast var ég með Killer með Gildrunni, sjaldan hef ég verið jafn æst og fljót að sópa bílinn og drita honum úr skafli (ég hljóp hring eftir hring í kringum bílinn). Á heimleið var It’s just a thougth með CCR og kom það mér í glimrandi gott skap,  ég söng alla leiðina heim.

Biribimm biribamm

Nýársheit

Sunnudagur, 1. janúar 2012

Nýja árið mun alltaf verða betra en hið gamla í hugum okkar á gamlárs, en svo oft er það bara alveg eins. Kemur þetta þá ekki bara á næsta ári? Eða hvað með bara núna? Ekki á morgun eða hinn eða áður en nýja árið er búið - heldur bara núna.

Orðið til að tattúvera á heilann fyrir þetta ár er: núna

Gleðilegt ár bómullarhnoðrarnir mínir

Biribimm biribamm

Hvernig þú átt að haga þínu lífi í jólahavaríiinu

Föstudagur, 23. desember 2011

Ég skal segja þér það því ég veit það. Þú átt að *trommusláttur* hafa jólin eins og henta þér best. Ef þú villt æfa 11 mánuði ársins til að bæta öllu á þig yfir jólin er það allt í lagi. Ef þú villt skera við nögl og gráta í súpuna er það bara allt í lagi líka. Ef þú ætlar þér ekki að éta nammi og étur svo óvart nammi og það alla daga og eyðir svo restinni af vetrinum í að éta nammi því þú ert með samviskubit yfir að hafa fallið yfir jólin er það líka bara allt í lagi.

Við eyðum of miklum tíma í innri baráttur af því að við gerum eða gerum ekki það sem okkur finnst að ætti eða ætti ekki að vera.

Til þægindarauka í desember er ágætt að setja sér markmið ef þú villt ekki upplifa eitt af ofantöldu.
Ætlarðu að detta í óhollustu? Ókídókí, settu þér þá markið að þú haldir áfram af hörku í ræktinni og plan um hvernig þú ætlir að snúa við blaðinu á næsta ári.
Ætlarðu að smakka en halda þig að mestu á beinu brautinni? Ókídókí, þá gerirðu það.
Ætlarðu að gráta í súpuna? Ókídókí, en ekki vorkenni ég þér.

Viktor Hugo sagði: people don’t lack strength, they lack will.

Asni í Shrek sagði: where there is a will, there is a way.

Biribimm birijól

Ég Á í útistöðum

Fimmtudagur, 15. desember 2011

Ég held að ég eigi ómeðvitað í útistöðum við ákveðinn líkamspart, nefnilega hægri fót. Síðustu helgi var ég að sjóða egg handa unglingnum. Ég tek pottinn af hellunni og fer svo að leita að íláti til að kæla eggin í. Það heppnaðist ekki betur en svo að ég fann skyndilega fyrir skerandi sviða á tám hægri fótleggs. Ég gargaði “fokk fokk fokk” meðan ég hoppaði einfætt inn á bað og skellti fætinum í vaskinn. Ég var með kælingu á tánum í allavegana 5 klst og smurði aloe vera safa af og til á aumingja litlu táslurnar.

Á fimmtudögum spilar starfsfólk í vinnunni körfu og að sjálfsögðu tek ég þátt. Ég brussast þarna áfram eins og vanalega og ætla að sýna körfunni hver ræður. Ég stekk mjúklega upp, boltinn fer upp í fallegan boga og beint ofan í körfu, 3 stiga að ég held, ég kem svo niður á fót mótspilara með hægri fæti,  beyglast niður á gólf og togna. Ég ligg svo bara eins og slytti og æja á mig auma og á sama tíma undrast ég að boltinn hafi í alvöru farið ofan í.

Ég held að þetta kalli á aðstoð fagfólks, það er ekki eðlilegt að gera fleiri en eina tilraun til að slasa líkamspart. Spurning um að leggjast á bekk hjá sála, úthella smá tárum og hori. Það væri ekki verra ef smá ekki næði að læðast með.

Biribimm biribamm

Öldruð

Miðvikudagur, 25. maí 2011

Ég var að renna í gegnum netpóstinn og álpaðist til að renna yfir póst frá vefsíðu sem ég er áskrifandi af.  Þessir póstar fjalla iðulega um “fat burn”, weight loss” og “food for wrinkles” sem ég hef afar takmarkaðan áhuga á að lesa um. Af hverju ég er áskrifandi er annar handleggur, mögulega gæti einn daginn komið einhver áhugaverð grein um eitthvað skemmtilegt stöff.

En jæja, ég rakst á próf sem gæti orðið skemmtilegt. “Is your skin older or younger than the rest of you? ” Leiðbeiningarnar voru þær að ég átti að grandskoða hverja svitaholu með stækkunargleri. Eða ég gerði það allavegana mjög samviskusamlega.

Fyrir ekki svo margt löngu var ég að býsnast yfir orðum lýtalæknis að þegar aldurinn slægi tuttuguogfimm væri tími til komin að strekkja draslið. Ég ætlaði því svo sannarlega að afsanna það að kerlingar á mínum aldri (ólmóst dörtí tú) þyrftu að skreppa í verslunarferð til lýtó.

Valmöguleikar í þessu skemmtilega prófi voru nei, lítið, mikið.
Ennishrukkur? smá - Broshrukkur? Ein lína - Reiðihrukkur? Smá - Krákufætur? Ef ég rýni - og nei, húðin lítur ekki út eins og kertavax í sól.

Ég ýtti spennt á “finish” og beið eftir blikki á skjánum - ” woha, looking goood gemla”

Í staðin sá ég bara “Your SkinAge is 34.”

Biribimm biribamm

Ég gat loksins!

Fimmtudagur, 30. desember 2010

Þegar ég var krakki langaði  mig að stunda íþróttir. Það var bara einn hængur á - eða nei, þeir voru tveir! Ég var í fyrsta lagi algjör klaufi.

Í fótbolta voru fæturnir fyrirstaða, þeir voru bara fyrir mér. Þeir þvældust þarna fram og til baka, felldu mig og létu boltann oftar en einu sinni fara í vitlaust mark.

Í handbolta voru það hendurnar sem þvældust fyrir. Boltinn fór aldrei í þá átt sem ég kastaði, oft bara datt hann úr höndunum á mér eða ég bara datt. Oftast á æfingum var ég að kasta bolta í vegg, það var sko refsingin fyrir klaufaskap.

Í körfu - tja, ég er 162 cm á hæð. Fyrir utan það að ég varð rangeygð þegar kom að körfunni.

En hlaup og sund? Ég gat sprett hratt! Ójá! En ef ég þurfti að hlaupa meira en 100 metra lág ég í keng útaf hlaupasting. Svo ekki sé minnst á að við mikið álag fékk ég krampa í magann og ældi stundum með því. Ég gat ekki einu sini leikið mér mikið í sundi, þá kom ekkert fallegt út úr mér.

Draumar mínir um að æfa íþróttir enduðu því bara í blindgötu, nema ef skyldi kalla sígarettulyftingar og brjálaðan dans með fullt af áfengi í maganum íþróttir.

Með kvíðahnút í maganum og vissu um endalausa krampa og gubb í lítratali, ákvað ég að skrá mig á herþjálfunarnámskeið -  með Tinnu mína sem andlegan stuðning. Þetta er eitthvað sem heillaði mikið og hefur alltaf gert, ekki lóðalyftingar í drepleiðinlegum tækjasal. Og viti menn - enginn krampi, ekkert gubb! Mér gekk bara nokkuð vel, ég var ekkert að þvælast fyrir sjálfri mér heldur.

Mér er minnistætt öll skiptin sem víðavangshlaup var í skólanum. Ég gat aldrei hlaupið neitt, ég þurfti nánast að skríða meiripartinn af leiðinni. Í dag náði ég á hlaupabrettinu að ganga, skokka, hlaupa og spretta 6,5 km, nánast án þess að blása úr nös. Algjörlega toppurinn á tilverunni þetta árið.

Liggur þá ekki beinast við, á næsta ári, að taka þátt í keppni?

Biribimm biribamm

Skerí dörtí vonn

Fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Jæja..

Þrátt fyrir góða viðleitni við að forðast þennan einn þá mætti hann samt á miðnætti, ótrúlega hress og galvaskur og svolítið uppáþrengjandi. Ég henti mér í gólfið berjandi hnefum, sparkandi og organdi. Hann þráaðist samt við að fara, sagði að hann “þyrfti að koma inn í mig”. Ég var ekki lengi að hleypa honum að, haldandi að þetta yrði eitthvað fjörugt.

EN neeeiiii!! Hann bætti bara einu ári við, helvískur. Djöfull! En ég hef 9 ár eða 468 vikur eða 3285 daga eða 78840 klst til að vera dörtí, ég get lifað með því. Það er ýkt kúl að vera dörtí somþíng.

Annars hef ég enga aldurskomplexa, þvert á móti. Ég hlæ, og slæ mér á lær, af fólki á mínum aldri, OG sérstaklega yngra, sem talar um að það sé gamalt. Ýkt fyndið, því ég er enn kornung kona. Bara með 7 hrukkur á enninu, fimm hrukkaennið hrukkur og tvær reiði hrukkur og bara einu sinni verið kölluð eldri kona (í merkingunni, ég hef aldrei verið með eldri konu en hvað eru 2 ár á milli vina?).

En jöst in keis! Ef ég fyllist sorg og sút og yfir mig hellast aldurskomplexar, þá ætla ég að vera full annað kvöld.

Biribimm biribamm