Drepið í - 28 nóv 2010

28 nóv 2010

Hmmmm, stutt síðan ég lagði blessaða tyggjóinu. Ég var alltaf að fikta við að reykja, systir mín var að verða galin á mér af því að hún fékk ekki að reykja eina sígarettu í friði. Ég var stanslaust að biðja um smók. Svo barrasta einn daginn fann ég að þetta var vont í lungun og var að hamla mér í ræktinni að og ég bara hætti - og sleppti tyggjóinu líka

Weeeee

Sjúddirarirei…..

Setyjandi óktóber tvöþúsund og níu

Gleðifréttirnar eru þær að ég er ekki byrjuð að reykja!! Nema stundum sníki ég smók hér og þar þegar ég kemst í færi við reykingamenn. Takmarkið er þá að hætta því?? Enn er ég að smjatta og smjatta á þessu blessaða tyggjói. Ég er stanlaust með tyggjó í gininu, smjattandi, teygjandi og kúlublásandi. Get varla verið annað en ægilega pirrandi með þessa gelgjustæla.

En 5 nóvember neyðist ég til að leggja þessu tyggjói og hvað þá?? Mun ég fótbrjóta stólana mína og rífa niður gardínur??? ÍÍÍííík það kemur í ljós.

Sjúddirarirei……
þriðji apríl núllátta
Ég er enn að smjatta á tyggjóslummunum. Sé ekki fram á að hætta því í bráð en verð þó að minnka þetta smjatt. Ég varð tyggjólaus nú um páskana og var ekki langt frá því að stökkva út í sjoppu að versla mér rettur. Ég fór að gæla við félagsreykingar, eða bara ég með bjór og capri - það leit vel út í mínum huga. Töff sko!

Galinn er sá að það er ekki hægt að stökkva út í sjoppu og kaupa tyggjó, en það er hægt með rettur. Aðgengi að sígarettum er eiginlega alltof gott. Jafnvel þó sjoppan sé lokuð er ekki svo mikið vandamál að redda sér rettum, án þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð í bæinn í leit að næturapóteki. Gæti staðið á götuhorni og beðið eftir vænlegu fórnarlambi og betlað rettur. Svo ekki sé minnst á hvað runan er miklu styttri þegar rettur eru keyptar. Áður fyrr sagði ég “winston í boxi” en nú þarf ég að segja “nicorette frutmint tveggja milligramma x stórann pakka”.

Að vísu er þörfin ekki eins mikil í slummu eins og rettur, ég get beðið eftir að komast í apótek án þess að tæta af mér hárið. En ég er samt á því að það þurfi að bæta aðgengi að níkótínlyfjum!

Sjúddirarirei……

21 september ´07 

18 vikur liðnar frá því að ég hélt síðast á tjörutilla, saug reykinn djúpt ofan í lungun og dæsti, mmmmm. Nei annars, ég lýg því. Reykti hálfan vindil um versló og fékk eina rettu yfir bjór hjá vinkonu minni. Ég reykti 3 smóka og gafst upp. Ég get greinilega ekki verið „social smoker“, bjakk. Langar ekkert í, tygg samt mitt tyggjó af áfergju og mikið af því. Tyggjóíð er svo assgoti gott, held ég sé meira háð því heldur en nítkótíninu. Ég komst að því að fólk sem reykir er mjög viðkvæmt gagnvart sínum reykingum. Ef ég voga mér að minnast (nóg að ýja að því á einhvern hátt einu sinni, það er ekki fyrirgefið) á að það sé vond lykt af þessu þá er ég fanatísk. En að sjálfsögðu mega þeir sem reykja gagnrýna hvaða lykt sem þeir vilja. Það mundi engum detta í hug að segja að manneskju sem þætti svitalykt, ilmvatnslykt eða fiskilykt vond lykt væri fanatísk. Neibb, það er bara fólk sem finnst reykingarlykt vond sem er fanatískt. Svo líka fólk sem er á móti reykingum, það er líka fanatískt. Fólki sem finnst ilmvatnslykt vond, eða fær í hálsinn af henni, það er ekki fanatískt. Nei nei, það bara fær illt í hálsinn af þessari lykt og ekkert meira með það. Og ég er ekki bara fanatísk að margra mati (þ.e. fólks sem reykir) heldur er ég líka félagsskítur.
Ég segi bara eins og sagt er við börnin, þúrt bara öfundsjúk/ur *ullabara*

Sjúddirarirei………..

4 ágúst ´07

Nú fer að líða á 3ja mánuð. Vissi það fyrirfram að þetta yrði tími löngunar, sem það er. Finn fyrir löngum í “eitthvað”. Þetta “eitthvað” er tjörutilli en ég ét bara eitthvað í staðinn. Ættarbumban er að koma betur og betur í ljós, alla daga hugsa ég æfingarnar og að ég geti ekki lengur leyft mér hvað sem er í mat. Næ ekki lengra en að hugsa “seinna í dag“, „á eftir“, „á morgun”
Hvar get ég verslað aga??

Sjúddirarirei……

tuttuguogátttanúllsexnúllsjö

Enn er ég að jórtra á níkótínfylltum slummum og er alveg búin að halda mig frá tjörutittlingunum. Laugardaginn síðastliðinn dauðlangaði mig í “bara eina rettu!!!!” Sat yfir brennu-Njáls sögu með geðveikisglampa í augum og tuggði næstum kjálkana úr lið. Um kvöldið ákvað ég að skreppa í partý, vissi að ég gæti vel nælt mér í “bara eina rettu!!!” Varð fyrir örlitlum vonbrigðum þegar ég mætti á staðinn. Ég eyddi öllum deginum í löngun en langaði svo ekkert í rettu í reyklegnum félagsskap!!!!

Sjúddirarirei……

22 - 29 maí ´07

Æi arg og garg og mjá og voff og allt það!!
Mig langar ekki að reykja, ekkert þannig. Nei nei, mig langar að éta!! Éta éta éta!! Feitan mat, snakk, nammi, mat, snakk, nammi, mat, mat, mat!!!

Mars súkkulaði, ís, humar, lambalæri, hamborgari, pylsur, galaxy caramel, pizza, bbq borgara, kex, súkkulaðiköku, maregnstertu, ostaköku, kínverskan mat, doritos og ostasósu, tortillas, hlaup, kókosbollu, vínarbrauð, súkkulaðibitaköku, gróft brauð, rúnstykki, kleinuhring, langa jón……

Langa í langar í!

Éta éta!!

Sjúddirarirei………

PS: Nokkru eftir ritun þessarar færslu lét ég freistast og keypti mér draum. Var ekki gott, of sykrað og of sætt og bjakk.
Kannski að mars sé betra?

Sjúddirarirei……

PSS: Mars var ekkert betra, ekki heldur dumle súkkulaðistykki, snakkið eða blandið í pokanum. Ég er frelsuð.

Sjúddirarirei……

PSSS: Kannski að kókosbolla sé málið?

Sjúddirarirei…..

PSSSS: Kókosbollurnar voru ok. Djúpur eru málið.

22 maí núllsjö

Fyrstu dagarnir eru alls ekki erfiðir. Eða það hefur mér aldrei fundist. Furða mig alltaf jafnmikið á því hversu auðvelt þetta er. Eins og ég mikla þetta fyrir mér. Mig dreymdi samt í nótt að ég væri alveg óvart að opna pakka, plokka rettu út og var næstum búin að kveikja í. Allan tímann var ég að tauta “hvað er ég að gera! hvað er ég að gera!” Leitaði logandi ljósi að elskulega tyggjóinu mínu.

Samt hef ég ekki fundið sterka löngun, bara langar í rettu af gömlum vana. Þó veit ég eitt. Þetta er auðvelt núna en verður erfiðara með tímanum. 3ji mánuður er virkilega erfiður, þá er fallhætta. 6 mánuður, 9 mánuður, ár - allt erfið tímabíl. Hugsanlega verð ég að klást við erfið tímabil alla mína ævi. En hvað ætla ég að gera? Ég hef þraukað í gegnum allskonar erfið tímabil og ætti því að geta þraukað þessi. Eina sem ég þarf að gera er að taka ákvörðun um að standast þessi tímabil.

Must must must!

Sjúddirarirei….

18 maí núllsjö

Annar sólarhringur gengin í garð og lyktar- og bragðskyn komið aftur með látum.
Ég er svo sannarlega búin að njóta þess í dag. Sveitt kaffilykt, angandi táfýla, úldin fiskilykt, nókótínslumma + sódavatn = dry vodkabragð.

Umm og jamm og heppin ég???

Sjúddirarirei………

17 maí ´07

Jæja já.
Fyrsti sólarhringurinn næstum liðinn. Átti erfitt með að sofna í nótt og langaði í “rettu”. Nældi mér í tyggjó og tuggði og smjattaði eins og ég ætti lífið að leysa. Tók með mér pappírstutlu svo ég gæti tuggið og tuggið uppi í rúmi og ætlaði barasta að skella slummunni í pappírstutluna áður en ég sofnaði.

Allt þetta smjatt svæfði mig. Ég rankaði við mér af og til að smjatta og smella. Vaknaði í morgun og fann að ég var með tyggjóklessu í hárinu. Mundi eftir að ég hafði vaknað í nótt og ég hreinlega lagði slummuna á koddann!

Sjúddirarirei………

Jææææææja!!

Jæja þá er ég búin að ákveða hætta daginn. Já eða ekki daginn heldur hvenær, þ.e.a.s. þegar ég er búin með þessa pakka sem ég á núna. Þar sem ég er ómöguleg í að “þetta” margar rettur á dag þá get ég ekki sett niður einn dag.

En mig hlakkar svo mikið til að hætta!! Ég er að springa sko, en ætla að klára þetta sem ég á eftir. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum áðan. Hélt að ég ætti tvo pakka eftir en átti svo alveg heila þrjá eftir! OOOoooooo bömmer. Asnaðist til að kaupa karton og er búin að bíða og bíða eftir að það klárist. Er ekki nógu afkasta mikill tottari til að rippa þessu af á örfáum dögum.

Sjúddirarirei………

Ritað í ár, man ekki hvenær.


Reddí… sett… gó!!
Ekki strax samt, bráðum eins og alltaf. Er búin að byrgja mig upp af níkótíngúmmíi sem og venjulegu ásamt rettum. Slátra einum pakka á þrem dögum og það er afrek útaf fyrir sig. Tja, já þegar ég á í hlut. Ég þykist stundum ætla vera geysilega skipulögð og reykja kannski þetta margar á dag og klukkan þetta og babbara og allt það. Sest niður og plana þetta í ræmur “jæja, næsta retta klukkan þrjú, hmmmmmm. Æ fæ mér samt eina þó klukkan sé bara tvö og ég reykti klukkan tólf og … og….” Að sjálfsögðu fæ ég mér einnig þrjú rettuna og fjögur rettuna sem átti að vera klukkan átta o.s.frv.

Við í fjölskyldunni settum okkur heit að hætta reykingum. Elsta sys er hætt, sú eina sem staðið hefur við þetta heit. Við hin höldum áfram að svíkja okkar heit og tottum tjörutyppin af jafn mikilli áfergju og áður.

En, einn daginn mun ég segja með stolti “nei, ég er óvirkur tottari )

16 mars 06
Hömmelaði??!!


Jæja já og jamm og jæja. Hérna eru rétt tæplega 2ja ára skrif um hvað ég ætla að vera svakalega gasalega duglega að henda rettunum. Það hefur ekki tekist betur en þetta. Ég er samt ekkert hætt við að hætta!!! Samt er ég engu búin að breyta, ekki enn farin að sippa eins og ég lofaði hérna fyrr eða gera nokkuð annað til að hrisst upp í þessum kroppi. HEY!! ég er búin að vera svo svakalega upptekin!! Eftir ár ætla ég að drepa í (þetta er ekki loforð frekar en hitt) og þá er líka komið hér á prenti 3 ár af skemmtun *hóst.*


25 október 05
Jææææææjja…

Jææææææjjja….

Já já…

Ég entist í alveg svakalega langa 3 mánuði. Er að átta mig á því núna að ég rétt skrapp í að hætta. Setti mér ekkert markmið eins og ég set fram í megrunarpistlinum, ég bara hætti og montaði mig af því hvað þetta væri auðvelt. Tuggði tyggjó í smá tíma og hætti svo, montaði mig enn meira af því hvað þetta væri auðvelt. Át snakk í öll mál og nammi og allskonar rusl eins og ég hefði aldrei fengið að éta en hélt áfram að monta mig af því hversu auðvelt þetta væri. Var hætt að passa í fötin mín, þau rifnuðu næstum utan að mér en hélt áfram að monta mig af því hversu auðvelt þetta væri. Ég með mínar predikanir um markmið og svona á að gera þetta og hinsegin og byggja upp nýja vana og bla bla bla en rann svo harkalega á rassinn .. en það var svo sem ekkert vont, var búin að bæta nóg á mig til að lendinginn yrði mjúk.
Jæja, næst ætla ég að hlusta á sjálfa mig. Er byrjuð að sippa á morgnanna og svo kemur í ljós hvernig gengur. Eitt skref í einu.

12 júní 05
Hrmf

Damm damm damm damm damm damm damm damm damm damm damm
damm damm damm damm damm damm damm damm damm damm damm
damm damm damm damm damm damm damm damm damm damm damm.

Ég er orðin anti reykisti. Ég labba að fólki úti á götu og skamma það fyrir að reykja nálægt mér. Ein kona labbaði framhjá húsinu mínu, ég hljóp á eftir henni og gargaði á hana, hvaða rétt hefði hún til að puffa þetta drasl fyrir framan mitt hús! Ég tuffaði svo á götuna fyrir framan hana, bjóst við glæstri slummu en það kom bara smá fruss.
Rífandi í hár hár sé ég bara tár tár er samt nokkuð klár klár að ég þurfi fjár fjár…

7 júní 05
Koma víst erfiðir tímar.

Já, um daginn ætlaði ég að byrja aftur, ætli það hafi ekki verið á fmmtudaginn. Ég var í afskaplega ljúfu skapi, braut nokkra bolla og braut nokkur tré. Reyndar smá ýkt að ég hafi brotið nokkur tré, það urðu engin almennileg tré á vegi mínum hérna heima. Dótlan neitaði að fara í sund og svona ýmislegt skemmtilegt að gerast. Ég náði þó að plata hana til að koma með mér í vinnu, röbbuðu saman hástöfum á leiðinni með gráti og gnístran tanna… bara svona ósköp rólegur og skemmtilegur dagur. Ég var eitthvað svo þreytt á öllum þessum rólegheitum að ég sagði krakkanum að ég ætlaði að byrja aftur að reykja. Krakkinn sagði móðurlegum frekjurómi að ég mætti ekki byrja aftur, ég ætlaði samt að byrja! Leiðin lá þó ekki út í sjoppu, bara heim að elda matinn og sópa upp hárin sem ég reytti af mér.
Já, þetta var ágætur dagur svo sem. Líður þó betur núna.

11 maí 05
Dagur nr 70..

Váhá getur það verið!! Ég var hrikalega góð að telja þetta. Byrjaði á að telja miðvikudagana sem voru 10 svo margfaldaði ég með 7 og fékk út 70, svo til að vita hvað ég væri búin að vera hætt í margar vikur þurfti ég að telja aftur. How dumb can I be!. Ég er alveg viss um að það sé búið að hlakka í mörgum að ég detti í tópakið aftur. Það nebbla gengur ekki að ég sé hætt!! Er bara algjör félagskítur og aulakálfur að já ég bararasta veit ekki hvað! Gengur ekki að ég sitji bara inni á meðan aumingjarnir þurfi að fara út án félagskapar míns. PIFF! Blæs á þetta lið bara sem kallar mig félagskít. Auglýsi hér með eftir nýjum vinum sem reykja ekki!!

Er að mestu hætt að éta tyggjó. Verð reyndar að játa stóra synd, ég reykti heila 2 smóka um helgina og DJÖ var það vont, bjakk. BJAKK BJAKK!Ssvo var vond lykt af fötum mínum BJAKK BJAKK OJ SVEI ykkur sem reykið bjakk bjakk bjakk (hehehhehe must að vera brainwashed anti smoker).
Já greyi þið þarna…fúlu tittar!!

4 apríl 05
Dagur 32….

Gengur fínt fínt fínt fínt
Svo sem..
Ágætlega
Ekkert búin að reykja
Langar samt
Ekkert búin að reykja
Nei nei.. langar ekkert
Ha.. langar hvað?? Hverjum?

Jæks, bara síðan á föstudag er ég búin með heil 6 tyggjó!! Um daginn lá ég uppi í rúmi og lét mig dreyma um það að ég væri að reykja!! Jiminn, hefur ekki hvarflað að mér allan tímann, svo bara allt í einu núna er ég að hugsa svona. Eins og ég sagði, þá er þetta búið að vera of auðvelt. Þrátt fyrir það að mig sé að dagdreyma rettur er ég ekki í neinni baráttu með mig. Á ekkert erfitt með að labba framhjá sjoppu eða sjá fólk reykja. Ég er bara að telja mér trú um að ég eigi erfitt með mig því þetta er svo assgoti auðvelt. Ekkert gaman að vera hætt að reykja og hafa ekki frá neinni drama að segja!
Öll þessi barátta í allan þenna tíma að rembast við að plata sjálfa mig hægri vinstri til að hætta við að hætta farin í vaskinn fyrir „ nó props“!
Ég er enn hætt samt ef það skyldi hlakka í einhverju fífli að þetta sé ekki að ganga hjá mér.

24 mars 05
3 vikur!!!

*Anda inn… anda út*

Mig langar svo mikið í öööö -  tyggjó. Jebb, langar í tyggjó, langar í grænmeti, langar í vatn en mig langar svo ekkert sérstaklega mikið andskotinn hafi það í sígó.
Fjúff, 3ja vikan og þetta er orðið frekar erfitt. Reynir á sko!!! Satt að segja líður mér ekkert öðruvísi en þegar ég reykti, nema það að síðustu 2 daga eða svo hefur skotið að þeirri hugsun að mig langi í sígó.
Vaknaði um daginn, stökk fram og hugsaði, “Mig langar í sígó”, bara eins og ég hefði ekkert gert annað í mörg ár! Fiff. Undarlegt, alveg hreint undarlegt. það undarlegasta af öllu undarlegu er að ég er kvefuð! Langt síðan ég hef orðið kvefuð, ætti kannski að byrja að reykja aftur og svæla kvefið burt??
NAHHH - hef ekki áhuga, kvefið er aðeins betra.
En só só só - hef haldið út í 3 vikur.
Þangað til næst…

19 mars 05
Dagur 16….

Gengur ennþá rosa rosa vel að hætta að reykja. Langar eiginlega ekkert í sígó, fæ enga sterka löngun. Get alveg verið í kringum fólk sem reykir án þess að langa í smók. Þó er ég ekki viss um að ég væri svona pollróleg ef ekki væri fyrir þetta dásamlega bragðvonda tyggjó.
Ætla að birta smá klausu úr bókinni “maðurinn sem hætti að reykja” eftir Tage Danielson. Bókin fjallar um mann sem ólst upp við reyk, pabbi hans blés reyk framan í hann alla hans tíð og hann byrjaði sjálfur snemma að reykja. Þegar pabbi hans deyr setur hann það skilyrði í erfðarskránna að hann verði að hætta að reykja til að fá arfinn, 50 millur. Mikið í húfi þar.

“Bara að ég hefði eitthvað fyrir stafni.
Ég þori ekki út. Þar fæst tópakið.
Ég hnoða Svenska Dagblaðinu í kúlur og reyni að hitta loftljósið.
Ég skef undan nöglunum með eldspýtu.
Ég pússa neglurnar með naglaþjöl.
Ég pússa neglurnar.
Ég pússa neglurnar með vasaklút.
Ég þykist lakka neglurnar með dökkrauðu naglalakki.
Ég viðra neglurnar þar til ég þykist vera viss um að þær séu orðnar þurrar.
Ég virði fyrir mér árangurinn, óánægður með litinn og fjarlægi naglalakkið með ýminduðu acetoni.
Ég fer í jakkann og með aðstoð þumalfingurs og löngutangar reyni ég fimmhundruð sinnum að skutla krónupeningi upp í jakkaermina. Mér lánast það þrisvar sinnum.
Veistu hvað fingurnir heita? spyr ég sjálfan mig. Þumalfingur, vísifingur, langatöng, baugfingur og litlifingur spillemand. Ég endurtek þetta mörgum sinnum eða þar til mér hefur tekist að læra nöfnin.
Ég beygi þumalfingur. Ég beygi þumalfingur í hina áttina.
Ég afhýði þessi tvö kíló af kartöflum sem eru í matarbúrinu.
Ég klessi hýðinu á aftur og kem kartöflunum fyrir aftur í búrinu”.

Já, það getur verið erfitt að vera reyklaus, hhehehehhehe.

12 mars 05
Alveg hætt

Jæja, þetta skotgengur bara.
Engin drama, æjæjæjæjæjæ… ég sem sá fyrir mér svaka drama sögur hérna. En neeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeiii þetta þarf að ganga svo vel hjá mér að ég hef bara engar góðar alvöru dramasögur að segja. Soldið fúlt eiginlega sko, hafa enga sögu að segja. Ég drap í 2 mars og var það bara ekkert mál. Smjattaði á þessu tyggjói af og til svo ég mundi nú örugglega ekki brjóta veggi og þannig. Er með 2mg tyggjó og fæ mér 1/2 tyggjó með einu extra tyggjói því þetta er svo hrikalega vont… oj oj ojoj. Síðstu þrjá… eða fjóra… eða…. ??? Er ekki viss. Jæja, gildir einu, síðustu þessa nokkra daga er ég bara búin að éta 1 tyggjó á dag, þ.e.a.s. fæ mér gúmmí 2x yfir daginn. Systir mín hætti fyrir 3-4 vikum og þetta verður alltaf erfiðara og erfiðara hjá henni. Það er þá enn möguleiki á að ég komi með einhverja svakalega dramasögu hérna inn…
Dúmmdírúm… bíðið bara spennt… hehehe.

27 febrúar 2005
Úff jæja….

Jæja, allt í lagi. Ég tapaði. Skíttapaði. Ég lét undan. Jebb. Ég lét undan.
Ansi lengi hef ég verið hörð á því að hætta að reykja án þess að nota eitthvað annað í staðin, líkurnar á að ánjetast því í staðin eru frekar miklar. Til hvers að skipta á fíkn fyrir fíkn? Svo barasta er ég búin að vera svo lengi að hætta að reykja að ég ákvað að pakka þessu niður í geymslu og hefja hávært smjatt á hjálpartyggjói. Ég er reyndar ekki alveg hætt hætt, kála síðustu rettunni 1 mars, hef þá að smjatta á gúmmíi í gríð og erg, örugglega flestöllum sem umgangast mig til ómældrar ánægju…. ég smjatta dálítið smá ogguponsu hátt.

2 desember.
Dúddírú

Og áfram heldur sagan endalausa. Það er vegna þess að ég geri þetta að sögunni endalausu. Þarf ekki að vera þannig. Fyrir stuttu keypti ég mér karton og sagði Auði að ég ætlaði að hætta þegar ég væri búin með kartonið. En í dag bættust óvart við 3 pakkar, ég skil bara ekkert í þessu. Kannski vex þetta inni í skáp hjá mér. Gæti verið að þessir 3 pakkar hafi óvart ferðast með þegar ég skrapp út í sjoppu að kaupa nammi. Fyrst svo er þá reyki ég þetta bara, get ekki látið þetta liggja bara þarna. Slæmt er að ég er ekki bara að blekkja sjálfa mig, heldur Auði líka. Þetta er hræðilegt, ég hef bara ekki vott af samviskubiti yfir þessu.
Ég skil ekkert í því hvers vegna ég var að garga á mömmu og pabba þarna fyrr, ekkert gang í því. Þau hafa ekki hlýtt þessu kalli ennþá, ég tek því þannig að ég sé ekki að gera neitt af mér.
Nei annars, þá var ég að hrópa á hjálp. Ekkert vit í að grenja á þau, þau reykja sjálf.
PAKK!!!

29 nóvember 2004
Dagur 229 síðan ….. já já.

Ég keypti mér karton fyrir einhverju síðan og lofaði mér því að hætta um leið og það væri búið. Ég á núna að mér reiknast 37 rettur eftir. Eftir 37 rettur þá steypi ég mér í algjöra glötun með því að hætta því eina sem ég á erfitt með að hætta. Nei annars, það er ekki rétt. Erfiðara er að hætta að hugsa um að hætta og ofan á það bætist að það er erfitt að hætta ekki að vera hætt og hugsa um það að vera hætt. Ekki nóg með það heldur er erfitt að hætta að vera neikvæð, það er auðveldara að hætta að vera jákvæð en að hætta að vera neikvæð. Í raun og veru þá get ég ekki hætt að vera jákvæð þar sem ég er ekki byrjuð á því.
Nei nei, hvernig er komið fyrir mér eiginlega, mér reiknast núna að ég eigi 37 rettur eftir. HAHH.. alltaf að græða. Nei skamm skamm, má ekki hugsa svona. Ég meinti, djö! á ég heilar 37 rettur eftir!! Hættað telja, þetter ég!! ðe tópakkó púk.
Paaaaaabbiiiiiiiii!!!!

20 september 2004
Jíha?

Jæja. Enn reyki ég. Já já. Humm. Errrrrrrrgh…

Kannski…. nei nei.. ég ER búin að finna lausn á þessu vandamáli. Það er bók, biblía reykingamannsins hennar ég ég ég. Jaskomm, sú bók heitir létta leiðin til að hætta reykingum eftir Allen Carr. Ef ég hætti ekki að reykja þegar ég er búin að þvo heilann allrækilega af lestri bókarinnar þá þarf ég alvarlega að íhuga það að hætta við að hætta að reyna að hætta alltaf við að reykja. Svo, planið er að lesa bókin aftur. Glósa hana í ræmur og lesa meira. Lesa svo aðeins meira yfir glósur og svo lesa meira. Taka svo þessar blekkingar og kyrkja þær án dóms og laga. Trikkið er í raun einfalt.
Ég er ekki að missa af neinu - ég er að græða. Tilfinningin þegar maður hættir er að finnast maður vera að missa af einhverju, að maður hafi einhvers að sakna. Kála þeirri blekkingu til að byrja með.
Jæja, ég byrja þá einhverntímann á þessu og hendi því hér inn svo þegar mér dettur í hug. Eftir nokkra mánuði? Vona ekki.
Mamma……..!!!!!!!!

25 maí 2004
Dagur… whatever

lalalal lalala lalala lalala lala
Mig langar í sígó… nei annars, ætti að orða það þannig að ég .. ég man það ekki. Jákvæð andstæða sko, þarf að finna hana. En hugurinn einblínir í augnablikinu á .. mig langar í sígó. Er að gera tilraun til að skrifa mig frá því. Galinn er sá að mér finnst svo þægilegt að reykja á meðan ég skrifa… eins og… hugsunin starfi betur! Æhh, reykingar fólk er undarlegt fólk. Eins og sagt er: reykingar fólk er líka fólk, bara ekki eins lengi.
Ég get ekki sagt annað en að ég sé í slæmum félagsskap.. það reykja næstum allir í kringum mig, þ.e.a.s. þá sem ég umgegnst daglega. Þetta eru eins og litlir púkar sem freista mín til að reykja… og ég læt undan. Ég er búin að reykja nokkrar í dag. Ég íhugaði hvers vegna ég get ekki bara drepið í og hætt.. hvers vegna það væri ekki svo einfalt. Hvað get ég gert til að einfalda mér þetta? Ziban er sá kostur sem margir eru farnir að nota sér í dag. Tyggjó, nefúði, plástur og allt þetta sem á að hjálpa til við að hætta, er ekki eitthvað sem ég stefni á. Kannski er ég bara þrjósk kvennkind, en ég fer mínar eigin leiðir. Mér finnst eins og það sé eitthvað handan við hornið, eitthvað sem ég kem ekki auga á. Hvers vegna ætti ég ekki að geta bara drepið í og hætt? Hvers vegna ætti ég að þurfa að forðast það fólk í kringum mig sem reykir, bara því ég get ekki þaggað niður í þessum púkum? Hvað er það sem er að hindra mig? Það er það sem ég þarf að finna svarið við.
Þegar við reykjum þá erum við að reyna að *kæfa* niður eitthvað sem við viljum finna eða upplifa. Reiði, sorg, gleði, kátína, mamma, pabbi eða hvað sem er.. eitthvað sem manni finnst maður ekki hafa stjórn á og gerir tilraun til að stjórna með reyknum. Þrátt fyrir það að þegar við reykjum þá erum það ekki við sem erum við stjórnvölin.. það eru retturnar.

25 maí 2004
AAAAAAARRRRRRRRG!!!

OK… ég er slæm…
MJÖG SLÆM…. ARRRG!!
Ég játa… ég fór og keypti mér pakka…
ég lét freistast.. þarna plataði ég sjálfa mig alveg upp úr sokkunum!! HAHH!! gabbaði mig..
Ég auðvitað taldi mér trú um það að það gengi ekki að ég væri svona pirruð í kringum dóttur mína.. sem er að vissu leyti rétt. Erfitt fyrir mig að stökkva út að labba (labba stökkvandi.. hmm) ef ég er að argast eitthvað. Eða henda henni frá mér eins og ekkert sé og rjúka upp um alla veggi..
SKO!! þarna geri ég það aftur!! gabbaði mig!!
Ég var orðin nokkuð sátt við þessa afsökun. Núna datt mér í hug að það væri minnsta málið að hætta bara þegar hún fer til pabba síns.. RIGHT!! ekki nógu langur tími. Nema ég minnki við mig frá trilljón rettum á dag í næstum því trilljón?
Æ…ég hef ekki það mikla trú á sjálfri mér.. að ég hafi agann í það að minnka við mig.
Ég hvet einhvern þann sem nennir að lesa þetta að hvetja mig!!! Þó.. er ekkert svo viss um að það virki að betla hvatningu.. hmhm.
Ég er samt ekki búin að reykja nema 3 af þessum pakka sem ég keypti mér.. sem er auðvitað bara blekking líka.. að vera BARA búin að reykja 3..
Ég ætla að leggjast fyrir á eftir.. ætla að vera lungun.
Sjá og finna hvernig lungunum líður.. þeim á að líða illa..
þau hósta og kveljast. Það gengur ekkert að sjá að þeim líði vel.. þeeeeiiimmm líííððððuuuurr iiiiiiiiilllllllaaaaaa!!!

24 maí 2004
Dagur trilljón?

Jæja, þá er komið að því. Ég er búin að leggja retturnar á hilluna… í bili.
Get sagt að dagurinn í gær hafi verið dagur 1.. sem sagt sunnudagur 23 maí.
Á laugardaginn skrapp ég út og fékk hjálp við að klára seinustu retturnar. Var ekki alveg viss um að ég ein gæti klárað 17 rettur. Þegar heim var komið átti ég alveg 3 eftir, gat ekki haldið mér vakandi lengi, náði bara að klára 2,5. Passaði mig á því að bleyta retturnar í bakkanum svo ég færi ekki að reykja stubba, þar á meðal þennan hálfa stubb. Það vill vera þannig að maður gerir lítið annað en að blekkja sjálfan sig í svona aðstæðum.. kannski er ekkert svo erfitt að hætta, erfiðara er að hætta að blekkja sjálfan sig. Ég byrjaði á því að svekkja mig á því að hafa ekki geymt stubbinn.. þetta væri miku auðveldara ef ég hefði bara klárað allar retturnar, ekki skemmt heilann stubb!! Ég ætlaði einnig að vera svakalega dugleg að hjálpa líkamanum í hreinsunarferlinu, drakk vatn og ab mjólk allann daginn. Ég gafst upp kl 20:00.. pítan kallaði og kallaði á mig að borða sig og ég nauðsynlega varð að hlýða þessu kalli. Ekki það að ég hafi verið svöng.. matur er bara svoooo góður. Ég svaf reyndar mest allann daginn. Gerði reyklausann daginn einfaldari. Svaf líka mest allt kvöldið og alla nóttina…
Dagurinn í dag er ekki búinn að vera svona einfaldur. Að vinna í sjoppu þar sem allt er fljótandi í rettum er hægara sagt en gert. Gældi við þá tilhugsun að það væri miklu auðveldara að hætta í næstu viku, þegar ég er hætt í sjoppunni. En er það ekki bara blekking? Systir mín kom svo í kaffi áðan og freistaði mín til að fá mér smók..
Veröldin var ömurleg áðan, var ekki að búast við mikilli birtu í framtíðinni og allt bara volæði. Svo.. fékk ég eina rettu hjá systu, reykti hana hálfa og hjólaði í vinnuna. Skyndilega birti yfir veröldinni og ég búin að vinna ansi mörg þrekvirki (í framtíðinni þá)… Varð skyndilega svona afsaplega kát með lífið. Ég verð að játa það.. að ég er búin að reykja 2 rettur í í dag. Fyrir mér, reykingarmanneskjunni er óeðlilegt að reykja ekki. Þetta er ég búin að gera upp á hvern einasta dag í ansi marga daga.. legg það ekki á mig að telja þá.
það er ekki það að maður verði að vera tilbúin til að hætta.. frekar að maður verður að leggja af sjálfblekkingum og sýna smá aga. Það er í raun sjálfsblekking að maður verður innst inni að vera tilbúin og hafa vilja til að hætta. Ég hugsa að fáir hafa hætt á þeim forsendum.. hugsa frekar að fólk hafi hreinlega tekið ákvörðun um að hætta..
Þrátt fyrir allt… jú, ég get þetta.

17 apríl 2004
Dagur 2

OK…
Hef ekkert annað að segja en ok..
sem sagt dagur 2 varð ekki heldur reyklaus frekar en dagur 1..
Ég gleymdi að skrifa listann yfir hvað er gott og hvað er vont við rettur. Held ég sé búin að blekkja sjálfa mig með öllum mögulegum ráðum sem hægt er að finna. Þar er kannski lausnina að finna. Skoða yfir þessar blekkingar svart á hvítu. Eða allavegna í áttina. Verð að átta mig á því að þetta er ekki auðvelt. Sem ég ætlaði mér að þetta yrði. Hvernig fer ég að því að blekkja mig til að hætta að reykja? Fyrst ég get notað allar mögulegar og ómögulegar afsakanir til að fá mér smók, þá ætti ég að geta gert það á sama hátt til að fá mér ekki smók. Skilaboðin sem ég gef sjálfri mér eru eins og matur. Ég þarf að mata mig á þeirri staðreynd að ég sé hætt að reykja. “Mig langar ekki í sígó” gefur ekki góða raun. Þegar svona mötun á sér stað þá á orðið “ekki” ekki að vera. Mötunin verður “Mig langar í sígó”. Það sannaðist best á vinkonu minni. Hún tuðaði “mig langar ekki í sígó” áður en hún fór að sofa. Hún vaknaði upp með gífurlega þörf til að fá sér sígó.
Á morgun og næstu daga þarf ég sem sagt að auga blekkingar og afsakanir.. skrifa það niður ásamt þessum skemmtilega lista.

16 apríl 2004
Dagur 1

Ég átti nokkrar rettur eftir til að reykja í dag. NEMA.. ég brást sjálfri mér allsvakalega áðan þegar það datt upp úr mér í búðinni að ég ætlaði að fá einn win**** (bannað að auglýsa tópak.. ekki satt;). Átti alveg eina eftir af hinum rettunum og bætti við 20 stykkjum. Ég get ekki sett dæmið upp þannig að ég geymi þennan pakka *ef ske kynni* að ég fari að gala eins og *argvitlaus hæna* (þó ég viti vel að hænur gali ekki en heiii… allt getur gerst).
Jæja.. get víst ekki skilað pakkanum þar sem ég er búin að opna hann og mér er með öllu ófært að gefa hann.. það reykja svo margir í kringum mig að það yrðu bara slagsmál (kommon.. er ég ekki að blekkja mig þar;)
Ég þarf að byrja á því í kvöld að setjast niður, humma svolítið og gera mér grein fyrir því hvers vegna ég sé að þessu. Skrifa kannski lista yfir hvað sé gott við þetta og hvað slæmt.
Kona ein las svo mikið um skaðsemi reykinga að hún hætti að lesa, haha.
Mér telst að ég sé búin að reykja 9 rettur í dag.

14 apríl 2004
Dagurinn fyrir

Á morgun rennur upp sá dagur þar sem ég ætla mér að hætta að reykja. Er strax farið að langa að hlaupa út í sjoppu að kaupa mér meira en ég á núna.. sem sagt nokkrar rettur, sem ég ætla mér þó að klára. Bara svona… því ég ætla mér að klára það sem ég á .. upp á birgðirnar að gera. Ég er auðvitað að blekkja mig stórlega þarna. Mig langar líka óskaplega mikið að minnka bara við mig smátt og smátt.. en þar er ég einnig að blekkja mig, ég þekki mig of vel til að vita að það gæti gengið. Það er kannski kjánalegt að segja *ég þekki mig of vel*.. en málið er að þrátt fyrir hversu vel við þekkjum okkur sjálf þá getum við alltaf blekkt okkur… “svona verður þetta ekki núna, ég get þetta svona núna.. minnsta málið í heimi:D!!” og aftur og aftur hef ég fallið fyrir þessu… þrátt fyrir hversu vel ég þekki sjálfa mig. Ég sagði dóttur minni frá þessari áætlun minni. Sagði að bráðum ætlaði ég að hætta að reykja og hún þyrfti að hjálpa mér. Ég gæti orðið pirruð og svolítið reið.. og þess vegna þyrftum við að hjálpast að.. svo að… hún botnaði það með því að segja “svo lífið verði gott” Ég hreinlega missti af mér andlitið við þessa setningu. Ég er handviss um að hún eigi eftir að muna eftir þessu og eigi eftir að verða ómetanlegur stuðningur í baráttu minni/okkar. Hún er ekki enn búin að gleyma því þegar ég bað hana um að skamma mig ef ég blótaði.. það gerir hún hiklaust. Hingað til hefur mér ekki dottið í hug að láta hana vita eða beðið hana um að aðstoða mig.. en ég veit að það verður mér auðveldara með hana til að styðja mig.. þó lítil sé. Hún hefur haft miklar áhyggjur af þessu síðan hún fór að lesa á pakkann.. “mamma, reykingar DREPA!!!”
Þrátt fyrir mínar útskýringar að reykingar geta valdið sjúkdómum sem að lokum draga mann til dauða og ég sé ekki að fara neitt þá er hún óþreytandi í að benda mér á þessa staðreynd.
Mig langar óskaplega mikið að vera frjáls.. en er að gugna á þessu fyrirfram. Það er hreinlega ekki hægt.. þá yrði ég að viðurkenna algjörann ósigur sem ég útfæri hér.. það gengur engann veginn!!!
Trilljón pakkar af tyggjói verða mitt hugg….